Fara í efni
Pistlar

Nöldur og níð og þverpólitík

Stundum heyrir maður í fréttum að þverpólitísk sátt hafi náðst um einhver málefni og er því gjarnan slegið fram sem einhverju nánast óhugsandi. Í það minnsta þykja slíkar lyktir tíðindi allmikil og frávik frá hinum venjubundna framgangi þar sem flokkspólitík ræður gjarnan för. Hvers vegna skyldi þetta vera svona og hví virðist frekar gert ráð fyrir pólitískum erjum við afgreiðslu hagsmunamála en samvinnu og víðsýni?

Sjálfur er ég svo mikið (flokks)pólitískt viðrini að ég fór ekki á alvöru kosningabaráttufund fyrr en Katrín Jakobsdóttir, íslenskufræðingur og glæpasagnagúru eins og ég þykist líka vera, tróð upp á Hótel KEA. Ætli þetta hafi ekki verið 2017. Skoðanakannanir bentu til að nú væru tveir turnar, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn og allir æptu á annað hvort vinstri eða hægri stjórn. Ég, algjörlega grænn í þessum bransa, stóð upp á fundinum og spurði Katrínu hvort ekki væri lag að stefna að stjórn sem næði yfir litrófið, myndaði brú yfir boðaföllin. Nýta styrkleika vinstri og hægri, mynda samstöðustjórn og þar með slá vopnin úr höndum væntanlegrar stjórnarandstöðu; þvinga forystufólk landsins til að ná saman; hætta pólitísku argaþrasi og vinna saman að hagsmunamálum þjóðarinnar.

Já, ég veit. Þetta var barnalegt. Ég seig niður í sætið á ný. Vinstra liðið horfði á mig með óbeit. Orð mín voru svik við málstaðinn. Samvinna félagshyggju og frjálshyggju var víst ekki til í neinum fræðibókum og voru og áttu að vera ósamrýmanlegar andstæður. Skotgrafirnar máttu ekki breytast. Svart og hvítt máttu ekki blandast í grátt. Í minningunni sé ég reiðilegt og úfið fólk í lopapeysum og mussum kyrja Nallann með kreppta hnefa og ég hrökklaðist óvígur út af mínum fyrsta og eina pólitíska fundi með höfuðið fullt af skömm einfeldningsins.

En viti menn. Svo var mynduð stjórn þvert yfir miðjuna. Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn með Framsókn í miðju og meint stjórnarandstaða vissi ekki í hvorn fótinn hún átti að stíga. Þarna var loks komið tækifæri fyrir Alþingi til að vinna saman og ég er ekki frá því að fyrri ríkisstjórn Katrínar hafi verið ansi farsæl á erfiðum tímum. Mér fannst stjórninni takast að virkja frumkvæði, kraft og auðmagn þeirra til hægri án þess að fara út í öfgafulla frjálshyggju og hið mjúka og mannlega á vinstri kantinum virtist líka lita samfélagið í hæfilegum skömmtum. Og Framsókn stóð sig vel sem límið í miðjunni með sína frambærilegu fulltrúa. Sannarlega kærkomin tilbreyting frá þessu vonlausa vinstri/hægri þrátefli.

Þótt ég eigi það til í minnimáttarkennd minni að þykjast líta dálítið stórt á mig ætla ég ekki að titla mig sem guðföður umræddrar ríkisstjórnar. Á hinn bóginn held ég enn að þetta fyrsta og eina veikburða pólitíska ávarp mitt hafi verið býsna hyggilegt og að Katrín Jakobsdóttir hafi haldið mjög vel á spilunum í þeirri ríkisstjórn og jafnvel lengst af í núverandi stjórnarsamstarfi. Hún hafði kjark og getu til að virkja drifkraft sjálfstæðisstefnunnar og halda utan um þverpólitíska stjórn. Auðvitað ekki án fórna fyrir VG en hagsbóta fyrir þjóðina.

Sagan var sannarlega ekki með vinstri mönnum í samstarfi við Sjallana. Bóka mátti fylgishrun og eflaust þess vegna voru kjósendur VG svona uggandi eða æfir því þegar á hólminn er komið hugsar hver fyrst um sig – og síðan þjóðina ef tími vinnst til. Þessum ágætu félagsmönnum hefur með afgerandi hætti tekist að þrusa rýtingum í bakið á formanni sínum og forsætisráðherra og flokknum í heild, oft með aðstoð vinsælla hagyrðinga, rithöfunda, málfræðinga og annarra gáfumenna í þjóðfélaginu. Nagg, nöldur og níðvísur með þeim hætti að ég hef jafnvel sopið hveljur þótt ég kalli ekki allt ömmu mína og segist standa fyrir utan þetta allt saman.

Jú, mikið rétt, skoðanakannanir stimpla VG út úr stjórn, út af þingi, út í hafsauga. Kannski fyrirséð sjálfskaparvíti og ekki endilega sanngjarnt. Reyndar hefur Sjálfstæðisflokknum ekki haldist vel á spilunum og vissulega má segja að allt hafi gengið betur þegar Bjarni Benediktsson var í fjármálunum en ekki með fýlusvip í diplómatísku vafstri. Einhvers konar sjálfskaparvíti líka á ferðinni þar. Ætli Framsókn komi ekki standandi niður úr stjórninni með sinni stóráfallalausu frammistöðu?

Það er þetta með þverpólitíkina og hagsmuni heildarinnar. Hjá sveitarfélögum, t.d. Akureyrarbæ, hefur oft reynst prýðilega þegar kjörnir fulltrúar kappkosta að vinna saman í stað þess að búa til skotgrafir stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta fannst mér, glænýjum pólitískum leikskýranda, líka takast vel á Alþingi undir stjórn Katrínar. Þá er ég að tala um heildarmyndina, ekki bara benda á heimsfaraldur og náttúruhamfarir og sameiningarmátt slíkra afla eins og sumir hafa staglast á sem „afsökun“ fyrir ágætri frammistöðu stjórnarinnar.

Sennilega höfum við þó lítið lært. Við köllum ráðamenn okkar barnamorðingja, dýraníðinga, útlendingahatara, auðvaldssinna, fífl og fávita og kennum þeim um allt sem miður fer, hefur farið eða gæti hugsanlega farið. Ráðherrar og jafnvel fjölskyldur þeirra fá yfir sig ólýsanlegt skítkast. Vissulega hefur margt misfarist hjá ríkisstjórninni en yfirleitt virðist hún þá reyna að gera betur. Þolinmæði kjósenda er þó lítil, tala nú ekki um virka í athugasemdum.

Ég hef þá tilhneigingu að styðja allar stjórnir til góðra verka – kannski inngróin meðvirkni en líka pólitísk bernska. Hafi þjóðin veitt stjórn umboð sitt er sjálfsagt að láta á það reyna. Væri ég Kata Jak eða Bjarni Ben myndi ég hins vegar af persónulegum ástæðum láta gott heita þegar þessu kjörtímabili lýkur og jafnvel fyrr. Þau eru samt örugglega með harðari skráp en ég og gætu bara tvíeflst. Í tilfelli forsætisráðherra sýnist mér staðan þó vera sú að meintir kjósendur eru ekki lengur til staðar, þeir hafa fundið aðra vonarstjörnu og bíða nú færis, sæta lagi og þurfa ekki lengur að vega úr launsátri.

Jæja, ég er nú vanari að skrifa háðsádeilur en pólitíska pistla og læt þetta nægja að sinni enda blautur á bak við eyrun í þessum efnum. Mér finnst bara ekkert merkilegt við þessa þverpólitík, mér finnst hún bara sjálfsögð.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson fæst við kennslu og skriftir af ýmsum toga

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00