Fara í efni
Pistlar

Siginn fiskur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 18

Í endurminningunni er alltaf fiskur í matinn þegar skotist var heim í hádegismat, en þá var hann ýmist bakaður, hertur, reyktur, saltaður, siginn, eða bara soðinn þverskorinn, en stundum líka á pönnu, ef það var til nógu mikil glás af sméri á heimilinu. En það var ekki sjálfgefið. Frekar en svo margt annað matarkyns.

Enda dýrtíð. Og verðbólgan eitthvað á annað hundrað prósent.

Mér þótti alltaf sá signi lystugastur, eða eins og amma í Gilsbakkavegi var vön að kalla það upp á danska vísu, dæmalaust hvað hann væri delikat, en þá var kosturinn líka sá að yfrin öll af hamsatólg fylgdi með, svo ekki mátti á milli sjá hvort meira var af fiski eða floti á diskinum.

Og það þótti ömmu ekki bara appetligt, heldur líka lækkert, ekki síður en mér, strákpjakknum á heimilinu, innan um stöppuðu kartöflurnar, heimaræktaðar úr bakgarðinum á Brekkunni, þær bestu í bænum, baðaðar í storku.

Mörin var nefnileg svo bragðgóð, en kræsilegur keimurinn af henni var á við sambræðing af sviðnum grút og beiskri brækju. Smakkið það arna smellpassaði við sterkjuna af stinnu fiskmetinu sem fór mikinn á tungunni, enda stirtlan að jafnaði lítið eitt ýld og kæst, svo á stundum stukku tár af hvarmi.

Og með þessu öllu saman voru svo drukkin býsnin öll af búrvolgri mjólk, uns staðið var á blístri og kviðurinn strokinn í mátulegum makindum. Gott ef það þurfti ekki að hafa aðeins fyrir því að koma sér upp af eldhúskollinum – og klæða sig aftur í gallann, áður en skottast var í skólann á ný.

Svona kappalinn hafði maður krafta í allan eftirmiðdaginn. En sá var þó vandinn að vart mátti mæla fyrir tólginni í túlanum. Skánin sat þar föst. Og fitustokkinn kjafturinn á manni komst ekki í samt lag fyrr en fór að kvölda.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: LAGNING

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00