Snjóhúsin
AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 56
Enda þótt eitthvað tognaði nú úr manni sakir hamsatólgs og sláturs, svo og annars heimalagaðs feitmetis, varð maður aldrei svo stór og þroskaður að það væri hallærislegt að byggja snjóhús. En ætli nokkuð hafi verið akureyskara í ungdæmi manns en að skora skaflinn á hólm með skóflu í hendi, og grafa sig í fönn.
Hlaðin snjóhús gátu vitaskuld verið góð og gild, en á Syðri-Brekkunni var miklu meira atriði að stinga sér inn í ferlegar fannbreiðurnar, sumar hverjar svo þykkar að þær ypptu öldum sínum við húsþökin.
En þetta var leikur okkar frá hausti fram á vor, ævinlega komin í kuldagallann um helgar og hvern einasta seinnipart að afloknum skóla, en það þyrfti að lengja einhver göngin, ellegar að hækka þau til loftsins, en einsetningin var jafnan sú að hafa þau manngeng svo það þyrfti ekki að vera að brölta þetta og skjögra, en miklu heldur væri hægt að bjóða fjöldanum til stofu og halda þar samkomu að hætti eldra fólksins.
Í minningunni voru þessar vistarverur eitt manns helsta athvarf að vetrarlagi og í endurlitinu kvikna kertaljós sem stillt hafði verið upp við veggi álmanna – og það er sem hugurinn finni enn þá anganina af logandi kveik sem yljar litlum sálum um hjartaræturnar.
Og þarna var setið og skrafað um lífsins efstu rök á meðan kertin brunnu og vettlingarnar þornuðu lítið eitt í varmanum. En stemningin var einmitt blandin því barnslega stolti að hafa komið sér þaki yfir höfuðið og geta notið skjóls í eigin kommúnu með krökkunum í götunni.
Þessi einstaka baðstofumenning lifir eilíflega með þeim sem hana þekkir – og stundum, þegar hún laumar sér inn í drauma manns, færist bros yfir svefninn.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: SPERÐLAR