Fara í efni
Pistlar

Sérfræðingarnir

Við lifum á tímum sérfræðinga um alla skapaða hluti. Þetta er ekkert nýtt af nálinni. Tími sérfræðinganna um allt rann ekki upp þegar Covid-19 bylgjan skall á í mars í fyrra. Ónei. Sérfræðingarnir skjóta upp kollinum þegar mikilvæg mál komast í umfjöllun og umræðu. Og samfélagsmiðlarnir hafa nú aldeilis verið hvalreki á fjörur allra þessara sérfræðinga. Nú geta þeir dælt úr viskubrunnum sínum án afláts.

Kórónuveirufaraldurinn hefur auðvitað gefið sjálfskipaðri sérfræði margar ástæður til að dæla úr viskubrunnum. Maður rifjar upp frá bæði vorinu og haustinu í fyrra: Margir viðruðu yfirburða þekkingu sína á veldisvexti, tveggja metra bili og auðvitað um framleiðslu og dreifingu á bóluefnum og um áhrif bólusetninga. Og nýjasta sérfræðin er á sviði Skammta­fræði. Sérfræðingarnir verða ferðaþjónustunni eflaust notadrjúgir þegar það hyllir undir að hjólin þar fari að snúast.

Gegnum tíðirnar höfum við margoft séð, heyrt og lesið visku sérfræðinganna sem gerast landsliðsþjálfarar í knattspyrnu og auðvitað í handbolta þegar það á við. Valið á leikmönnum í landsliðin er iðulega gagnrýnt af sérfræðingunum – með ýmsum hætti. Of gamall, of lítil reynsla, ekki í nógu góðu leikformi er oft viðkvæðið, svo eitthvað sé nefnt. Og nú er heldur betur runninn upp gósentími fyrir sérfræðingana. HM í handbolta. „Vörnin er alltof afturliggjandi“. „Þeir eru alltof framarlega í vörninni“. „Þeir eiga ekkert í þá maður á móti manni“. „Af hverju er Guðmundur ekki búinn að taka leikhlé?“. „Hvað á þessi markmaður að vera lengi inná án þess að verja neitt?“. Ekki er með öllu ólíklegt að svona setningar muni skreyta Fésbók og Twitter næstu vikurnar. En það er líka ágætt. Heimilislegt og þjóðlegt. Og hver ætlar ekki að njóta handboltans með Þorramatnum sem bíður nú átekta í súrfötunum? Þetta er janúar fyrir íslensku þjóðinni. Og svo losnar heimsbyggðin við Donald úr Hvíta Húsinu í Bandaríkjahreppi í sama mánuði! Kannski kemur hann þá inn á einhvern Twitter reikning og gefur komment á hraðaupphlaupin hjá strákunum… niður Pennsylvania Avenue?

Grétar Þór Eyþórsson er stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00