Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Hafnarstræti 63; Sjónarhæð

Á þeim tæplega 400 metra langa kafla, sem Hafnarstrætið sveigir upp í brekkuna á svonefndu Barðsnefi, ber mest á fjórum húsum sem öll eru byggð á árunum kringum aldamótin 1900. Hæst ber auðvitað Samkomuhúsið, með sínum skreyttu burstum og oddmjóa turni en sunnan þess eru öllu látlausari hús; Gamli Barnaskólinn og fyrrum amtmannsbústaður, sem skátar nefndu í sinni tíð Hvamm. Nyrst í þessari þyrpingu er einnig áhugavert og stórbrotið hús, sem stendur hátt upp í brekkunni og umvafið gróskumiklum skógarreit. Hér er um að ræða Hafnarstræti 63, sem byggt er 1901 og kallað Sjónarhæð.

Forsaga og lýsing

Árið 1898 fluttist Englendingurinn Frederick Jones að á Íslandi. Hafði hann fengið trúarlega köllun, eftir að hafa lesið boðskap frá landa sínum, Alexander Marshal. Marshall hafði skömmu áður dvalist hérlendis og lét þau boð út ganga, að hér væri aldeilis þarft að stunda trúboð og breiða út kristilegan boðskap. Jones bjó fyrst á Húsavík en fluttist fljótlega til Akureyrar þar sem hann festi kaup á hálfum hektara lands í brekkunum ofan Hafnarstrætis og hugðist reisa þar samkomusal. Var það þann 18. mars árið 1901 að Bygginganefnd úthlutaði Jones byggingaleyfi og var það eftirfarandi: „32 álna langt og 12 álna breitt [hús], skuli standa brekkumegin við götuna meðfram Leikhúsinu og ganga jafnt því til suðurs og stefna eins og það og gatan. Millibilið milli húshornanna að sunnan sé 19 álnir. Tröppurnar frá götunni upp að húsinu, og fyrirhugaðri girðingu milli þeirra, gangi ekki nær vesturjaðri götunnar en 5 álnir“ (Bygg. nefnd. Ak. nr. 199, 1901). Með öðrum orða, hús Frederick Jones skyldi vera um 20x8,8m að grunnfleti, suðurstafnar hússins og Leikhússins handan götunnar í sömu línu með 12 metra bili á milli. Umrætt leikhús er Hafnarstræti 66, sem Gleðileikjafélagið hafði reist árið 1896. Það hús brann til grunna um miðja 20. öld.

Sjónarhæð, Hafnarstræti 63, er timburhús sem skipta mætti í tvær álmur. Syðri hluti hússins er tvílyftur með lágu risi en nyrðri hluti einlyftur með örlítið brattara risi. Allt er húsið á háum, steyptum kjallara og syðst er hann lítið sem ekkert niðurgrafinn, þar sem hann skagar út úr brekkubrún. Syðst er einnig steinsteypt viðbygging með mjög aflíðandi, allt að því flötu þaki og stendur hún öllu neðar en húsið sjálft, má segja að hún skagi út úr kjallaranum. Á vesturhlið (bakhlið) er vinkillaga útskot sem nær utan um norðvesturhorn syðra húss og tengist þannig báðum álmum. Krosspóstar eru í flestum gluggum, panell eða vatnsklæðning á veggjum og bárujárn á þaki. Húsið stendur hátt ofan götu, á brún snarbrattrar brekku og upp hana liggja 25 tröppur á timburpall, sem nær nokkurn veginn meðfram framhliðinni. Grunnflötur suðurálmu er nærri 10x7m, norðurálmu 8x12m og viðbygging að sunnan um 13x3m. Útskot á bakhlið er eitthvað nærri 3x3m og anddyrisbygging að norðan um 6x2m. (Ónákvæmar mælingar af map.is).

Frederick Jones, sem byggði húsið, stóð hér fyrir trúarlegum samkomum sem nutu mikilla vinsælda. Sjálfsagt var trúrækni almennt þó nokkur hér og auðvitað var almennt framboð samkvæma og afþreyingar afar takmarkað í upphafi 20. aldar. Það er ólíklegt að Jones hafi verið kunnugt um ríginn milli Oddeyrar og Akureyrar þegar hann settist hér að. En mögulega hefur hann fljótlega komist að raun um ástæðu þess, að amtmaður hafði reist hús sitt á þessum slóðum, sem og leikhúsið ásamt hinum glænýi Barnaskóli höfðu verið valinn þessi staður. En hvort Jones hafi viljað staðsetja samkomustað sinn sérstaklega á þessu „hlutlausa svæði“ eða hafi einfaldlega litist vel á þennan stað liggur ekki fyrir. Fyrir hvorugu hefur greinarhöfundur fundið heimildir. Ásamt Frederick bjó systir hans, Alice May, einnig hér en saman höfðu þau umsjón með samkomuhaldi. Í manntali 1901 er hún titluð bústýra en hann húsráðandi. Árið 1901 kallast húsið „no. 23 Hafnarstræti“ en ári síðar hefur númeraröðin verið endurskilgreind og húsið orðið nr. 13. Jones nefndi söfnuð sinn eftir húsinu, Sjónarhæðarsöfnuðinn og er hann enn skráð trúfélag. Mögulega vorið 1903, fluttust þau Frederick og Alice af landi brott, en hann var nokkuð heilsuveill vegna sykursýki. Enginn er skráður til heimilis að Sjónarhæð árin 1903 og 1904.

Sjónarhæðarsöfnuðurinn, Gook, Sæmundur o.fl.

Fljótlega eftir að Jones hóf sitt trúboð á Akureyri bárust samlanda hans nokkrum fréttir af störfum hans og langaði til þess að vinna með honum að þeim. Þar var um að ræða Arthur Gook en hann kom til Akureyrar þann 3. ágúst 1905. Frederick Jones var þá fluttur úr bænum aukinheldur, lést hann fyrr það sama ár. Arthur tók upp þráðinn þar sem landi hans hafði hætt og leiddi starf Sjónarhæðarsöfnuðarins og sinnti trúarlegu starfi svo áratugum skipti í hans nafni. Árið 1905 er húsið skráð í eigu The Stewards Company Ltd. í Bath á Englandi og Arthur Gook eini íbúi þess. Ári síðar er Gook hins vegar orðinn eigandi hússins og þá hefur það fengið það númer sem það æ síðan hefur, þ.e. nr. 63 við Hafnarstræti. Árið 1912 fékk Arthur Gook leyfi bygginganefndar til að byggja við Sjónarhæð, vestan við suðurenda, 4x10 álnir tvílyfta byggingu með skúr til norðurs, 5x3 álnir. Þar er um að ræða vestasta hluta suðurálmu, sem er með einhalla þaki. Og síðla árs 1916 var Sjónarhæð virt til brunabóta. Húsinu var þannig lýst:

Íbúðar og samkomuhús, einlyft og tvílyft með lágu risi. Á gólfi undir framhlið eru 3 stofur og forstofa og samkomusalur þvert yfir húsið. Við bakhlið eru 2 stofur, eldhús og þvottahús. Á lofti undir framhlið eru 2 stofur og forstofa. Við bakhlið 3 stofur. Efsta loft óinrjettað [og] notað til geymslu. Kjallarinn er hólfaður í 3 hólf og notaður til geymslu. Skorsteinar eru tveir. Samkomusalurinn er notaður fyrir guðsþjónustusamkomur (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 121). Þá er húsið sagt timburklætt með járn á þaki, 20,4m að lengd, 7,5m á breidd, 8,8m hátt. Á húsinu voru 29 gluggar og í því 8 kolaofnar og ein eldavél. Upprunalegar teikningar að Sjónarhæð virðast ekki hafa varðveist né að viðbyggingunni frá 1912, en það er í raun sjaldgæft að svo sé, þegar í hlut eiga hús byggð í upphafi 20. aldar. Á vef Héraðsskjalasafnsins má hins vegar sjá teikningar, sem gerðar voru af húsinu um 1922 á vegum Rafveitu Akureyrar, sem þá tók til starfa.

Arthur Gook sinnti kristniboðsstarfi og leiddi starf Sjónarhæðarsafnaðarins í ríflega hálfa öld, en hann lést árið 1959. Hann naut að sjálfsögðu liðsinnis margra karla og kvenna í sínum störfum. Mætti þar kannski fyrst og fremst nefna Sæmund G. Jóhannesson en hann var löngum kallaður Sæmundur á Sjónarhæð. Sæmundur, sem var Húnvetningur, kom til Akureyrar árið 1925. Hann gerðist fljótlega sérlegur samstarfsmaður Arthur Gook og sinnti köllun sinni varðandi kristniboðið allar götur síðan, en Sæmundur lést árið 1990. Sæmundur stundaði nokkurs konar lækningar, fyrst og fremst með trúarsannfæringu og fyrirbænum og ýmsir sem töldu sig, og telja sig fullum fetum hafa hafa fengið bót meina sinna fyrir atbeina Sæmundar á Sjónarhæð. Látum muninn á viðurkenndum læknavísindum og kraftaverkum eða rökræður þess efnis liggja á milli hluta hér. Þá hafði Arthur Gook löngum hjá sér ráðskonu, Kristínu Steinsdóttur frá Kálfsskinni á Árskógsströnd. Hún var iðin við garðyrkju og vefnað og seldi afrakstur sinn, m.a. blóm og trefla við allmiklar vinsældir. Vorið 1939 sótti Gook um leyfi bygginganefndar til að reisa skála eða gróðurhús sunnan við Sjónarhæð, áfast húsinu. Væntanlega hefur það verið ætlað fyrir blómarækt Kristínar. Stendur blómaskáli þessi enn og er þar um að ræða syðsta hluta Sjónarhæðar, viðbygginguna út frá kjallaranum sunnanmegin. Teikningarnar að byggingu þessari, gerði Tryggvi Jónatansson og eru það einu teikningarnar af Hafnarstræti 63, sem aðgengilegar eru á kortavef Akureyrarbæjar. Kristín og Arthur Gook gengu í hjónaband árið 1950 en Florence, fyrri eiginkona Arthurs, lést árið 1948. Í æviminningum sínum segist Sæmundur hafa beðið fyrir þessum ráðahag þeirra og það orðið úr (sbr. Sæmundur Jóhannesson 1972:165).

Fólk var skírt á sérstakan hátt í Sjónarhæðarsöfnuðinn og til þeirrar athafnar notaði Gook einfaldlega flæðarmálið neðan götunnar. En Bogi Daníelsson, nágranni Gooks í Hafnarstræti 64 [löngum kallað Bogahús] mun hafa nýtt sama flæðarmál til annarra nota, nefnilega skolað þangað úrgangi frá húsi sínu. Um þetta var kveðið (sbr. Steindór Steindórsson 1993:116):

Séra Gook á Sjónarhaug
í sálir kann að toga
en það er skitin skírnarlaug
skólprennan hjá Boga

Sjónarhæðarsöfnuðurinn, er e.t.v. þekktastur meðal almennings fyrir sumarbúðirnar, sem hann hefur rekið á Ástjörn í nær 80 ár. Var það Arthur Gook sem kom þeim á fót, þar sem hann fékk skika við tjörnina og hermannabragga. Fyrsti barnahópurinn kom á Ástjörn sumarið 1946 og hafa sumarbúðirnar verið reknar óslitið síðan. Vart er hægt að nefna sumarbúðirnar á Ástjörn án þess að nefna Boga Pétursson en hann stóð þar vaktina svo áratugum skipti. Í hugum margra er nafn hans samofið sögu Sjónarhæðarsöfnuðarins og sumarbúðanna á Ástjörn. Þá hefur Sjónarhæðarsöfnuðurinn staðið fyrir alls konar samkomuhaldi, m.a. fyrir börn áratugum saman og ugglaust margir Akureyringar á ýmsum aldri, sem eiga minningar af samkomum á Sjónarhæð eða dvöl í sumarbúðum safnaðarins. Það er nú einu sinni svo, að þegar svo umfangsmikilli og langri sögu sem saga Sjónarhæðarsafnaðarins er gerð skil í fáeinum málsgreinum, verða óneitanlega margar staðreyndir, atburðir og einstaklingar útundan sem fullt erindi ættu í slíka umfjöllun. En ekki verður sagt skilið við Arthur Gook án þess að nefna framlag hans til tækniþróunar landsmanna. Hann var nefnilega sannkallaður frumkvöðull á sviði útvarps -og jafnvel sjónvarps, hérlendis. Styðjumst við hér við frásögn Sæmundar Jóhannessonar.

Útvarp og sjónvarp á Sjónarhæð

Arthur Gook þótti nauðsynlegt, að Íslendingar fengju útvarp, það væri nauðsyn í landi sem hvort tveggja væri strjálbýlt og samgöngur stopular. Í heimalandi sínu var hann ötull við að kynna Ísland og segja frá trúboðsstarfi sínu hér. Trúuðum Englendingum, sem heyrðu borðskap Gooks var mjög umhugað um að „útvarpsvæða“ Íslendinga og vildu safna fé og gefa Íslandi útvarpsstöð. Gook myndi fara fyrir útvarpsstöðinni og þar yrði útvarpað fréttum, tilkynningum og að sjálfsögðu guðsþjónustum. Gook hafði þegar flutt inn útvarp þar sem hægt var að ná breskum útsendingum á langbylgju og bauð hann fólki að koma að hlusta í samkomusal sínum. En nú skyldu Íslendingar fá sitt eigið útvarp, sent út frá Sjónarhæð. Réð Gook til sín enskan útvarpsfræðing, F. Livingston Hogg og á næstu árum risu mikil möstur á brúnum Barðsgils. Útsendingartækin voru mjög orkufrek og reyndist afl Glerárvirkjunar ekki nægilegt til að halda útsendingum skammlaust. Við því var brugðist og Gook flutti inn aflvélar. Og þann 10. desember 1928 fékk hann leyfi til að reisa skúr, 4x5m að stærð og 2 ½ m á hæð, fyrir „mótor til afnota fyrir útvarpsstöðina“. Í bókun bygginganefndar var þess einnig getið, að möstrin sem hann hefði reist fyrir útvarpið, væru reist í óleyfi og skyldi hann fjarlægja þau hvenær sem bæjarstjórn krefðust þess (sbr. Bygginganefnd Akureyrar, 1928: nr.622). En það voru ekki bæjaryfirvöld eða raforkuskortur sem réðu örlögum þessarar fyrstu útvarpsstöðvar Íslandssögunnar: Þegar Gook hafði fengið útvarpsleyfi frá ríkisstjórn Íslands var á því einn fyrirvari; það mætti afturkalla hvenær sem er. Og svo fór, að leyfið fékkst ekki endurnýjað og það án skýringa. Gook og hans fólk gafst hins vegar ekki upp og fengu að lokum skýrt og skorinort svar frá yfirvöldum, sem var efnislega eftirfarandi: „Þið fáið ekki útvarpsleyfi og þið þurfið ekkert að vita hvers vegna“ (Sæmunur G. Jóhannesson 1972:161). Sæmundur getur þess reyndar í endurminningum sínum, að þetta hafi kannski ekki verið orðrétt svona en þetta voru skilaboðin efnislega, og þau skýr.

Eins og alkunna er, hófust sjónvarpsútsendingar hérlendis haustið 1966. Í einhver ár fyrir það höfðu íbúar suðvesturhornsins þó aðgang að sjónvarpsstöð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, svokölluðu Kanasjónvarpi. En jafnvel löngu fyrir það, var horft á sjónvarp á Sjónarhæð! Það var nefnilega svo snemma sem 1934, að þeir Livingston Hogg og Gook, fengu lánað sjónvarpstæki, sem þá var spánný tækni í heimalandi þeirra og reyndu það á Sjónarhæð. Sæmundur segir svo frá: „En framan á því [sjónvarpinu] var sem lítill gluggi, 10-15 sm á hvorn veg, minnir mig. Við beztu skilyrði sáust í því myndir. Var mér eitt sinn leyft að líta í þetta furðutæki. Sá ég þar mynd af stúlku, sæmilega skýra, nema hvað skuggi lá um efri vör hennar líkt og skegg. Tæki þessu var skilað aftur“ (Sæmundur G. Jóhannesson 1972:163). Mögulega hafa þeir Gook, Livingston Hogg og Sæmundur horft á sjónvarpið einhvern fimmtudaginn, og verið fyrir vikið enn lengra á undan samtíð sinni, því það var ekki fyrr en árið 1986 að sjónvarpsútsendingar á fimmtudögum tíðkuðust hérlendis, með tilkomu Stöðvar 2.

Niðurlag (og dægurlag frá tímum Sjónarhæðarútvarps)

Allar götur frá upphafi hefur Sjónarhæð verið samkomu- og íbúðarhús en í syðsta hlutanum, sem byggður var sem blómaskáli var löngum ýmis starfsemi, um áratugaskeið prentsmiðja, Offsetstofa Hilmars Magnússonar, síðar Offsetstofan, sem enn mun starfrækt. Hér má einnig nefna, að vorið 1976 vildi það slys til, að Bronco jeppi sem ekið var um Eyrarlandsveg um 30 metrum ofar í brekkunni ók, í kjölfar áreksturs, fram af brúninni ofan Sjónarhæðar og hafnaði á syðsta hluta hússins, þ.e. Offsetstofunni. Fór þar betur en á horfðist og ekki urðu alvarlega slys á fólki, en þarna hefði sannarlega getað farið verr. Nú eru sem betur fer hverfandi líkur á að slíkt gerist, þökk sé vegriði á brekkubrúninni og miklum trjágróðri ofan Sjónarhæðar. Vegriðið kom þó ekki fyrr en áratugum eftir þetta atvik en lengi vel voru stórir steypuklumpar á brúninni.

Sjónarhæð, Hafnarstræti 63, er sérlega skemmtilegt og glæst hús og í mjög góðri hirðu. Staðsetning hússins og umgjörð er einstaklega skemmtileg, á einum mest áberandi stað bæjarins. Lóðin, sem er líklega meðal þeirra stærri í bænum og slagar hátt í hálfan hektara er einnig sérlega vel gróin og væri raunar hægt að tala um skógarreit í kringum Sjónarhæð. Þar ber mikið á gróskumiklum reynitrjám, birki, öspum og grenitrjám en annars kennir ýmissa grasa og trjáa í þessum geðþekka skógarlundi sem prýðir þennan skemmtilega stað, norðurhluta Barðsgils. Auk þess skartar skógurinn einu af fáum eikartrjám Akureyrarbæjar og líkast til það stærsta í bænum (greinarhöfundur veit a.m.k. ekki til þess, að það hafi verið fellt). Hafnarstræti 63 hlýtur í Húsakönnun 2012 hæsta varðveislugildi sem einstakt hús, húsaröð eða götumynd sem rétt væri að varðveita með hverfisvernd (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir og 2012:119). Einnig er húsið aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Ekki þarf að velkjast í vafa um menningarsögulegt gildi hússins hvað varðar sögu Sjónarhæðarsöfnuðarins og starfsemi hans, einnig að hér var fyrsta útvarpsstöð landsins starfrækt. Einnig má geta þess, að Sjónarhæðarsöfnuðurinn telst fullgilt og viðurkennt trúfélag; Sjónarhæð er líkast til eina hús bæjarins, ef ekki á landinu, fyrir utan kirkjubyggingar, sem trúfélag dregur nafn sitt af!

Meðfylgjandi myndir eru teknar 9. júlí 2011, 28. desember 2013 og 14. maí 2024.

ES. Það er ekki víst, að dægurlög og jazz hafi endilega átt upp á pallborðið innan um kristilegan boðskapinn í útvarpi Gooks og trúsystkina hans. En hafi svo verið, gæti þetta mögulega hafa hljómað á öldum ljósvakans frá Sjónarhæð á síðari hluta 3. áratugarins. Lag þetta, sem greinarhöfundur heyrði KK leika í útvarpsþætti sínum, Á reki, fyrir nokkrum árum síðan er Ukulele Lady í flutningi söngkonunnar Lee Morse, hljóðritað um svipað leyti og Gook var koma á fót útvarpsstöð sinni Sjónarhæð, þ.e. í maí 1925. (Hálfri öld síðar, þ.e. fyrir um hálfri öld (1976) fluttu Ríó Tríó texta Jónasar Friðriks um Kvennaskólapíuna við þetta sama lag, en þá hafði Arlo nokkur Guthrie nýlega tekið það upp á sína arma).

Heimildir:

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902; Fundur nr. 199, 18. mars 1901. Fundargerðir 1902-21; Fundur nr. 370, 30. jan. 1912. Fundargerðir 1921-30; Fundur nr. 622, 10. des. 1928. Fundargerðir 1935-41; Fundur nr. 833, 5. maí 1939. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Sæmundur G. Jóhannesson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið I bindi. (Bls. 152-181) Akureyri: Skjaldborg.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30