Fara í efni
Pistlar

Samgöngusamfélagar

„Samfélag“, prufum að brjóta það upp í orðin sem þetta er sett saman úr; sam-fé-lag. Sam- er einhvers konar summa eða heild, -fé- á væntanlega upphaflega við kindur en merkir í dag peningar, -lag er sögnin að leggja (til). Samfélag er því samlag fjármuna eða umgjörð um sameiginlega hagsmuni. Félagi getur svo verið vinur eða lagsmaður. Því má kannski segja að þeir sem búa í samfélögum séu samfélagar.

Á Íslandi búa flestir í bæjarfélögum sem eru samfélög og flestir eru líka á samfélags-miðlum. Og öll eigum við okkar stóru og smáu samfélög; landið, bæjarfélagið, íþróttafélagið, heita pottinn, Lions o.s.frv.

Við gerum okkur öll grein fyrir því að í ör-samfélögum eins og á kaffistofunni, í heita pottinum og á golfvellinum gengur ekki upp að einn félaginn sé alltaf að troðast yfir aðra eða vera með læti. En eftir því sem samfélagið stækkar verður meira og meira svigrúm fyrir einstaklinga að haga sér án þess að taka tillit til samfélaga sinna.

Það eru örugglega til þúsundir og þúsund ára gamlar greinar og fræðirit um samfélög; hvernig þau hafa sprottið upp, mótast, þróast, vaxið, dafnað og jafnvel lognast út af.

Í aldanna rás hefur væntanlega verið reynt á hverjum tíma að setja niður ákveðin boðorð eða gildi fyrir samfélagana; koma systemi á galskapet. Í dag eigum við hundruð og þúsundir laga og reglna um hvað við megum og megum ekki gera í samfélaginu en síðan er það allt hitt sem er ekki sett niður á blað; samskiptin, tillitssemin, viðhorfin og virðingin fyrir samfélögunum.

Það hafa allir upplifað það síðustu mánuði í Covid hvað hefur reynt á margt í samfélögum okkar og við höfum þurft að breyta mörgu í daglegu lífi. En flest gerum við okkur grein fyrir því að um heildarhagsmuni er að ræða og gerum því flest það sem ætlast er til. En það eru ekki bara sóttvarnir sem þarf að huga að þegar fólk býr þétt og náið í samfélagi. Það er fjölmargt fleira sem við þurfum að sameinast um að breyta og bæta í samfélagi okkar. Eitt af því er samgöngur.

Í samgöngusamfélagi okkar er enginn yfir annan hafinn frekar en í Covid, hvort sem viðkomandi ferðast á milli staða á bíl, á hjóli eða gangandi. Við höfum nefnilega öll í sameiningu lagt okkar til allra samgöngumáta samgöngukerfisins í gegnum sameiginlegan bæjarsjóð. En við vitum það líklega öll líka að það er verulegur aðstöðumunur þegar kemur að því að velja samgöngumáta. Miklum fjármunum er varið í samgöngur bíla bæði úr sameiginlegum sjóðum og úr vasa einstaklingsins.

Samkvæmt kortavef Google er ekki mögulegt að finna lengri akstur á milli tveggja staða á Akureyri en sem nemur 12 mínútum. Ég endurtek; lengsta mögulega ferðalag innanbæjar á bíl er 12 mínútur, já 12 mínútur. Allar styttingar, bætt þjónusta o.þ.h. mun því aldrei skila meira en einhverjum sekúndum í styttri ferðatíma á bíl.

Flestar ferðir í bíl eru því aðeins nokkrar mínútur og ég hugsa að þeir sem fara flestra sinna ferða um Akureyri með öðrum hætti en á bíl séu sammála um að það væri virkilega vel séð að þeir sem velja oftast bílinn hafi eftirfarandi í huga:

  1. Að skipta yfir í 100% rafbíl við fyrsta tækifæri (aðeins 237 af 14.280 í mars 2021)
  2. Að nota aðra samgöngumáta oftar
  3. Að vinsamlegast leggja ekki bílnum upp á gangstétt, við gangbraut eða beygjur.
  4. Að nota ekki nagladekk innanbæjar
  5. Að skilja bílinn ekki eftir í lausagangi
  6. Að nota ekki bíl í blíðviðri
  7. Að skutla ekki börnum á staði í göngu- og hjólafjarlægð
  8. Að 4.000 kílóa pallbíll er ekki skutl-bíll, heldur flutningabíll
  9. Að tala ekki í síma og keyra á sama tíma
  10. Að hugsa hlýtt til þeirra sem ákveða að vera ekki í (á) þínum vegi

Guðmundur Haukur Sigurðarson er tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00