Fara í efni
Pistlar

Kvöldleikir

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 54

Enda þótt útsendingar Sjónvarpsins næðu alla leið til Akureyrar á seinni hluta sjöunda áraugarins, og sá svarthvíti veruleiki tæki að heilla mann og annan á kolniðamyrkum síðkvöldum, fannst okkur krökkunum heldur lítið koma til nýju mublunnar í stásstofunni sem hafði að geyma ávalan skerminn.

Gilti einu þótt forláta draghurð væri framan á kassanum, snoturlega felld inn í hliðarnar þegar opnað var fyrir útsendingar, en efnið að sunnan, var bara ekki nógu áhugavert fyrir okkur ungviðið.

Þarna voru bara einhverjir áhyggjufullir fréttamenn að greina frá aflabresti og óðaverðbólgu, svo og vandræðalegir veðurfræðingar að snúa standi með illa útkrotuðum kortum. Og þess á milli voru þjóðlagatríó að syngja, ellegar að enn einn þátturinn af Onedin-skipafélaginu fyllti heimilið af ónotum og þaðan af meiri hörmungum á hafi úti.

Og það sem fullorðna fólkið gat grátið yfir þessu öllu saman, eða gnýst í besta falli tönnunum saman frá því dagskráin byrjaði með því að hugguleg þula bauð góða kvöldið og þar til tilfinningaþrungið þjóðlag var leikið undir restina með yfirlitsmyndum af Þingvöllum.

Þá var nú skárra að skemmta sér úti við. Og raunar langtum líflegra en að sífra yfir sendingunni að sunnan. Krakkarnir í hverfinu hópuðust nefnilega saman eftir kvöldmat og skiptu óðara í lið sem köstuðu ýmist snjóboltum hvert í andlit annars, eða hlóðu upp heilu snjóhúsin af enn þá meira kappi.

Og þannig týndist tíminn hjá iðandi krakkaskaranum sem skilaði sér ekki inn í hús fyrr en sjónvarpsdagskráin hafði klárast og búið var að draga fyrir glæra belginn á vælugjörnu viðtækinu.

En við ættum að gjöra svo vel að klæða okkur úr útifötunum í hitakompunni.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: TEKIÐ SLÁTUR

Tengslaröskun geðlæknisins

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
02. apríl 2025 | kl. 08:45

Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni

Sigurður Arnarson skrifar
02. apríl 2025 | kl. 08:30

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Fíkn og viðhorf

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 09:45

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 07:45

Selur í eldhúsvaski

Jóhann Árelíuz skrifar
30. mars 2025 | kl. 09:00