Sálumessur á sunnudegi
Það var ekki lítið við haft í Akureyrarkirkju sunnudaginn 7. nóvember. Þar komu fram sameiginlega tveir af fremstu kammerkórum landsins, Kammerkór Norðurlands skipaður söngfólki víða af Norðurlandi og hins vegar Hymnodia, að langmestu leyti skipuð söngfólki á Akureyri. Kórarnir voru að þessu sinni undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, sem jafnan stýrir Kammerkór Norðurlands, en Eyþór Ingi Jónsson kórstjóri Hymnodiu lék á orgel og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir á selló. Einsöngvari var Hildigunnur Einarsdóttir messósópran.
Að loknum tónleikum sagði ég og segi enn að þetta voru einhverjir áhrifamestu tónleikar sem ég hef setið. Tónlistin afskaplega fjölbreytt og litskrúðug, sameinaður kórinn bókstaflega á tánum, söngur einstaklega góður og hljóðfæraleikur sömuleiðis, en það er einu sinni svo að þegar hljómlistin er góð og tjáningarfull fyllist ég einhvern veginn af henni og get ekki setið kyrr, ég hrífst með í hæðum og lægðum og tilfinningarnar flæða, stundum með tárum, stundum með brosi eða hlátri – en allir voru með grímu nema tónlistarfólkið svo þetta fór svolítið leynt í þetta sinn. Í lok svona tónleika er ég stundum svo þreyttur að mér finnst ég hafi tekið þátt í ævintýrinu. Innan í mér.
Efnisskráin var hrífandi. Sálumessur eru jafnan ekki miklir gleðikonsertar, en þó er ævinlega sveiflast dálítið milli sorgar og gleði, enda felst í dauðanum ný von. Verkin voru úr nokkrum áttum, íslensk, frönsk og bandarísk, öll frá tuttugustu öld.
Fyrst á dagskránni var Jón Leifs. Kórarnir sungu þá Requiem, sem er spuni þjóðlaga og þjóðvísna sem Jón setti saman þegar dóttir hans féll frá á unga aldri. Sálumessu Jóns hef ég áður heyrt en aldrei hefur hún sungið sig jafnnærri hjarta mínu og í þetta sinn. Þetta var frábær upptaktur að þessari tónlistarhátíð. Í kjölfar þess beindist athyglin upp á söngloftið þar sem Hildigunnur Einarsdóttir söng tvö verk Jóns Leifs, Vögguvísu við ljóð Jóhanns Jónssonar og bæn Hallgríms Péturssonar, Vertu guð faðir, faðir minn. Eyþór Ingi Jónsson lék á orgelið og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir á selló. Og hvílík rödd og hvílík tjáning hjá þessu fólki. Þetta var einstaklega áhrifamikið og mér vöknaði um augu.
Þá tók kórinn við og söng fyrst O Sacrum Convivium, sem er eitt fárra kórverka sem franska 20. aldar tónskáldið Olivier Messiaen lét frá sér fara. Þarna var allt annar hljóðheimur en úr smiðju Íslendingsins, miðevrópsk mildi með fögrum hljómi sem sté og hneig og söng sig inn í tilfinningakerfið með blíðu í lokin. Þá var komið að bandaríska tónskáldinu með danska nafnið, Morten Lauridsen, O Magnum Mysterium. Morten þessi er nokkru yngstur tónskáldanna og það er einnig greinilegt í þessu verki hans og hann hefur að mörgu leyti aðra áferð og annan, nútímalegri og stríðari hljóm, með áhrifamiklum styrkbreytingum, sem reyndar má segja að hafi einkennt meginhluta tónleikanna. En þessi þrjú fyrstu tónskáld gefa ótrúlega breidd í hljómheim kóranna.
Mesta verkið á efnisskránni var Requiem op. 9 eftir franska tónskáldið Maurice Duruflé, sem fæddist í Louvien í Norður-Frakklandi en var lengi fastráðinn tónlistarstjóri í Notre Dame dómkirkjunni og var gríðarlega afkastamikið tónskáld, en með tímanum fylltist hann sjálfsgagnrýni og fleygði stórum hluta verka sinna. Eitt af þeim sem eftir stendur er þessi magnaða sálumessa. Verkið varð til á löngum tíma, hófst 1941 og var frumflutt 1947 og felur í sér meðal annars ógnir seinni heimstyrjaldar, og ógurleg átök lífs og dauða, þar sem lífið hefur vinninginn, svo það sé sagt í sem stystu máli.
Það er engu logið um að þessi mikla og gullfallega sálumessa er krefjandi verk fyrir alla sem taka þátt í flutningi þess. Organistinn Eyþór Ingi er í rúmlega fullu starfi við hljóðfærið, hvílík yfirferð, kórinn sveiflast einnig á öllum tilfinningaskalanum, frá lágværu upphafi margra kaflanna upp yfir hæstu hæðir í tóni og styrk. Það var ekki hægt að sitja kyrr undir þessu og ég mátti hafa mig allan við að halda mér í bekkinn. Og inni í miðju hljómahafinu ómaði gullslegin rödd Hildigunnar og seiðandi ómur Steinunnar í Pie Jesu. Þetta var bara svo ótrúlega fallegt. Ég hef heyrt fleiri útgáfur af þessu verki en þessi var góð og nándin er alltaf best.
Undirtektir tónleikagesta voru hlýjar, langvarandi og standandi. Og nú gátu allir varpað öndinni, og gleði, undrun og ánægja skein úr þeim andlitum sem ég sá. Ég nefndi það við Guðmund Óla í lokin að það væri synd að fólk legði á sig þessa óskaplegu vinnu fyrir eina tónleika og ekkert meir. Hann sagði mér þá að til þess stæðu vonir að flytja þessa dagskrá á ný fyrir sunnan. Ég bara vona allra vegna að það verði fyrr en síðar.
Tónleikarnir í Akureyrarkirkju á sunnudag. Ljósmynd: Daníel Starrason.