Fara í efni
Pistlar

Skora á ríkisvaldið að viðhalda undanþágu

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar skorar á ríkisvaldið að framlengja undanþágu frá vinnuskyldu á sértækum byggðakvóta þannig að byggð megi haldast áfram í Grímsey. Bókun þessa efnis var samþykkt samhljóða á bæjarstjórnarfundi í gær.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, var málshefjandi og rifjaði upp að Grímseyingar hafa notið undanþágu frá vinnsluskyldu á fiski veiddum innan heimilda sértæks byggðakvóta, en fyrir nokkru tilkynnti Byggðastofnun að henni væri ekki heimilt að endurnýja þá undanþágu.

  • Sértæki byggðakvótinn er skilgreindur í 10. gr. a. í lögum um stjórn fiskveiða. Þar segir að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar aflahlutdeild sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. laganna, til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Mynd: Friðþjófur Helgason

Óhagkvæmt og ekki umhverfisvænt

„Það liggur fyrir að nær ómögulegt er að koma upp vinnslu í eyjunni, í það minnsta ekki vinnslu sem gæti staðið undir sér,“ sagði Halla Björk. „Treysta þarf á ferju sem siglir þrisvar í viku yfir vetrartímann og við munum öll hvernig staðan var síðasta vetur, en þá var hún frá í þrjá mánuði. Þá er ljóst að ef vinnsla á að ganga þarf að flytja mikið magn af fiski út í eyju. Þetta getur því ekki borgað sig og getur alls ekki talist umhverfisvænt."

Halla Björk kvaðst hafa ásamt Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra átt góðan fund með Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra þar sem ýmsar lausnir hafi verið ræddar, meðal annars að setja af stað spretthóp sem kæmi með tillögur. „Við auðvitað bindum vonir við að það verði jákvæð niðurstaða úr þeirri vinnu,“ sagði Halla Björk á bæjarstjórnarfundinum í gær.

Sérstaða og klæðskerasniðin lausn

Halla Björk benti á að fólk geti spurt sig hver stefnan sé í byggðamálum, hvort við viljum og hvort það sé einhvers virði fyrir okkur sem þjóð að byggð haldist vítt og breitt um landið, eða öllum landshlutum og eyjum.

Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Ef svarið er já, er þá nokkur vandi fyrir okkur að skoða sérstöðu eyjarinnar og klæðskerasníða lausnir fyrir íbúa hennar þannig að þeim verði gert kleift að búa þar sem þau hafa alið manninn í marga áratugi og með mikilli seiglu barist í gegnum hvern skaflinn á fætur öðrum?“ spurði Halla Björk og sagði það sitt mat að verðmæti væru fólgin í því að styðja við byggð í eyjunni og væri mikill skaði ef fótunum yrði kippt undan því með þeim hætti sem nú væri lagt upp með.

Halla Björk sagði einnig að á undanförnum árum hafi verið farið í mikla vinnu í gegnum verkefnið Brothættar byggðir til að móta framtíðarsýn og finna leiðir til að efla byggðina og snúa íbúaþróunninni við. Hún sagði árangur hafa náðst sem komi meðal annars fram í því að ekki hafi orðið frekari fólksfækkun, þjónusta hafi eflst og í Grímsey séu nú reknir tveir veitingastaðir og þrjú gistiheimili. Ferðamannastraumur hafi einnig aukist.

Andúð í garð Grímseyinga

Jón Hjaltason velti fyrir sér ástæðum þess að ekki virtist vilji fyrir því að veita áframhaldandi undanþágu og kom inn á andúð í garð Grímseyinga vegna þess hvernig farið hafi verið með byggðakvótann. Hann vísaði til þess að innan núverandi kerfis hafi einstakir úgerðarmenn selt frá sér kvóta og síðan unnið innan sértæka byggðakvótans.

Mynd: Friðþjófur Helgason

„Það er mikil óánægja innan geirans, fiskveiðigeirans, vegna þess hvernig Grímseyingar hafa farið með kvótann,“ sagði Jón og hélt áfram: „Þeir hafa selt hann frá sér og síðan vinna þeir á byggðakvótanum. ... Þetta, hvernig einstakir menn fara að, þeir eru innan allra laga og reglna, þeir fara eftir kerfinu sem við höfum búið til, þannig að ég velti fyrir mér hvort þessi óánægja hafi smitast inn í Byggðastofnun, að þeir séu að gjalda þess, eyjarskeggjar, að einstakir útgerðarmenn hafa selt frá sér kvótann og vinna síðan á byggðakvótann. Ég bara velti því fyrir mér og mér finnst ósanngjarnt ef það er þannig,“ sagði Jón.

Jón benti á að samkvæmt reglugerðinni geti ráðherra, óháð jafnræðisreglu, veitt undanþáguna áfram. Jón hvatti eindregið til þess að sækja mjög hart á ráðherra að veita áðurnefnda undanþágu og kvaðst vona að andúð sem hann segist hafa orðið var við í garð Grímseyinga vegna hátternis einstakra manna hafi ekki smitast inn í ráðuneytið líka. „Hugsum um hag eyjarskeggja. Dæmum þá og veitum þeim það sem þeir þurfa, en horfum framhjá því hvernig einstakir menn hafa farið með sinn kvóta.“

Bókun bæjarstjórnar

Halla Björk lagði fram bókun sem samþykkt var með 11 samhljóða atkvæðum bæjarstjórnar. Bókunin er svohljóðandi.

Grímsey er einstök eyja við heimskautsbaug þar sem hefur verið byggð frá landnámi og mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að styðja við byggðarlagið. Eins og staðan er nú er nær ómögulegt að halda uppi landvinnslu í eyjunni vegna landfræðilegrar stöðu. Á síðasta ári var ferjan í slipp í 12 vikur. Ljóst er að erfitt er því að treysta á ferjusiglingar með hráefni til og frá eyjunni. Bæjarstjórn Akureyrarbæjar skorar því á ríkisvaldið að framlengja undanþágu á vinnsuskyldu á sérstökum byggðakvóta þannig að byggð megi haldast áfram í Grímsey.

Upptöku frá umræðum um málefni Grímseyjar má sjá í spilaranum hér að neðan.

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00