Fara í efni
Pistlar

Rákir á norðurhimni

Það er ekki á hverju ári og ekki einu sinni á hverjum áratug sem gefin hefur verið út djassplata með akureyrskum tónlistarmönnum. Nú ber vel í veiði því á dögunum kom út frábær djassplata, Rákir, með kvartett Ludvig Kára Forberg.

Hér fyrir nokkrum árum stóð Jazzklúbbur Akureyrar fyrir Heitum fimmtudögum í Deiglunni sem hluta af Listasumri, en klúbburinn hefur haft hljótt um sig í alltof mörg ár. Ekki vantar okkur frábæra djassleikara heldur kannski frekar tækifærin til að þeir komi fram. Ég hef ekki orðið var við að boðið sé upp á djass á sumarhátíðum undanfarið, og væri ærin ástæða til. Á allrasíðustu misserum hefur tækifærum til að hlusta á djass þó fjölgað á Akureyri. Veitingastaðurinn í Hofi stóð um tíma fyrir vikulegum síðdegistónleikum og af og til hafa verið smátónleikar á R5 barnum. Þar hafa margir stigið á djassstokkinn, meðal annarra Andrea Gylfadóttir, Pálmi Gunnarsson, Kristján Edelstein og Halli Gulli auk þeirra sem eru á plötunni góðu sem hér um ræðir. Vonandi fær djasssólin að rísa á ný þegar okkur tekst að stugga við veirunni.

Rákir eru verk Ludvigs Kára, sem lengi hefur verið kennari við Tónlistarskólann á Akureyri. Reyndar þykist ég muna eftir því að hann hafi komið norður og spilað á slagverk þegar Passíukórinn flutti Carmina Burana eftir Carl Orff í Íþróttaskemmunni undir stjórn Roars Kvam seint á liðinni öld.

Tónverkin sjö á plötunni eru verk Ludvigs og hann hefur fengið til liðs við sig úrval hljóðfæraleikara. Sjálfur leikur hann firnavel og lipurlega á víbrafón og snertir auk þess dálítið á Rhodes-píanói. Samleikur hans og saxófónsnillingsins Phil Doyle er á köflum unaðslegur og kjölfestan undir þessu öllu saman eru Einar Scheving á trommum og Stefán Ingólfsson á bassa, sem eru eins og samhentir tvíburar í grunninum en aldrei þó í felum. Platan er tekin upp í Hofi og upptökustjóri var Haukur Pálmason. Ágústa Jenný dóttir Ludvigs gerði plötuumslagið. Kvartett Ludvigs hefur ekki látið mikið á sér bera en kom þó fram á Jazzhátíð Reykjavíkur í september 2019. Platan kom út rúmu árið síðar, 12.12.2020.

Lögin á plötunni eru sem fyrr segir sjö, hvert með sínum svip, en í eyrum mínum fann ég í mörgum lögum tengingar við eina af mínum uppáhaldshljómsveitum, Steps Ahead, enda var aðaleinkenni þeirrar sveitar einkum samspil Mike Manieri á vibrafón og Michael Brecker á sax. Og er ekki leiðum að líkjast. Þeir Ludvig og Phil ná alveg firnavel saman.

Lögin á plötunni eru í heild djassbræðingur af betri sortinni og talsvert um sólókafla bæði á saxófón og víbrafón, en svo bregður Ludwig sér á hljómborð afar fallega og fimlega í Elevator Jazz. Kannski er hraði og öryggi áberandi á plötunni en ljóðræn og nærgætnisleg lágværari stemming er í fallegu lagi, One for Reynir. Þetta er svo skemmtilegt.

Rákir eru í tveim orðum sagt frábær djassplata og gríðarlega gott innslag í djassútgáfu á Íslandi. Ég er ekki í vafa um að djassunnendur hvarvetna á Íslandi yrðu glaðir ef þeir fyndu Rákir í einum jólapakkanum sínum.

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00