Nöldur og Nagg
Ég er búinn að hafa svo gott sem sömu æfingafélaga í ræktinni í 20 ár. Þetta eru að mestu mektar menn miklir: Lögmaður, söguritari, læknir, vegagerðarmaður, júdófrömuður og svo rakarar. Þetta er skrautlegur kokteill, ekki síst þegar prófessor er hrært saman við. Hópurinn hefur rakað saman ýmsum verðlaunum í þrektengdum greinum gegnum árin … sem reyndar eru farin að færast yfir. Allt þetta undir nafninu Nöldur og Nagg. Það er vel við hæfi, enda innanborðs mikið um hverskyns tuð, nöldur og nagg. Og útá við meðal annars um skipulagsmál bæjarins þar sem helst engu má breyta. Helst ekki um vindátt.
Mörg vonbrigði síðustu 12-16 mánaða hafa svo kynt undir nöldur og nagg hvers og eins, enda ræktin verið lokuð vænan part af þeim tíma. Það eru auðvitað vonbrigði númer eitt.
Hvað undirritaðan varðar var svo annað áhyggjuefni sem tengdist bólusetningunum. Það var að heilbrigðiskerfið vildi endilega hreint koma í mig AZ bóluefninu hafandi það skjalfest og geirneglt að ég hefði tvisvar fengið blóðtappa í fætur! Þetta leiddi til þess að ég meldaði mig veikan í apríllok þegar AZ glundrinu var dælt í alla mína jafnaldra. Eftir smá juð og bið fékk ég loksins Fæser í öxlina. Já, nöldur og nagg getur borgað sig.
Svo má nú heldur en ekki nöldra yfir þessu yfirgengilega kuldatímabili sem herjað hefur undanfarið. Hvorki ég né elstu menn muna annan eins hroll upp á hvern dag. Hvern einasta. Hér hef ég hinsvegar staðið ráðþrota varðandi kvartanir við veðurguði. Ég hef engar upplýsingar um hvernig hægt er að nöldra í þeim og naga. Það væri ótrúlega mikil framför að Veðurstofan aflétti þessari leynd! Jafnvel spurning um veðurstofuna í Borgarhlíð!
Göngum þó framá við og lítum sumarið björtum augum. Jafnvel þótt daginn byrji að stytta eftir einn mánuð. Og munum að nöldur og nagg er stórlega vanmetið.
Grétar Þór Eyþórsson er stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.