Nokkur orð um trú
Ýmsir vina minna hafa sagt mér að trú mín sé afskaplega heimskuleg. Svona eins og það að trúa á eitthvað sem ekki er áþreifanlegt, alls ekki hægt að sanna að sé til og svona hitt og þetta sem ætti alveg að sýna mér það hversu óraunhæf þessi trú mín sé. Þeir fatta það ekki samt að mín trú breytist eftir því sem ég eldist og þroskast (vissulega ekki mikið, en samt). Stundum fell ég í þá gryfju að spyrja hvernig hægt sé að trúa á útvarpsbylgjur eða einhverja strauma um málma, eitthvað sem enginn sér. Þá fæ ég undantekningarlítið mjög einfalt svar, það er nefnilega búið að reikna það út hvernig þetta virkar allt saman og basta. Með stærðfræði er hægt að gera allt konkret. Þar viðurkenni ég fúslega að stærfræðikunnáttu minni er stórlega ábótavant. En. Eitt mitt uppáhaldsorð, en, hvað ef stærðfræðin er ekki algild og hárrétt. Hvað ef eitthvað vantar í stærðfræðina til að gera hana betur til þess fallna að reikna út tilveruna. Hún hefur hvort eð er þegar gengið lengra en bara fyrir örfáum árum og hvað segir að hún geti ekki gengið ennþá lengra. Það sem kannski skiptir máli fyrir mér er að óvissuþátturinn virðist ekki vera marktækur í einhverskonar formúlu um lífið. Nema hvað það er búið að reikna það út að svarthol drekki í sig massa, orku og tíma, þvert á allar rökréttar stærðfræðilausnir. Semsagt, það er vitað að stærðfræðin er ekki algild og að lausnir og jöfnur, fara eftir staðsetningu í tíma og rúmi. Óvissan er alltaf til staðar. Þegar ég nenni eitthvað að fara út í þetta, mér til skemmtunar og öðrum iðulega til leiðinda, þá spyr ég stundum út í þessa tvo merkilegu hluti, trú og von. Við höfum enga fullvissu fyrir því að það komi dagur eftir þennan dag. Samt hegðum við okkur alltaf eins og það sé fullvíst. Við vonum að komi dagur eftir þennan dag og trúum því. Að vísu eru mestar líkur á því að það gerist, en samt ekkert víst með það. Sem þýðir í mínum huga að það sé í raun ekki hægt að kljást við veruleikann án þess að trúa. Trúa því að það komi nýr dagur, að vona að bráðum komi betri tíð með blóm í haga. Aftur á móti virðist almennur kærleikur eiga nokkuð langt í land. En hann er þarna. Ég trúi því.
Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi