Lífstíðareign II
Ég hljóp í skarðið í fataflokkuninni hjá Rauða krossinum í gærmorgun. Þetta er ekki auðvelt starf og það tekur á taugarnar að mæta bara endrum og sinnum. Sjálfboðaliðarnir eru flestir með áralanga reynslu og á tveimur sekúndum geta þeir metið hvort flík sé söluvæn og eigi erindi í verslun Rauða krossins eða hvort hún fari í gáminn og eitthvað út í lönd. Aðspurðir efuðust reynsluboltarnir um að meira en tíu prósent þess fatnaðar sem berst Rauða krossinum rati í verslunina. Ég er hugsi yfir þessu. Í fæstum tilfellum er nokkuð að fötunum sem send eru til útlanda, þau eru varla slitin.
Ég er hugsi yfir þessu kerfi endurvinnslu og endurnýtingar. Það virðist við fyrstu sýn vera dyggð að gefa til Rauða krossins en málið er flóknara en svo. Það er framleiddur allt of mikill textíll í heiminum með tilheyrandi vatnssóun, eiturefna- og olíunotkun. Vandamálið er sálfræðilegt. Við erum forrituð til að kaupa og fylgja tísku og fyrir okkur eru stöðugt lagðar snörur. Af hverju ætti maður ekki að nýta sér tilboð og útsölur? Er ekki alltaf gott að gera kjarakaup? Og er fjölbreytt vöruúrval ekki hið besta mál? Hver vill gamla Ísland hafta og fábreytni, ha? Þetta er einfalt: kaupa vandað þótt það sé dýrara, fara vel með (hengja upp til þerris í staðinn fyrir að setja í þurrkara) og láta gera við. Svo getur Rauði krossinn og Hertex tekið við.
Og meðan ég man, hættum að henda bensíni. Að hafa bíl í lausagangi er að henda bensíni. Það er á einhvern hátt krúttlegt þegar fólk skilur bílinn eftir í gangi og stekkur inn í búð. Það er til marks um að traust ríkir til náungans. Eitt sinn sá ég löggubíl í gangi við Krambúðina Byggðarvegi (löggurnar eflaust að kaupa sér kleinuhringi). En þetta er orðið dálítið þreytt. Og þreyttast af öllu eru bílar í gangi við grenndargáma. Ég gerði óvísindalega könnun um daginn; 7 af hverjum 10 sem voru að afferma bíla sína við grenndargáma höfðu þá í gangi á meðan.
Sjálfboðamennska er göfugt starf og ég fann nokkuð til mín þarna í gærmorgun. Eða þangað til mér varð ljóst að ég hafði í raun borgað með mér. Ég hafði lagt forláta húfu (lífstíðareign) upp í hillu og á einhverjum tímapunkti hafði hún lent í einhverjum flokkunarkassanum. Það munaði minnstu að gleraugun mín færu sömu leið, en þau hafði ég lagt frá mér á glámbekk. Það þarf nefnilega að hafa hraðar hendur. Það er varla að sjálfboðaliðarnir hafi undan að ausa hriplekann bátinn.
Arnar Már Arngrímsson er rithöfundur á Akureyri