Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Kroppur

Einn af vinsælli áfangastöðum Eyjafjarðarsveitar er Jólagarðurinn, sem margir kalla í daglegu tali, Jólahúsið. Á hól miklum, skammt þar ofan og norðan við, stendur reisulegt steinhús frá fyrsta fjórðungi 20. aldar, eitt af elstu steinsteyptu íbúðarhúsum hreppanna framan Akureyrar. Hér er um að ræða íbúðarhúsið á Kroppi, en þess má geta að lóð Jólagarðsins er úr landi Kropps. Húsið er einfalt og látlaust að gerð en stendur á skemmtilegu og áberandi bæjarstæði, enda þótt trjágróður hafi að einhverju leyti byrgt sýn að því. Frá Kroppi eru um 13 kílómetrar í Miðbæ Akureyrar. Á Kroppi hefur ekki verið búskapur í rúma tvo áratugi en þar er nú fyrirhuguð bygging stórfellds þéttbýliskjarna.
 
 

Íbúðarhúsið á Kroppi er einlyft steinsteypuhús með háu risi og stendur á lágum kjallara. Að norðan er viðbygging, einlyft með aflíðandi einhalla þaki. Stafnar hússins snúa austur-vestur og á suðurhlið þekju er miðjukvistur. Veggir eru járnklæddir og krosspóstar í flestum gluggum. Grunnflötur er 8,70x13,25m, eldra hús 6,72m að breidd en viðbygging 6,53m (sbr. teikningar Þrastar Sigurðssonar, 2002). Hér eftir er vísað til hússins ýmist sem íbúðarhússins að Kroppi eða Kropps.

Í ritverkinu Eyfirðingar sunnan Glerár og Varðgjár (hér eftir kallað Eyfirðingar) segir svo um Kropp: „Kroppur í Hrafnagilshreppi er ágætis jörð, að talið er, og hafa oft búið þar efnabændur og jörðin verið í einkaeign frá öndverðu“ (Stefán Aðalsteinsson 2019:259). Þar kemur jafnframt fram, að lítið komi Kroppur við sögu fyrr á öldum, en þar hafi búið á söguöld Steingrímur Örnólfsson, bróðir Þorvarðar Örnólfssonar á Kristnesi, sem kom við sögu í Víga-Glúms sögu. Bræður þessir voru fæddir um 930 og hafa því búið á þessum tveimur jörðum um miðja og síðari hluta 10. aldar. Höfundi þykir freistandi að giska á, að mögulega hafi Steingrímur byggt jörðina Kropp úr landi bróður síns á Kristnesi, en hefur ekkert fyrir sér í því. Alltént eru jarðirnar samliggjandi. Sturlunga getur Kropps einu sinni, en þar bjó Björn nokkur sem grunaður var um grályndi og talinn allvitur. Björn þessi var uppi á 13. öld. Árið 1451 kemur Kroppur fyrir í kaupmálabréfi milli þeirra Guðmundar Sigurðssonar og Guðnýjar Þorsteinsdóttur á Myrká í Hörgárdal. Þar lagði Guðný fram jarðirnar Kropp og Grísará á móti hlut Guðmundar, sem þá voru í eigu föður hennar, Þorsteins Höskuldssonar. Á næstu öldum eru heimildir um Kropp fyrst og fremst vegna eigendaskipta. Árið 1520 átti Gottskálk biskup Nikulásson á Hólum, skv. Erfðaskrá, Kropp, ásamt fjölda nærliggjandi jarða. Komust þær undir Hólakirkju en Kroppur var seldur úr hennar eigu um 1550. Árið 1712, þegar jarðatal fyrir Ísland var unnið var Kroppur eign Jóns Brandssonar, sem hér bjó og Þórkötlu Ólafsdóttur í Lögmannshlíð og áttu þau sinn helminginn hvort (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 259-269). Förum nú hratt yfir sögu til síðari hluta 19. aldar. Árið 1879 fluttu á Kropp þau Jón Davíðsson og Rósa Pálsdóttur, en þau höfðu áður búið á Litla-Hamri í Öngulsstaðahreppi, þar sem Jón var uppalinn. Á meðal barna þeirra var Davíð Jónsson. Hann hóf búskap á Kroppi árið 1895 en tók þó ekki við búinu af foreldrum sínum og verður það útskýrt hér örlítið síðar. Þegar Davíð fluttist hingað stóð myndarlegur torfbær á Kroppi en aldarfjórðungi síðar var hann orðinn ófullnægjandi húsakostur þessarar ágætu jarðar. Á einhverjum bæjum í Eyjafirði höfðu risið ný timburhús en á Kroppi skyldi það vera steinsteypa.

Þann 28. júlí 1920 birtist eftirfarandi örfrétt í dagblaðinu Degi: „Íbúðarhús úr steini er verið að reisa á eftirfarandi bæjum hér í Eyjafirði í sumar: Syðri Varðgjá, Kaupangi, Litla-Hamri og Kroppi“ (M.J. 1920:55). Ekki voru fleiri orð um það, en þetta sumar hefur verið sannkallað steinhúsasumar í Eyjafirði. Svo skemmtilega vill til, að öll þessi hús standa enn og einnig er það skemmtileg tilviljun, að Davíð Jónsson hafi einmitt reist sitt hús sama sumar og reist var steinhús á Litla-Hamri, jörðinni þar sem hann var fæddur og uppalinn. Hvað hönnuði þessara húsa varðar er vitað, að Möðrufell og Kaupangur voru reist eftir nokkurn veginn sams konar teikningum Guðjóns Samúelssonar. Litla-Hamar og Syðri-Varðgjá teiknaði hins vegar Sveinbjörn Jónsson. En hver teiknaði Kropp? Um það hefur höfundur engar heimildir undir höndum en húsið er ekki ósvipað að gerð og framangreind hús sem Sveinbjörn teiknaði. Þá er það áþekkt húsum sem hann teiknaði á Akureyri, t.d. Brekkugötu 10 og Oddeyrargötu 1. Það rennir þó ekki endilega stoðum undir það, að Sveinbjörn hafi teiknað Kropp; á þessum upphafsárum steinsteypunnar hérlendis voru steinhús almennt sviplík hvert öðru í stórum dráttum. Voru þau reist með því lagi, sem algengast var í einföldum timburhúsum t.d. ein hæð, hátt ris og stundum kvistur. En það var semsagt sumarið 1920 sem nýtt steinsteypt íbúðarhús reis af grunni á Kroppi. Í Byggðum Eyjafjarðar er húsið reyndar sagt byggt 1919 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 738) og því má leiða líkur að því, að þá hafi bygging þess hafist.

Davíð Jónsson var fæddur þann 12. september 1872, sem fyrr segir, að Litla-Hamri og ólst þar upp en fluttist ásamt foreldrum sínum á Kropp árið 1879, þá sjö ára gamall. Hann bjó þó ekki óslitið á Kroppi frá barnæsku, því árið 1889 fluttist faðir hans Jón Davíðsson, þá orðinn ekkill, en Rósa Pálsdóttir lést 1885, í Hvassafell í Saurbæjarhreppi. Við skulum staldra aðeins við Jón Davíðsson. Þegar hann flytur að Hvassafelli býr þar ekkjan Sigríður Tómasdóttir. Þau giftust og bjuggu í Hvassafelli til ársins 1899 er Sigríður lést. Jón, sem orðinn var ekkill í annað sinn, flyst þá í Reykhús í Hrafnagilshreppi vorið 1900. Þar bjó hann til æviloka árið 1923 en frá 1903 var jörðin og búið í eigu og umsjón tengdasonar hans, Hallgríms Kristinssonar, forstjóra SÍS (sbr. Ingimar Eydal 1923:1). Hann var kvæntur Sigríði, dóttur Jóns. Hallgrímur lést einnig árið 1923, langt fyrir aldur fram. Þess má geta, að Jón Davíðsson var fæddur í Kristnesi, næsta bæ sunnan við Reykhús, þar sem hann varði síðustu æviárunum. En víkjum nú aftur sögunni að næsta bæ sunnan við Kristnes, þ.e.a.s. að Kroppi. Sem fyrr segir flutti Jón Davíðsson ásamt börnum sínum í Hvassafell árið 1889. Davíð Jónsson hélt hins vegar til náms í Möðruvallaskóla í Hörgárdal og þar er hann skráður í Manntali árið 1890. Hann mun þó hafa þurft að hætta námi vegna veikinda en er sagður hafa bætt það upp með sjálfsnámi þegar heilsu var náð á ný (sbr. Hólmgeir Þorsteinsson 1951:318). Á sumarsólstöðum, 21. júní 1895 (sbr. Stefán Aðalsteinsson 2019: 270) kvæntist hann Sigurlínu Jónasdóttur frá Stóra-Hamri í Öngulsstaðahreppi og sama ár fluttust þau á Kropp. Frá árinu 1889, eftir að Jón Davíðsson fluttist frá Kroppi var þar tvíbýlt. Annars vegar bjuggu hér þau Helgi Friðrik Eiríksson og Sigurlaug Jónasdóttir og hins vegar þau Jósep Helgason og Guðný Helgadóttir. (Nú gæti einhver velt fyrir sér, hvort þær Sigurlaug og Sigurlína væru systur en það voru þær ekki. Sigurlaug Jónasdóttir var frá Fagrabæ í Grýtubakkahreppi og næstum fjórum áratugum eldri en Sigurlína).

Samkvæmt Eyfirðingum bjuggu þau Jósep og Guðný hér til ársins 1896 en Helgi og Sigurlaug voru á bak og burt 1894. Þannig hafa þau Davíð og Sigurlína búið eitt ár ásamt þeim fyrrnefndu, en setið ein að jörðinni frá 1896. Auk þess að búa miklu myndarbúi á Kroppi var Davíð mjög ötull við alls kyns félagsmála- og trúnaðarstörf. Hann var kjörinn hreppstjóri í Hrafnagilshreppi árið 1904 og gegndi því embætti í 45 ár. Greinarhöfundur þorir að fullyrða, að fáir ef nokkrir hafi setið jafn lengi eða lengur í embætti hreppstjóra hérlendis, þótt víðar væri leitað. Hann var sýslunefndarmaður hreppsins frá 1928 til 1950, einnig formaður fasteignamatsnefndar. Þá var hann einn af helstu hvatamönnum að stofnum húsmæðraskóla á Laugalandi og við stofnun hans, 1937, var hann kjörinn formaður skólanefndar. Davíð var stórhuga og framtakssamur í búskapnum, svo athygli vakti. Hann var meðal fyrstu manna á Eyjafjarðarsvæðinu til að girða tún sín af með gaddavír og gerði miklar jarðarbætur með þúfnabana og framræslu auk þess að reisa hið veglega íbúðarhús og 30 kúa fjós (sbr. Hólmgeir Þorsteinsson 1951: 319). Í minningargrein Hólmgeirs Þorsteinssonar um Davíð í búnaðarritinu Frey er hann sagður hafa reist fjósið skömmu síðar, en samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar voru þær byggingar, fjós og hlaða þó ekki byggðar fyrr en 1933-34, þ.e. nærri hálfum öðrum áratug á eftir íbúðarhúsinu. Mögulega hefur framræsla Davíðs verið að einhverju leyti handan Eyjafjarðarár en þar er 12 hektara spilda sem tilheyrir Kroppi, kallað Kroppsnes. Þar var heyjað fram yfir 1960 og heyið flutt á pramma yfir ána.

Á meðal embættisverka Davíðs Jónssonar var að heimsækja bæi hreppsins og meta eignir til brunabóta. Þegar flett er í gegnum brunabótamat Hrafnagilshrepps frá árunum 1933-39, sem eru sérlega haldgóðar heimildir um húsakost þess tíma, eru matsskýrslurnar jafnan undirritaðar af Davíð Jónssyni og Hannesi Kristjánssyni. En þar er að sjálfsögðu undantekning þegar kemur að Kroppi, þar er Pétur Ólafsson matsmaður ásamt Hannesi, en Davíð skrifar undir sem eigandi. En það var þann 7. apríl 1934 sem húseignir á Kroppi voru metnar til brunabóta, og lýst svo: Íbúðarhús, steinsteypt, ein hæð með kjallara og porti. Á aðalhæð voru þrjú herbergi, á lofti fimm herbergi og gangur. Lengd 8,8m, breidd 7m og hæð 7,2m. Þá eru eftirfarandi byggingar úr torfi og grjóti: Eldavélarhús (9x3,5m), búr (4,5x2,2m), eldhús með hlóðum (5x3m), kofi (4,2x2m), gömul stofa með þili „framanundir“ (4,2x3m) og bæjardyr (8,8x2m). Bæjardyrnar eru sagðar úr steinsteypu og þiljaðar. Þá eru bæjardyrnar jafn langar og steinhúsið, sem gæti bent til þess, að nýja húsið hafi verið byggt sem framhald af torfbænum. Hvergi er getið eldhúss í nýja húsinu en sérstakt „eldavélarhús“ úr torfi og grjóti. Þá er pappaþak á steinhúsinu en járnþak á bæjardyrum, veggir og loft í nýja húsinu úr timbri en torfveggir milli annarra húsrýma (sbr. Brunabótafélag Íslands 1934: nr. 31). Útihúsa, hvorki fjóss né hlöðu er þar getið.

Davíð Jónsson bjó á Kroppi til ársins 1946 er Sigurlína lést. Síðustu æviárin bjó Davíð á Grund, þar sem Ragnar, sonur hans hafði búið frá 1937. Davíð Jónsson lést 27. febrúar 1951, 78 ára að aldri. Samkvæmt ábúendatölum virðist hafa verið tvíbýlt á Kroppi síðustu árin sem Davíð og Sigurlína bjuggu þar. Mögulega hafa þau verið farin að draga saman seglin í búskapnum, komin um og yfir sjötugt. En á árunum 1940 til 1942 eru ábúendur þau Skúli Finnbogi Kjartansson og Sigrún Eiríksdóttir og um skamma hríð frá 1942 til 1943 þau Jón Andrés Kjartansson og Jóna Guðríður Guðmundsdóttir Waage. Árið 1943 flytja að Kroppi þau Steingrímur Óskar Guðjónsson frá Björk í Sölvadal og Elín Björg Pálmadóttir frá Hofi í Hörgárdal. Þau bjuggu hér alla tíð síðan og eru ábúendur hér þegar byggðum Eyjafjarðar voru fyrst gerð skil í samnefndu riti árið 1970 (útgefið þremur árum síðar). Þá eru eftirfarandi byggingar á Kroppi, auk íbúðarhússins, fjós fyrir 32 kýr, fjárhús fyrir 160 fjár, hlöður fyrir 900 hesta af heyi. Fjárhús og önnur hlaða sagðar „braggabyggingar“ en annað úr steinsteypu. Bústofninn telur 18 kýr, 7 geldneyti og 92 fjár. Túnstærð er 15,17 hektarar, töðufengur sagður 800 hestar og úthey um 200 hestar (sbr. Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson 1973:270). Steingrímur og Elín byggðu við íbúðarhúsið um 1960, viðbyggingu norðan og vestan við, eftir teikningum Snorra Guðmundssonar. Samkvæmt þeim teikningum var þegar búið að byggja við húsið að norðanverðu, þar er gangur og gömul skemma. Samkvæmt Byggðum Eyjafjarðar 1990 var byggt við húsið 1957 og 1967 en mögulega hefur húsið alltaf tengst einhverri byggingu að norðanverðu, sbr. Brunabótamat 1934, þar sem húsið virðist áfast bæjardyrum úr torfi.

Árið 1977 tók Úlfar, sonur Steingríms og Elínar við búinu og er hann ábúandi ásamt konu sinni, Guðbjörgu Steingrímsdóttir árið 1990. Þá er sauðfé, 12 að tölu, skráð sem bústofn en þá er Kroppur hluti félagsbúsins Þrists, sem ábúendur Kropps, Hrafnagils og Merkigils stofnuðu með sér árið 1989. Ræktað land á Kroppi árið 1990 eru sléttir 20 hektarar og þar standa eftirfarandi byggingar: Fjós byggt 1933 og hlaða byggð 1934, hlaða byggð 1945 (væntanlega „braggabygging“ sem minnst er á 20 árum fyrr, bragginn líklega upprunninn frá breska eða bandaríska setuliðinu), fjárhús byggt 1964, geldneytahús byggt 1967 og vélageymsla byggð 1971 (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon 1993: 738). Um aldamótin lauk búskapi á Kroppi og nú hafa allar framangreindar byggingar verið jafnaðar við jörðu. (Og þess má geta, að dag einn þegar greinarhöfundur fór einu sinni sem oftar hjólandi fram í Eyjafjarðarsveit brá honum illilega í brún; það var engu líkara en búið væri að rífa íbúðarhúsið! Greinarhöfundur, sem vissi að til stæði að reisa þéttbýli á Kroppi innan tíðar, varð svo mikið um, að hann endasentist nærri því á hjólinu ofan í síki nokkurt, milli hjólastígs og Eyjafjarðarbrautar: Búið að rífa eitt af elstu steinhúsum sveitarinnar og aldursfriðað í þokkabót! Og ekki svo langt síðan það var endurbyggt! En þegar komið var að Jólahúsinu kom í ljós hvers kyns var; trjágróðurinn norðan Kropps hafði einfaldlega vaxið svo mjög, að húsið blasti ekki lengur við frá Eyjafjarðarbrautinni norðan við Jólahúsið; Kroppur var svo sannarlega enn á sínum stað.

Um 2002 fóru fram gagngerar endurbætur á Kroppi, eftir teikningum Þrastar Sigurðssonar. Byggður var miðjukvistur á suðurhlið, innra skipulagi breytt umtalsvert og ný klæðning, bárujárn sett á húsið. Áður prýddi nokkurs konar eftirlíking af steinhleðslu horn hússins. Þá var viðbygging frá 1960 jöfnuð við jörðu að hluta, en norðurveggur skilinn eftir og þjónar sem skjólveggur fyrir sólpall á baklóð. Þegar byggðum Eyjafjarðar árið 2010 voru gerð skil í ritverki voru eigendur hússins og lóðar í kringum það þau Guðmundur Elísson og Guðný Helga Guðmundsdóttir og ábúandi dóttir þeirra, Guðný Valborg. Eigandi lands var (og er enn) hins vegar félagið Ölduhverfi. Þá var ræktað land 12,8 hektarar en 72 hektarar lagðir undir skógrækt (sbr. Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013: 409). Sá skógur setur nú svip sinn á Kroppsland. Sem fyrr segir stendur aðeins íbúðarhúsið eftir af byggingum býlisins Kropps. En von bráðar mun byggingum fjölga svo um munar í Kroppslandi, því í bígerð er bygging íbúðahverfis, Ölduhverfis, í brekkunum umhverfis húsið. Kroppur er myndarlegt hús á skemmtilegum stað og til mikillar prýði í hinu gróna og geðþekka umhverfi sem umlykur byggðina norðan Hrafnagils. Ekki verður það til minni prýði í Ölduhverfi, þegar það rís, og mun þar eflaust skipa einhvers konar heiðursess. Kroppur er aldursfriðað hús þar sem það er byggt fyrir árið 1923.

Myndirnar af Kroppi eru teknar 21. janúar, 17. febrúar og 15. apríl 2023.

Myndirnar af húsunum á Akureyri eru teknar 22. júní 2018.

Myndin af Litla-Hamri er tekin 23. apríl 2020.

Myndin af Syðri-Varðgjá er tekin 5. febrúar 2011.

Heimildir:

Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson, Sveinn Jónsson. 1973. Byggðir Eyjafjarðar II. bindi Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðarsveitar.

Brunabótafélag Íslands. Hrafnagilshreppsumboð. Virðingabók 1933-1939. Varðveitt á Héraðsskjalsafninu á Akureyri. HsksjAk. F-117/H1. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f_117_h1_hrafnagilshreppur_1933_1939?fr=sNGUzYjQ5OTgzNzk

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson og Valdimar Gunnarsson. 2013. Byggðir Eyjafjarðar 2010. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Hólmgeir Þorsteinsson. 1951. „Davíð Jónsson hreppstjóri frá Kroppi“ Freyr 21.-22. tbl. 46. árg. bls. 318-320. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Ingimar Eydal. 1920. „Jón Davíðsson“ Dagur 13. júní 25. tbl. 6. árg. bls. 1 (forsíða) Sjá tengil á timarit.is í texta.

M.J. 1920. „Íbúðarhús“ Dagur 28. júlí 14. tbl. 3. árg. bls. 55. Sjá tengil á timarit.is í texta.

Stefán Aðalsteinsson. 2019. Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Akureyri: Sögufélag Eyfirðinga. Bernharð Haraldsson, Birgir Þórðarson, Haukur Ágústsson og Kristján Sigfússon skipuðu ritnefnd og bjuggu til prentunar.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson og Magnús Guðmundsson. 1996. Byggingameistari í stein og stál; Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni. Reykjavík: Fjölvi.

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00