Fara í efni
Pistlar

Krafa ráðuneytis að bærinn brjóti lög?

Hugmynd að útfærslu á byggingu lífsgæðakjarna við Þursaholt, teiknuð af Fanneyju Hauksdóttur hjá AVH arkitektum. Áformað er að nýtt hjúkrunarheimili verði á þessu svæði
Heilbrigðisráðuneytið gerir kröfu um niðurfellingu gatnagerðargjalda í samkomulagi milli ráðuneytisins og Akureyrarbæjar um breytt fyrirkomulag vegna byggingar hjúkrunarheimilis á Akureyri fyrir allt að 80 rými. Gert er ráð fyrir að einkaaðili byggi og reki hjúkrunarheimilið. 
 
Bæjarráð hefur samþykkt samkomulagið með þeim fyrirvara að láta reyna á þann rétt Akureyrarbæjar að innheimta gatnagerðar- og byggingargjöld og lóðarleigu af lóðinni hjá byggingaraðila í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu.
 
Við Þursaholt í stað Vestursíðu
 
Samkomulagið gengur út á að nýtt hjúkrunarheimili verði reist við Þursaholt í stað Vestursíðu 13 eins og kveðið var á um í fyrra samkomulagi. Þessi breyting rímar við áform bæjarins um uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara við Þursaholt, í hinum nýja hluta Holtahverfis austan Krossanesbrautar. Skipulagsbreyting í Holtahverfinu vegna þessara áforma er í lögformlegu ferli.
 
Þrátt fyrir kröfu ráðuneytisins um niðurfellingu áðurnefndra gjalda var það mat bæjarráðs að í ljósi stöðunnar væri ákaflega mikilvægt að undirrita fyrirliggjandi samkomulag, með fyrirvara sem lýtur að gatnagerðargjöldunum. Bæjarráð bendir einnig á að mikilvægt sé að leysa úr ólíkum skilningi ríkis og sveitarfélags varðandi gatnagerðargjöldin, án þess að sá ágreiningur tefji uppbyggingu hjúkrunarheimilisins enda væri það með öllu óboðlegt.
 
Einkaaðili byggi og eigi heimilið
 
Bæjarráð telur það algjört forgangsmál að nýtt hjúkrunarheimili verði tekið í notkun á Akureyri eins fljótt og auðið er, enda sár þörf fyrir fleiri hjúkrunarrými í sveitarfélaginu, eins og segir í bókun ráðsins.
 
„Ríkið leggur nú til í fyrsta sinn að einkaaðili byggi og eigi hjúkrunarheimili. Því miður er þó gerð krafa um að sveitarfélagið gefi eftir gatnagerðargjöld, þvert á það sem sagt er fyrir um í lögum,“ segir einnig í bókun bæjarráðs og er ekki annað að skilja en að bæjarráð líti svo á að ráðuneytið krefjist þess að Akureyrarbær brjóti lög með samkomulaginu.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00