Fara í efni
Pistlar

Sperðlar

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 57

Ef það voru sperðlar í hádegismatinn, sem henti blessunarlega oft og iðulega, gat maður verið svo til viss um það að orkan dyggði manni drjúgan partinn fram á kolsvart kvöld.

Það var eins og krafturinn ólgaði í æðum manns allan tímann fram að háttatíma og ekkert gæti stöðvað lífsins ærsl.

Reykt og saltað feitmetið, sem amma í Gilsbakkavegi vildi helst af öllu hafa trakterað og troðið inn í sverar kúagarnir – en mamma vildi síður gera okkur börnunum – var svo vinsælt á borðum okkar systkinanna á Syðri-Brekkunni, að það ríkti jafnan dauðaþögn í eldhúskróknun, norðan til í húsinu, þegar húsfreyjan veiddi hvert grjúpánið af öðru upp úr löðrandi sveittri kastarollunni og slengdi sérhverju þeirra á diskana okkar við hliðina á heimaræktuðum kartöflunum og grænu baununum úr Kaupfélagi Eyfirðinga. En svo var beðið í andakt eftir uppstúfnum, nokkuð sykruðum að vanda, en hæfilega söltuðum án þess að hveitbragðið eyðilegðist. En sósan sú arna var ein megin ástæða þess að beðið var við borðið, af meiri einurð en æðruleysi, á meðan vatnið seytlaði í munni manns.

Sjálfur gat ég torgað tveimur sperðlum fyrir tíu ára aldur ef ég át þá nógu hægt, en þar var nefnilega helstur vandinn kominn. Góðan matinn, og þaðan af enn þá betri, átti maður til að slafra í sig á harðaspani, og þess vegna klikkaði planið full til tíðlega þegar uppáhaldið var á borð borið.

En þá stóð maður á blístri eftir bara einn og sama sperðilinn sem hafði verið gleyptur full til glannalega.

Svo lærðist þetta. Og ef ilminn af soðnum sperðlum lagði út á bílaplan í hádegishléinu, vissi maður, að nú væri vert að fara sér hægt við borðið.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: BÚRIÐ

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00

Aðventa

Magnús Smári Smárason skrifar
10. desember 2024 | kl. 16:16

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00