Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Gamli Barnaskólinn; Hafnarstræti 53

Yst í Innbænum eða skammt norðan Miðbæjar Akureyrar standa nokkur hús frá árunum kringum aldamótin 1900, á nokkuð áberandi stað í brekkunum við svokallað Barðsnef. Ber þar einna helst á Samkomuhúsinu með sínar skreyttu burstir og turnspíru. Öllu látlausara en engu að síður stórglæst er húsið næst sunnan við en þar er um að ræða Gamla Barnaskólann. Mörgum kann eflaust að þykja þessi hússtæði einhver þau tilkomumestu í bænum og staðsetning þeirra þarna er engin tilviljun sem nánar verður greint frá hér á eftir. Hér verður farið nokkuð ítarlega yfir tilurð og upphafssögu Barnaskólans en nokkru hraðar yfir sögu síðari áratuga.

Forsaga og tildrög

Þegar leið að aldamótum 1900 fóru byggðalögin á Akureyri og Oddeyri ört stækkandi og eins og gefur að skilja, fjölgaði börnum í sama hlutfalli við stækkandi byggð. Barnaskóli hafði verið stofnaður á Akureyri árið 1871 og einnig stóð bærinn fyrir skólahaldi á Oddeyri, fyrstu árin eftir að byggð tók að myndast þar, á 8. áratug 19. aldar. Þegar frá leið vildu Oddeyringar þó ekki lengur taka þátt í kostnaði við skóla Akureyrarbæjar og gerðust sjálfum sér nógir um skólahald. Á þessum tíma voru raunar þessi hverfi raunar tvö aðskilin byggðalög; hvort tveggja landfræðilega, með snarbrattri og illfærri brekku í sjó fram og stjórnsýslulega, umrædd brekka tilheyrði nefnilega Hrafnagilshreppi. Bærinn í raun tvær hólmlendur í öðru sveitarfélagi. Á tíunda áratug 19. aldar, var þessi aðskilnaður rofinn á markvissan hátt, m.a. með kaupum bæjarins á jörðinni Stóra- Eyrarlandi auk lagningu vegar á milli eyranna tveggja. Þá byggði amtmaður sér bústað á þessum slóðum. Þarna var miðbær Akureyrar og það bókstaflega; amtmaður hafði nefnilega mælt nákvæmlega vegalengdina milli syðsta húss Akureyrar og ysta húss Oddeyrar og byggt sér bústað þar. (Og löngu síðar varð raunin sú, að Miðbær Akureyrar byggðist upp á ysta hluta þessa einskismanns svæðis).

Hvorki á Akureyri né Oddeyri hafði verið reist sérstakt skólahús; á Akureyri hafði íbúðarhúsið að Aðalstræti 66 verið keypt undir skólann en árið 1878 var vöruhúsi Havsteensverslunar (stóð nokkurn veginn þar sem nú er Hafnarstræti 7) breytt í skólahús. Á Oddeyri var skólinn til húsa í íbúðarhúsum, yfirleitt aðeins fáa vetur í senn á hverjum stað. Á tímabili var hann í Hauskenshúsi, á tímabili í húsi sem nú er Fróðasund 10. Síðast var hann starfræktur í Prentsmiðjunni við Norðurgötu (Steinhúsinu). Það var árið 1895 að bæjarstjórn ákvað, að reisa skyldi sameiginlegan skóla fyrir öll börn á Akureyrarsvæðinu (þ.e. Akureyri og Oddeyri) og ætlunin var, að hann yrði staðsettur á Torfunefi og yrði lokið 1898. Ekkert varð úr þeim framkvæmdum en árið sem barnaskólinn hefði átt að vera tilbúinn var tekið að ræða barnaskólabyggingu aftur. Skipuð var nefnd til að annast framkvæmdina og í henni sátu þeir Páll Briem amtmaður, Friðrik Kristjánsson kaupmaður og Björn Jónsson. Akureyringar og Oddeyringar vildu auðvitað hafa sameiginlegan skóla næst sér en nefndin lagði til, að farið yrði bil beggja í bókstaflegri merkingu og skólinn reistur mitt á milli ysta húss Oddeyrar og syðsta húss Akureyrar og var það samþykkt af bæjarstjórn (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:132). Það má geta sér þess til, að þessi hugmynd hafi verið komin frá Páli Briem, en hann hafði fáeinum árum fyrr reist sér hús, staðsett eftir þessari aðferð. Þegar húsinu hafði verið valinn staður var næst á dagskrá að setja saman óskalista um fyrirkomulag nýja hússins og fá gerðar teikningar. Þess var meðal annars krafist, að skólahúsið skyldi rúma 100 nemendur sem hver um sig fengi 100 rúmfet (um 3 rúmmetra) andrúmslofts. Eftir þeim tillögum sem gerðar voru og samþykktar var leitað til Bergsteins Björnssonar sem gerði teikningar að hinu nýja skólahúsi, sem samþykktar voru af bæjarstjórn. Byggingameistari hússins var Bjarni Einarsson skipasmiður og tók hann bygginguna að sér fyrir 6250 krónur. Til samanburðar má nefna, að haustið 1900 var tunna af kartöflum auglýst fyrir 6 krónur. (Þannig kostaði barnaskólabyggingin jafnvirði rúmlega 1000 tunna af kartöflum).

Hér er skemmtileg hliðarsaga: Í fyrri „atrennu“ að sameiginlegri skólabyggingu árið 1895 var leitað til Snorra Jónssonar timburmeistara, læriföður Bergsteins í iðninni, varðandi teikningar og skipulag. Hann var þá í þann veginn að hefja byggingu stærsta húss Akureyrarsvæðisins, sem hann reisti við Strandgötu. Þegar Bergsteinn vann teikningar sínar að Barnaskólahúsinu var hann einnig að hefja byggingu húss, sem reyndist það stærsta í bænum, sjónarmun stærra að rúmtaki en Snorrahús.

Bygging og vígsla - Ítarleg samtímalýsing

Gamli Barnaskólinn er einlyft timburhús á háum steyptum grunni, sem kalla mætti jarðhæð þar eð hann er aðeins niðurgrafinn brekkumegin. Er hann raunar hærri er gangstéttarbrún götumegin, svo kannski orkar tvímælis að tala um kjallara. Á miðju hússins að framanverðu er langur kvistur sem setur nokkuð skemmtilegan svip á húsið. Er kvisturinn afmarkaður af tveimur strikuðum flatsúlum á framhlið. Kvisturinn er gluggalaus en fyrir honum miðjum eru timburlistar eða skrautbönd sem mynda þríhyrning, samsíða þakbrúnum. Panell eða vatnsklæðning er á veggjum efri hæðar en jarðhæðin er múrhúðuð. Bárujárn er á þaki og sexrúðupóstar í flestum gluggum. Á suðurhlið er viðbygging, inngöngubygging úr timbri á efri hæð en steypt bygging til suðurs úr jarðhæð. Er hún umtalsvert stærri að grunnfleti og myndar þak hennar verönd við anddyrisbyggingu efri hæðar. Hluti hennar er opið rými. Grunnflötur er um 26,4x8,9m, anddyrisbygging að sunnan er um 5,25x4,3 en viðbygging við jarðhæð um 15,75x3,7. Meðfram henni (þ.e. viðbyggingu jarðhæðar) er 2,3m breitt rými undir þaki, afmarkað af vegg í suðri, sem nýtist sem yfirbyggt bílastæði.

Það var vorið 1900, nánar tiltekið þann 12. maí, að bygginganefnd bæjarins var „samankomin á veginum milli Akureyrar til þess að taka ákvörðun um Barnaskólabyggingu bæjarins, sem bæjarstjórnin ætlar að láta reisa fyrir norðan hús Amtmannsins“ (Bygg.nefnd. Ak nr. 187, 1900). Húsið var ákveðið 42 álnir að lengd, 24 álnir frá grindum (líklega grindverk), 9 álnir vestur frá ytri brún aðalvegur, í beinni línu við veginn.

Nú ber heimildum ekki saman um vígsludag. Húsið prýðir skjöldur þar sem á stendur, að húsið sé tekið í notkun 18. október 1900. Í Sögu Akureyrar segir í myndatexta, að skólinn hafi verið vígður þann nítjánda (Jón Hjaltason 1994:317). Í grein í Stefni frá októberlokum 1900 segir að skólinn hafi verið settur 20. þ.m. [þ.e. 20. október] en vígður daginn áður, þ.e. þann 19. október. Var það Klemenz Jónsson bæjarfógeti sem vígði bygginguna „í viðurvist fjölda manna úr bænum“. Hélt hann ræðu um tilurð byggingarinnar og tíundaði þann kost, sem staðsetning byggingarinnar væri og að skólinn væri sameiginlegur þannig að „nú gæti eigi komið fram sá rígur sem tvískipting skólans [þ.e. sitt hvor skólinn fyrir Akureyri og Oddeyri] stundum hefði ollið í bænum“. Lauk vígsludeginum með samsæti bæjarstjórnar, byggingarstarfsmanna og nokkrum öðrum gestum, þar sem næsti nágranni skólans, Páll Briem amtmaður hélt erindi um skólabyggingar og kennslumál.

Nýja barnaskólahúsið var blaðamönnum Stefnis mjög hugleikið og í næsta tölublaði þann 7. nóv. 1900 birtist á blaðsíðum 1-2, afar ítarleg byggingarsaga og lýsing hússins. Gefum hinum ónefnda höfundi orðið, að viðbættum innskotum þess, sem þetta ritar. [Ath. orðrétt stafsetning texta frá 1900 og ein alin, álnir í fleirtölu, er um 63 cm]: Bygging hússins hófst þegar snjó og klaka leysti í vor, var byrjað á undirstöðu hússins og að grafa fyrir kjallaranum og frá vesturhlið þess, og að hlaða 5 álna háan grjótvegg undir austurhlið þess. Undirstaðan var svo snemmbúin, að húsið var reist snemma í júlí, og svo verið unnið kappsamlega að smíði þess, þar til um miðjan októbermánuð, að það var svo búið innan, að barnaskólinn var settur í því; þykir mönnum, sem skyn bera á, húsið sterklega byggt og eigi til sparað, að það á alian hátt sje sem traustast. Þannig er ljóst, að bygging hússins tók í mesta lagi 5 mánuði, þ.e. hún var ekki hafin 12. maí þegar Bygginganefnd var að mæla fyrir húsinu og grindin hefur verið risin í júlímánuði.

Svo er húsinu lýst mjög nákvæmlega: Skólahúsið er 42 álnir á lengd og 14 álnir á breidd, undir því er kjallari jafnlangur húsinu, en eigi nema 10 álnir á breidd. Kjallarinn er með stórum gluggum og því vel bjartur. Húsið er 5 álnir á hæð undir loptbita, hæðin af loptbitum í sperrukverk 4 og 1/2 alin. Aðalinngangur í húsið er vestast í suðurstafninn, og kemur maður þá í gang, 4 álna breiðan, sem liggur meðfram vesturhlið hússins á 31 alin. Úr þeim gangi er gengið inn i þrjár kennslustofur, sem hver um sig er rúmar 10 álnir á hvern veg, eru 3 gluggar á hverri stofu á austurhlið, nyrðsti endi hússins, fullar 10 álnir, er óþiljaður innan, er það leikfimiskennslustofa skólans. Þar er uppgangur á loptið í húsinu. [...] Gólfbitarnir eru úr gildum trjám með tæprar alinar millibili, gólfið er tvöfalt og þjett leirlag á milli.

Einhvern tíma skildist höfundi, sem þrátt fyrir þetta áhugamál, hefur ekki hundsvit á húsasmíði, að ein best byggðu hús með tilliti til myglu væru timburhús frá árunum nærri aldamótunum 1900. Hér er e.t.v. komin uppskrift að myglufríum útveggjum, nema hvað nú myndi væntanlega notuð steinull eða annað slíkt í stað mosa: Veggir að kennslustofum eru að utan klæddir venjulegum klæðningsborðum, en milli þeirra og grindar er klætt með asfaltpappa, í miðja grindina er felld borðaklæðning, og veggirnir því næst klæddir innan með venjulegum innanþiljuskífum, en milli þeirra og borðanna í grindinni er þjett troðið mosa. Áfram heldur lýsingin, næst eru það gluggar, hurðir og loft: Gluggar allir í stofunum tvöfaldir og stærð glugganna á hverri stofu sem næst 1/6 á móti gólffleti. Skilrúm öll í húsinu eru tvöföld og þjett troðið mosa milli þilja, stoðir og bindingar í þeim úr 3x3 þuml. trjám. Berst hljóð því iítt í gegn um þau, nje hiti og kuldi. Hurðir eru úr 2 þuml. plönkum og eikarmálaðar. Lopt er tvöfalt. Loptbitar úr gildum 14 álna trjám með 1/2 al. millibili, klæddir ofan með venjulegum gólfborðum, en neðan á þiljað með skífuklæðning. Þak [er] úr venjulegum borðum, blindinguðum [svo] saman, klætt með dönskum þakpappa og bikað og sandborið.

Kynding hússins var mjög fullkomin og sjálfsagt, allt að því verkfræðilegt undur á þeim tíma: Ofnar og loptpípur í kennslustofunum eru hinar fullkomnustu, sem eru til hjer í bæ og efasamt að upphitun og loptbreyting sje í eins góðu lagi í hinum nýja barnaskóla í Reykjavík, eins og er í skóla þessum. Ofnarnir eru stórir og vandaðir kápuofnar, sem allstaðar þykja sjálfsagðir í skólum, þar sem ofnahitun á annað borð á sjer stað. Standa þeir fast við skilrúmið milli gangsins og kennslustofanna, og eru eldstæðisdyr ofnanna gegn um skilrúmið, svo að lagt er í þá á ganginum og askan þar úr þeim tekin. fylgir þessu sá mikli kostur, að ekkert ryk kemur í stofuna við ílagning eða hreinsun ofnanna, heldur eigi draga þeir lífslopt úr stofunum til brennslunnar. Undir gólfi stofanna liggja víðar loptpípur að utan upp undir ofnana, streymir inn um þær nýtt lopt og hitnar við ofnana, því það verður að fara gegn um þá upp með kápunni, og svo gýs það út í stofurnar upp við lopt, en jafnhliða dregur loptpípa í reykháfnum þyngra lopt frá gólfinu út úr húsinu, verður þannig stöðug loptbreyting í stofunum, þegar lagt er í ofnana. Þarna var eðlisfræði heits og kalds lofts hagnýtt svo úr varð einhvers konar kolakynt loftræsikerfi. Þá var húsið búið pípulögnum: […]Skammt fvrir ofan húsið í brekkunni er lítil uppsprettulind, þaðan hefir vatn verið leitt í járnpípu inn í kjallarann og upp á skólaganginn, eru á ganginum þrjú þvottaföt fyrir börnin, sem vatnspípurnar liggja að, en frá þeim liggja skólprennur úr járni niður um kjallaragólfið og fram fyrir veg. Að lokum fær byggingin þessa umsögn: Skólahúsbygging þessi er einhvert stærsta og dýrasta fyrirtæki, sem þetta bæjarfjelag befir ráðist í, en efalaust jafnframt eitt hið þarfasta, þótt fyrirtækið gefi eigi af sjer beinan peningalegan arð, sem borgi höfuðstól og vexti. (Án höfundar, 1900: bls 1-2)

Skólahald - Halldóra Bjarnadóttir - Önnur hlutverk hússins

Þegar skóli var settur í fyrsta skipti í húsinu voru nemendurnir 73, börn á aldrinum 7-14 ára (sbr. Jón Hjaltason 1994:316). Í grein Heimilis og skóla (án höfundar) eru börnin reyndar sögð hafa verið um 66 en alltént voru nemendurnir um 70 þennan fyrsta vetur. Skiptust nemendur í þrjá bekki og svonefndur fyrsti kennari (nokkurs konar skólastjóri) var Páll Jónsson, síðar Árdal, en hann hafði starfað við „Akureyrarskólann“ frá 1885. Skólagjöld voru ein króna fyrir fyrsta bekk, 1,75 kr. fyrir miðbekk og 2,25 kr. fyrir efsta bekk. Vorið 1901 var ráðinn skólastjóri við Barnaskólann, Kristján Sigfússon frá Varðgjá. Gegndi hann starfinu til dánardægurs, 1908, en þá um haustið var Halldóra Bjarnadóttir ráðin skólastjóri. Hennar þáttur í sögu Barnaskólans er nokkuð veigamikill en honum verður gerð frekari skil síðar í þessari grein. Halldóra gegndi skólastjórastöðunni í áratug en eftirmaður hennar var Steinþór Guðmundsson. Steinþór var skólastjóri frá 1918 til 1929 er Ingimar Eydal tók við, en þá fóru líka í hönd síðustu misseri hússins við Hafnarstræti 53 sem barnaskóla. Nýtt barnaskólahús sunnan og ofan Grófargils leysti nefnilega barnaskólann gamla af hólmi árið 1930. Voru nemendur þá orðnir vel á þriðja hundrað og 1930 var upphaf fræðsluskyldu miðað við 8 ára í stað 10 áður, og við það fjölgaði nemendum enn frekar (sbr. Heimili og skóli 1961: 71-73).

Lengst framan af var aðeins kennt á efri hæð hússins, jarðhæð (kjallari) var ekki tekin undir skólann fyrr en 1922 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:131). Í kjallara voru frá upphafi íbúðarými og meira að segja gosdrykkjaverksmiðja. Þar framleiddi Knut nokkur Hertevig m.a. sódavatn, a.m.k. þrjár tegundir límonaðis; hindberja, jarðarberja og sítrónu og saftir, súrar og sætar. Nýtti hann væntanlega vatnið úr lindinni bak við húsið og kvað það eitt besta vatn sem hann hafði fengið til gosdrykkjagerðar. Lesendur geta ímyndað sér hvernig það væri, að vera barn í skóla, þar sem gosdrykkir væru framleiddir í kjallaranum! Greinarhöfundur getur allavega fyrir sitt leyti ímyndað sér, að það hefði boðið upp á ýmis konar freistnivanda og eflaust truflað einbeitingu við nám, hefðu sætir drykkir verið framleiddir í húsum Hrafnagilsskóla eða Oddeyrarskóla þegar hann sat þar á skólabekk.

Þá virðast kennslustofur einnig hafa verið leigðar til íbúðar, væntanlega meðan kennsla lá niðri, en skólaárið var umtalsvert styttra en nú gerist. Vorið 1902 fengu Oddur Björnsson prentari og fjölskylda leigt í skólanum. Dóttir hans, Ragnheiður O. Björnsson segir svo frá: Í barnaskólanum fengum við til umráða fyrsta bekk, leikfimissalinn og ganginn. Fyrsti bekkur var stór stofa með þrem stórum gluggum. […] Í leikfimissalnum var sofið og eldað og tjaldað á milli. (Ragnheiður O. Björnsson 1972:193). Bjuggu þau hér til hausts. Síðar gekk Ragnheiður þarna í barnaskóla og þar dró til tíðinda með nýjum skólastjóra, eftir lát Kristjáns Vigfússonar frá Varðgjá: Haustið 1908 fengum við svo nýjan skólastjóra, Halldóru Bjarnadóttur. Kom hún frá Noregi, þar sem hún hafði stundað nám og lokið þar kennaraprófi og síðan verið þar kennari. Kom Halldóra með ýmsar nýjungar sem vænta mátti og auðvitað var fólk ánægt með margar þeirra en ekki allar (Ragnheiður O. Björnsson 1972:1908). Halldóra Bjarnadóttir innleiddi svo sannarlega sitt hvað nýtt, hvað varðaði m.a. kennsluhætti og fyrirkomulag; lagði t.d. áherslu á handavinnu og endurnýjun búnaðar og bóka og kom á foreldra- og nemendafundum. Mun hún hafa komið á leikfimikennslu, vettvangsferðum, vísi að skólabókasafni, staðið fyrir byggingu leikvallar við skólann, auk þess sem litlu jól voru fyrst haldin við Barnaskóla Akureyrar í hennar tíð. Halldóra var þannig sannkallaður brautryðjandi í skólastarfi. Kannski má segja, að grunnskólastarf sé enn þann dag í dag að einhverju leyti mótað af áherslum og hugmyndum Halldóru Bjarnadóttur. Halldóru var einnig umhugað um hreinlæti og umgengni og það lagðist misjafnlega í fólk. Sagan segir m.a. að hún hafi verið kærð til sýslumanns fyrir þá kröfu sína, að nemendur færu úr útiskóm og í inniskó þegar inn var komið. Þá sáu bæjarbúar margir hverjir eftir skattfé sínu, sem þeim þótti sólundað í skólann; óx þeim m.a. í augum kostnaður við að koma upp bókasafni og argasti óþarfi væri að eyða fé í leikvöll fyrir börnin, hvað þá öll steypuvinnan við hann, sem síðar varð. En Halldóra lét steypa vegg fram að götu og stækka leiksvæðið um leið, sumarið 1914. Vinnunni við stækkun leikvallarins stýrði einn af kennurum skólans, Páll Jónsson Árdal, fyrrum yfirkennari. Eitt sitt, er hann var við steypuvinnu við umræddan vegg, vatt vegfarendi sér að honum og hreytti í hann: Því var þetta ekki steypt úr gulli. Og Páll svaraði af bragði: Það hefði sjálfsagt verið gert, hefði það verið fyrir hendi (sbr. Jón Hjaltason 2001:192).

Eftir að hlutverki hússins sem skólahús lauk hýsti það Amtsbókasafnið en einnig var búið í húsinu. Bókasafnið mun hafa verið í húsinu í 17-18 ár eða til 1947-8. Bókavörðurinn, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var búsettur hér framan af meðan bókasafnið var rekið í húsinu en árið 1944 byggði hann sér veglegt íbúðarhús við Bjarkarstíg á ytri Brekkunni. Ýmis starfsemi fór fram í húsinu áratugina á eftir, m.a. var saumastofa rekin hér á vegum Akureyrarbæjar. Þá var búið í húsinu fram undir 1980 og voru að jafnaði þrjár íbúðir í húsinu. Eftir það hófust viðgerðir á vegum bæjarins sem sneru að ytra byrði hússins. Á síðustu áratugum 20. aldar og fram til 2006 hafði Leikfélag Akureyrar afnot af húsinu og var það m.a. nýtt sem leikmunageymsla.

Á árunum 2006-07 var húsið allt endurnýjað að innan á vegum fjármálafyrirtækisins Saga Capital. Þá var einnig byggt við húsið til suðurs, forstofubygging (sem áður var aðeins örlítil kytra, e.t.v. 2x2m) stækkuð umtalsvert og spennistöð, sem áður var í skúr sunnan hússins, felld inn í neðri hæð viðbyggingarinnar, þar sem áður var hið umdeilda leiksvæði. Endurbætur þessar voru unnar eftir teikningum Tryggva Tryggvasonar. Frá því að endurbótum þessum lauk sumarið 2007 hefur húsið verið fyrirtækja - og skrifstofuhúsnæði, nú eru þar til húsa fyrirtækin ENOR, DK hugbúnaður og Saga Fjárfestingabanki.

Gamli Barnaskólinn er sannkölluð bæjarprýði og húsið eitt af sérlegum kennileitum bæjarins. Það er ólíkt lágreistara og látlausara en nágranni þess í norðri, Samkomuhúsið, en þessi hús mynda sérlega skemmtilega heild á einum mest áberandi stað bæjarins. Gamli Barnaskólinn er að vísu ekki friðlýst bygging líkt og Samkomuhúsið en hann er að sjálfsögðu aldursfriðaður. Í einni fyrstu formlegu húsakönnun bæjarins sem gefin var út á bók, unnin á fyrri hluta 9. áratugar 20. aldar, voru þessi hús metin sem sérstök varðveisluverð heild (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:60). Í uppfærðri húsakönnun frá 2012 er þetta mat staðfest og hlýtur Gamli Barnaskólinn hæsta varðveislugildi (sbr. Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:117). Greinarhöfundi þykir rétt að árétta, það sem fram kom í pistlinum um Samkomuhúsið, að rétt væri hreinlega að friða flötina fyrir neðan þessi hús fyrir háum byggingum, svo ekki verði skyggt á þessi öldnu og glæstu hús í brekkunni á Barðsnefi og þau fái að njóta sín um ókomna tíð.

Meðfylgjandi myndir eru teknar 11. mars 2007, 19. ágúst 2018 og 14. maí 2024.

Heimildir:

[Án höfundar]. 1900. „Nýi barnaskólinn“ Stefnir, 7. nóvember. Slóðin: https://timarit.is/page/2219968#page/n0/mode/2up

[Án höfundar]. 1961. „Barnaskóli Akureyrar“ Heimili og skóli, 3.-4. hefti, 20. árgangur. Slóðin: https://timarit.is/page/7954935#page/n21/mode/2up

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 187, 12. maí 1900. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri-Höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.). 2003.

Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri Fjaran og Innbærinn Byggingarsaga. Akureyri: Torfusamtökin í samvinnu við Akureyrarbæ og Skipulagsstjórn ríkisins.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_153.pdf

Jón Hjaltason. 1994. Saga Akureyrar 2. bindi. Kaupstaðurinn við Pollinn. Akureyrarbær gaf út.

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar 3. bindi. Fæðing nútímamannsins. Akureyrarbær gaf út.

Ragnheiður O. Björnsson, Erlingur Davíðsson skráði. Aldnir hafa orðið I bindi. (Bls. 182-215) Akureyri: Skjaldborg.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.

Að temja tæknina II: Í klóm drekans

Magnús Smári Smárason skrifar
02. júlí 2024 | kl. 10:50

Sykur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. júlí 2024 | kl. 11:30

Dómgreind

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
01. júlí 2024 | kl. 06:00

Seigla og linka

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
30. júní 2024 | kl. 06:00

Þú trylltist og varst rekinn út af!

Orri Páll Ormarsson skrifar
28. júní 2024 | kl. 11:00

Birkið og lexíurnar. Birkið við Þórunnarstræti 127

Sigurður Arnarson skrifar
26. júní 2024 | kl. 10:00