Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Syðri-Varðgjá

Í hlíðum Vaðlaheiðar, gegnt Akureyri, má sjá gróskumikinn Vaðlareit, Skógarböðin auk blómlegra byggða. Áður var þar margt stórbýlið en eftir því sem þeim hefur fækkað hefur sumarhúsum, heilsárshúsum og íbúðarhúsum að sama skapi fjölgað. Svæði þetta markar ysta hluta Eyjafjarðarsveitar, áður Öngulsstaðahrepps, sem og syðsta hluta Svalbarðsstrandarhrepps. Þarna eru líka sýslumörk Eyjafjarðar- og S-Þingeyjarsýslu, enda þótt sýslurnar séu aflagðar sem stjórnsýslueiningar. Um 700 metrum sunnan við þessi sveitarfélagamörk stendur bærinn Syðri-Varðgjá, nokkuð hátt í aflíðandi brekku ofan Veigastaðavegar. Þar er um að ræða eitt fimm steinhúsa, sem reist voru sumarið 1920, í hreppunum framan Akureyrar og var húsið reist eftir teikningu Sveinbjarnar Jónssonar. Stysta akstursleið frá Miðbæ Akureyrar að Syðri -Varðgjá (um Eyrarland og Leifsstaðabraut að Eyjafjarðarbraut eystri) er nálægt 6 kílómetrum. Vaðlareitur er að hluta til í landi Syðri-Varðgjár.
 
 

Varðgjá er ekki landnámsjörð en mun vera fornt örnefni, en í Landnámu segir, að Helgi magri hafi gefið Þorgeiri syni Þórðar bjálka, Hlíf dóttur sína, og land frá Þverá út að Varðgjá. Bjuggu þau á Fiskilæk. Varðgjá mun hafa verið klettagjá við fjöruborð, þar sem skip gátu lent en fylltist síðar af framburði lækja. Tilgátan er sú, að verðir hafi jafnan gætt þessarar lendingar í fyrndinni og nafnið þaðan komið. Varðgjáin sjálf gæti því mögulega hafa verið á svipuðum slóðum og Skógarböðin eru nú eða lítið eitt norðar, þar sem klettabelti eru í sjó fram. Var þessi gjá löngum sýslumörk Vaðlasýslu (síðar Eyjafjarðarsýslu) og Þingeyjarsýslu. Hvenær Varðgjárjörðin byggðist fyrst er ekki ljóst, en kennileitið birtist stöku sinnum í heimildum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Elsta heimildin sem Stefán Aðalsteinsson (2019:2113) nefnir í Eyfirðingum framan Glerár og Varðgjár (hér eftir Eyfirðingar) um jörðina Varðgjá, virðist vera frá 1390. Þá seldi síra Guðmundur Jónsson, í umboði Steinmóðar ríka Þorsteinssonar, Hákoni bónda í Hvammi jörðina Varðgjá. Þannig er ljóst, að jörðin Varðgjá hefur byggst á 14. öld eða fyrr. Um 1650 var jörðinni skipt í Syðri- og Ytri-Varðgjá. Fram til 1852 töldust Varðgjárbæirnir til Suður Þingeyjarsýslu, en hefur líkast til upprunalega verið Eyjafjarðarsýslumegin; til marks um það er, að jörðin hefur alla tíð tilheyrt Kaupangskirkjusókn. Varðgjá hefur einnig verið rituð Vargá eða Vargjá.

Íbúðarhúsið að Syðri-Varðgjá er einlyft steinhús, hlaðið úr r-steini (sbr. Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson 1996: 110) á háum steyptum kjallara, með háu risi og miðjukvisti að framanverðu (vestanverðu). Að austan er smár þríhyrndur kvistur fyrir miðju, auk inngönguskúrs. Á vestanverðu eru svalir úr timbri. Krosspóstar eru í flestum gluggum, bárujárn á þaki og veggir múrhúðaðir. Áfast húsinu að norðan eru fyrrum fjós (síðar fjárhús) og hlaða. Grunnflötur íbúðarhússins er 8,3x10,12m og útskot að austan 2,26x2,12m (skv. teikningum Ingvars Gígjars Sigurðarsonar). Alls er húsasamstæðan 23,47m að lengd í N-S en mesta breidd A-V 13,71m.

Sem fyrr segir er fyrrum fjós og hlaða sambyggt íbúðarhúsinu en á bernskuskeiði steinsteypunnar í sveitum landsins, á fyrri hluta 20. aldar voru þess háttar húsasamstæður móðins. Syðra-Varðgjárhúsið var þó reist stakstætt og stóð þannig í sjö ár, en útihúsin voru reist 1927. Fyrstu árin munu kýrnar hafa verið hýstar í kjallara hússins, en þannig nutu íbúarnir yls frá kúnum. Slíkt fyrirkomulag hafði tíðkast frá alda öðli í óupphituðum baðstofum torfbæja. Þá er auðvitað rétt að geta þess, að samnýting íbúðar- og búpeningsrýma tíðkaðist í gömlu torfbæjunum og var þar almennt um að ræða sambyggingar skepnuhúsa, hlaða, skemma og íbúðarrýma.

Fyrst minnst er á torfbæi, þá stóð auðvitað slíkur á Syðri-Varðgjá frá fornu fari. Sem fyrr segir fluttist Syðri Varðgjá milli sýslna árið 1852, ásamt Ytri-Varðgjá. Þá átti og bjó á Syðri-Varðgjá, Guðmundur Magnússon. Hann var fæddur hér árið 1797 en foreldrar hans, Magnús Hallgrímsson og Þórunn Guðmundsdóttir bjuggu hér á árunum 1794 til 1813. Guðmundur virðist ekki hafa tekið við búinu af foreldrum sínum, því hann sest hér að 1826. Nú kann einhver að spyrja hvað ábúendur á fyrri hluta 19. aldar hafa með núverandi hús að gera, sem reis öld síðar. Svo vill nefnilega svo til, að tengdadóttir Guðmundar Hallgrímssonar, Margrét Kristjánsdóttir, var móðir og tengdamóðir þeirra sem byggðu núverandi íbúðarhús á Syðri Varðgjá. Margrét Kristjánsdóttir, frá Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði var gift Sigfúsi Guðmundssyni Hallgrímssonar. Sigfús lést hins vegar ungur og bjó Margrét hér sem ekkja í þrjú ár uns hún giftist Hermanni Sigurbjarnarsyni. Eignuðust þau fimm börn og tvær dætur þeirra gerðust síðar húsfreyjur á Varðgjárbæjunum. Svava Hermannsdóttir giftist Tryggva Jóhannssyni og bjuggu þau á Ytri-Varðgjá. Aðalbjörg Hermannsdóttir giftist um 1904 Stefáni Stefánssyni frá Tungu á Svalbarðsströnd og tóku þau við búinu á Syðri-Varðgjá sama ár (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019:2117). Umfjöllun um húsasögu er oft samtvinnuð ættfræði og þá sérstaklega þegar um ræðir bæi, þar sem sömu ættir bjuggu oft mann fram af manni. Þegar ritaðar eru langar ættartölur getur það gerst, að nöfn misfarist. Eru þá ábendingar hvers konar, þar að lútandi, vel þegnar.

Eins og fram hefur komið í þessum pistlum, mætti kalla sumarið 1920 „steinhúsasumarið“ í hreppunum framan Akureyrar. Það þótti nokkrum tíðindum sæta og rataði að þá risu fimm steinhús í þeim sveitum. Steinhús voru þá teljandi á fingrum annarrar handar í héraðinu og ekki voru þau heldur mörg á Akureyri. Það virtist hins vegar koma einhver kippur í byggingu steinhúsa árið 1920 og jókst mjög árin á eftir. Mögulega má rekja þetta til þess, að liðkað hafi um innflutning á sementi, járni og öðrum byggingaaðföngum á þessum árum, en væntanlega hefur allt slíkt verið örðugt á árum fyrri heimstyrjaldar. Á þessum árum komu einnig fram ungir og metnaðarfullir byggingarfræðingar, sem numið höfðu erlendis, og lögðu fyrir sig hina nýju húsagerðarlist. Nokkurs konar „steinhúsafræðingar“ Má þar m.a. nefna Guðjón Samúelsson, Jóhann Franklín Kristjánsson, Halldór Halldórsson og Sveinbjörn Jónsson, sem einmitt teiknaði Syðri-Varðgjá.

Hinn, þá 24 ára Ólafsfirðingur, Sveinbjörn Jónsson, sem nýlega hafði numið byggingarfræði Noregi, teiknaði árið 1920 m.a. tvö íbúðarhús í Öngulsstaðahreppi og fáein á Akureyri. (Kannski teiknaði Sveinbjörn einnig Kropp í Hrafnagilshreppi, sem reis sama sumar). Hann hafði árið áður fundið upp r-stein, sérstakan hleðslustein og smíðað þar til gerða vél, sem steypti þessa steina. Þess má geta, að hún er varðveitt á Iðnaðarsafninu á Akureyri. Íbúðarhúsið á Syðri-Varðgjá var einmitt reist úr þessum merka steini og er líklega annað húsið, sem reist er úr honum. Fyrsta r-steinshúsið var hús Þórhalls Bjarnasonar við Oddeyrargötu 15. Svo vill þó til, að það hús var líka reist 1920, svo líklega munaði aðeins örfáum vikum á húsunum. Sveinbjörn var mikilvirkur uppfinningamaður og smíðaði hin ýmsu tól til landbúnaðarstarfa m.a. heyýtu. Þá var hann einnig frumkvöðull í hönnun hitaveitna. Þess má líka geta, að Sveinbjörn þýddi barnaleikrit Thorbjörn Egner um Karíus og Baktus. Síðar fluttist Sveinbjörn til Reykjavíkur, þar sem hann stofnaði Ofnasmiðjuna og var löngum kenndur við það fyrirtæki.

Stefán Stefánsson og Aðalbjörg Hermannsdóttir reistu sem fyrr segir núverandi hús að Syðri-Varðgjá. Þau hafa einnig reist fjós og hlöðu úr steinsteypu, áfast íbúðarhúsinu. Ekki fylgir sögunni hver hannaði þær byggingar, en freistandi að álíta, að þau hafi leitað til Sveinbjarnar, sem þá var orðinn sveitungi þeirra; hann teiknaði og reisti húsið Knarrarberg í Öngulsstaðhreppi fáeinum árum áður. Stefán var sem fyrr segir fæddur á Tungu í Svalbarðsstrandarhreppi. Hann bjó hér í 35 ár, en hann fluttist árið 1939 að Svalbarði á samnefndri strönd, þar sem hann stundaði búskap. Hann var þá orðinn ekkjumaður, en Aðalbjörg Hermannsdóttir lést árið 1936, hafði þá búið hér allan sinn aldur. Stefán Stefánsson lést árið 1964 og segir í minningargrein um hann, að á Syðri-Varðgjá hafi þau reist “[...] hvert hús úr rústum og bjuggu við rausn, enda stóð búskapurinn styrkum fótum, þó að húsbóndinn væri löngum önnum kafinn við opinber störf“ (Benjamín Kristjánsson 1964:5). Þannig má áætla, að húsakosturinn hafi ekki verið beysinn, þegar þau hófu uppbyggingu. (Þess má líka geta, að í framangreindri minningargrein eru Stefán og Aðalbjörg sögð hafa gifst árið 1903 en í Eyfirðingum 1904). Af þeim opinberu og öðrum störfum sem Stefán sinnti má nefna, að hann var lengi ullarmatsmaður Norðlendingafjórðungs, sat í bygginganefnd Húsmæðraskólans á Laugalandi og endurskoðandi hjá KEA í 30 ár. Þá má nefna, að Stefán Stefánsson var föðurbróðir hins kunna landkönnuðar, Vilhjálms Stefánssonar. Hálfbróðir Stefáns, var Jóhann Stefánsson sem fluttist til Norður-Dakóta. Sonur Jóhanns, Vilhjálmur, hlaut föðurnafn hans, Stefánsson, sem ættarnafn, samkvæmt þarlendri hefð.

Árið 1934 var húsakostur Syðri-Varðgjár metinn til brunabóta og lýst nokkurn veginn svona: Íbúðarhús 8x10m að stærð, 7,5m hátt. Tvöfaldir steinveggir og skilrúm í kjallara og stofuhæð úr sama efni. Skilrúm á lofti, sem og loft og gólf úr timbri. Eldavél í kjallara og miðstöðvarketill, 4 radíatorar [svo] í stofum. Raflögn er í húsið, 1 rafeldavél, 3 ofnar, 2 eldstæði og húsið búið vatnsleiðslu. Áfast húsinu er 12 bása fjós og hlaða 13x5m, 4,5m á hæð úr steinsteypu með járnþaki (sbr. Björn Jóhannesson 1934: [án bls.]) Herbergjaskipan var ekki getið. Fimm árum eftir að matsmenn Brunabótafélagsins heimsóttu Syðri-Varðgjá, seldi Stefán Stefánsson jörðina og þangað fluttu þau Pétur Guðmundsson og Aðalbjörg Jónsdóttir. Þau bjuggu aðeins í tvö ár hér, til 1941 en þá settust hér að þau Þorkell Björnsson og Anna Eiríksdóttir, sem bjuggu hér í fjögur ár. Páll Vigfússon og Margrét Benediktsdóttir bjuggu að Syðri-Varðgjá frá 1945 til 1958.

Árið 1958 fluttu að Syðri-Varðgjá þau Egill Jónsson frá Hrolllaugsstöðum í Hjaltastaðaþinghá og Þórdís Þórólfsdóttir frá Stórutungu í Bárðardal. Þau voru einmitt ábúendur hér þegar Byggðum Eyjafjarðar voru gerð skil í samnefndu ritverki árið 1973, en upplýsingarnar þar miðuðust við stöðuna árið 1970. Þá voru byggingar, auk íbúðarhússins, sem talið var 481 rúmmetri, fjós fyrir 12 kýr, fjárhús fyrir 100 fjár, hesthús fyrir 7 hross og hlöður sem alls tóku 550 hesta af heyi. Það jafngilti metnum töðufeng af 10,7 hektara ræktuðu landi jarðarinnar. Þá var stunduð hér kartöflurækt, á hálfum hektara lands. Bústofn Syðri-Varðgjár árið 1970 samanstóð af 8 kúm, 8 geldneytum, 122 fjár og 7 hrossum (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:411)

Árið 1990 var húsakosturinn sá sami og 1970 og kemur fram í þeirri bók, að fjárhúsin séu byggð 1927, 1932 og 1947 og elsta fjárhúsið hafi áður verið fjós. Þar er um að ræða húsið, sem áfast er íbúðarhúsinu. Hlöður eru byggðar 1927 og 1934 og eru samtals sagðar 534 rúmmetrar; gamla heyfengsmælieiningin, hestar, er ekki notuð í það skiptið. Geymslur byggðar 1927, 1947 og 1964 eru alls 132 fermetrar. Bústofn er 130 fjár og sjö hross (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993:603) Ábúandi er Egill Jónsson, en Þórdís lést árið 1984. Egill Jónsson, sem hét fullu nafni Stefán Egill Jónsson bjó hér fram á síðasta dag, en hann lést árið 2015. Árið 2010 hafði bústofn Egils dregist töluvert saman frá 1990, kindurnar tuttugu og tvær og hrossin þrjú (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson 2013:603) Ræktað land árin 1990 og 2010 var 12,3 hektarar.

Árið 1983 var húsið Brekkulækur reist á 1000 fermetra leigulóð, skammt sunnan og neðan Syðri-Varðgjár. Þar voru að verki Þórólfur, sonur Egils og Þórdísar og kona hans Sigrún Kristbjörnsdóttir. Fáeinum árum síðar fluttu þangað Sveinn Egilsson (bróðir Þórólfs) og Guðrún Andrésdóttir.

Á árunum 2018-21 fóru fram gagngerar endurbætur á húsakosti Syðri-Varðgjár, eftir teikningum Ingvars Gígjars Sigurðarsonar. Á meðal framkvæmda á teikningunum var innrétting á gamla fjósinu, svalir að vestanverðu og kvisturinn á vesturhlið. Í húsinu reka börn þeirra Egils og Þórdísar gistiheimili og hafa endurbæturnar, að utan jafnt sem innan, miðast við það hlutverk. Það verður eflaust enginn svikinn af því að gista þetta glæsta ríflega aldargamla hús í hlíðum Vaðlaheiðar; óborganlegt útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörðinn, sveitina og fjörðinn til beggja átta, fram og út. Endurbæturnar á húsinu eru sérlega vel heppnaðar og kvisturinn setur raunar enn skemmtilegri svip á þetta formfagra en látlausa hús. Syðri-Varðgjá er vitaskuld aldursfriðað hús, þar sem það er byggt árið 1923. Þá hlýtur það að hafa nokkuð byggingarsögulegt gildi, sem annað hús veraldarsögunnar, reist úr r-steini. Húsið stendur á áberandi stað, í brekkunum ofan Vaðlareits og blasir skemmtilega við frá Akureyri. Á næstu árum er fyrirhuguð mikil uppbygging þéttbýlis skammt norðan við húsið, í landi Ytri-Varðgjár. Þá hefur einnig risið nokkuð þéttbýli sunnan hússins, sem kallast Kotra. Verður Syðri-Varðgjá glæstur fulltrúi elstu gerðar steinsteyptra íbúðarhúsa innan um nýju hverfin. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar 3. september 2024, en eldri mynd, sem sýnir Syðri-Varðgjá án kvists er tekin 5. febrúar 2011. Myndin af Oddeyrargötu 15 er tekin 10. júlí 2010.

Heimildir

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Benjamín Kristjánsson. 1964. „Stefán Stefánsson, bóndi á Svalbarði“. Íslendingur. 27. tbl. 50. árg. bls. 5.

Björn Jóhannesson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Jónas Rafnar. 1975. Bæjalýsingar og teikningar. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30