Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Eyrarlandsvegur 26; Breiðablik

Við mót Hrafnagilsstrætis og Eyrarlandsvegar, efst við ytri hluta síðarnefndu götunnar, stendur sérlega glæst timburhús í sveitserstíl, prýtt útskornu skrauti og ýmsu sem gefur því sérstakan svip. Um er að ræða hús kaþólsku kirkjunnar en það var reist sem einbýlishús árin 1911-12.

Sumarið 1911 má segja, að landnám þéttbýlis hafi verið á frumstigi á hinum víðlendu brekkum, landi Stóra Eyrarlands, sem tveimur áratugum fyrr tilheyrði Hrafnagilshreppi. Árin 1898-1904 risu þar miklar opinberar byggingar, sjúkrahús og Gagnfræðaskóli og á næstu árum risu stök hús við Eyrarlandsveg og Spítalaveg og á melunum norðan Grófargils. Við brún Barðsgils, ofarlega við Eyrarlandsveg, fékk 26 ára dýralæknir Sigurður Einarsson Hlíðar, úthlutað lóð undir íbúðarhús. Var honum leyft að reisa íbúðarhús á lóð þeirri sem hann hafði keypt af kaupstaðnum á horni Eyrarlandsvegar og Hrafnagilsstrætis. Stærð hússins var 18x16 álnir (um 11x10m), tvílyft á háum kjallara með risi og útbyggingu með turni. Skilyrði var, að framhlið hússins sneri að Eyrarlandsvegi og það stæði hornrétt (sbr. Bygginganefnd Ak. nr. 345, 1911). Þessi krafa um hornrétta stöðu kann að virðast nokkuð sérstök, húsið stendur nefnilega skástætt á horni tveggja gatna og snýr raunar norðaustur-suðvestur. En svo vill til, að þar sem húsið stendur er sveigja á Eyrarlandsveginum og væntanlega er húsið hornrétt á hana. Þá gæti lega gatnanna eitthvað hafa hnikast frá upphafi.

Byggingameistari Eyrarlandsvegar 26 var Maron Sölvason, en talið er að húsið hafi komið tilhöggvið frá Noregi. Mögulega hefur Maron sent teikningar út og fengið það forsmíðað úti. Sagan segir, að Sigurður og kona hans, Guðrún Louise Guðbrandsdóttir Finnbogason hafi fengið hið glæsta hús í brúðkaupsgjöf. Nánar tiltekið frá móður hennar, Louise Jakobine Fredrerike Zimsem sem sögð var ein ríkasta kona landsins þótt víðar væri leitað. Þessi saga var aldrei staðfest en sonur þeirra Sigurðar og Guðrúnar, Guðbrandur Hlíðar nefndi í æviminningum sínum að mánaðarlaun dýralækna hefðu verið 100 krónur á mánuði, kjötskoðun gaf fimm aura á skrokk og folageldingar fimm krónur. Húsbyggingin hefði hins vegar kostað 12.000 krónur. Þannig gæti hver sem vildi lagt saman tvo og tvo og fengið út sannleika málsins (sbr. Jón Hjaltason 2021:39-40). Því hlýtur að mega draga þá ályktun, að þessar sögusagnir um brúðkaupsgjöf séu á rökum reistar; það er alltént nokkuð sennilegt, að sterkefnaðir foreldrar hennar hafi lagt eitthvað af mörkum.

Ef við berum þessar tölur saman við önnur laun má nefna, að árið 1912 voru meðal mánaðarlaun daglaunamanns 32,4 krónur, iðnaðarmanna (trésmiða, málara) 42,9 krónur og járnsmiða 49,7 krónur. Þeir síðasttöldu slöguðu þannig í tæp hálf mánaðarlaun dýralækna. Svo má nefna, að meðal mánaðarkaup þvotta, elda- og þrifakvenna voru ekki nema um 10-11 krónur! En þetta þýðir, að bygging Eyrarlandsvegar 26 kostaði ríflega 350 föld mánaðarlaun daglaunamanns (verkamanns)! Freistandi er, að setja þessar tölur í samhengi við geysihátt húsnæðisverð dagsins í dag. T.d. mætti ímynda sér, að tilhöggvið timburhús væri í dag e.t.v. ekki sérlega dýrt í samanburði við annað húsnæði. En árið 1912 var hús á borð við Breiðablik með ríkmannlegustu híbýlum og þannig sambærilegt við 300 fermetra einbýlishús með tvöföldum bílskúr, heitum potti o.s.frv. miðað við nútíma. Óneitanlega gaman, að velta vöngum fyrir þessu. Þannig hefur þessi samanburður í raun takmarkaða merkingu, vegna gjörólíkra aðstæðna á marga vegu, en vissulega gaman að velta þessu fyrir sér.

Eyrarlandsvegur 26 er einlyft timburhús með háu risi og kvisti við norðausturstafn. Á suðurstafni er inngönguskúr og annar slíkur norðarlega á vesturhlið. Kvistur skagar út fyrir húshliðina og undir honum er fimmstrent útskot. Útskotið myndar gólf inndreginna svala undir kvistinum. Byggingarleyfi hljóðaði upp á tveggja hæða byggingu með turni en niðurstaðan var einlyft hús á kjallara með framstæðum kvisti með svölum. T-póstar eða þverpóstar eru í flestum gluggum en á útskoti að framan og undir rjáfri að suðvestan eru tvískiptir krosspóstar. Láréttur panell (vatnsklæðning) er á veggjum en steinblikk á suðvesturhlið. Það er ekki ósennilegt, að sú hlið hafi löngum verið nokkuð áveðurs, en suðvestanáttin gat eflaust orðið ansi hvöss á þessum slóðum, áður en byggð og trjágróður veittu kærkomið skjól. Þak hússins er skrauti prýtt á alla kanta og það í bókstaflegri merkingu því neðan í þakköntum er útskorið, ávalt kögur og útskornir sperruendar undir þakbrúnum, sem skaga nokkuð út fyrir veggbrúnir. Er þetta nokkuð dæmigert einkenni sveitserhúsa. Höfuðprýði hússins er væntanlega kvisturinn, sem skartar útskurði og bogadregnum körmum á súlum yfir handriði. Undir rjáfri eru krossskeyttir bjálkar með ávölum endum, skeyttir undir nokkurs konar hanabjálka. Allt er þetta prýtt fíngerðum útskurði. Svalahandrið er sérstök prýði út af fyrir sig og skartar sérkennilegu en ákaflegu fögru munstri. Grunnflötur Eyrarlandsvegar 26 er um 10x9m, suðurútskot nærri 4x2m, inngönguskúr á bakhlið um 1x3m og útskot undir kvisti eitthvað nærri 1,5x4m. Hér er aðeins um að ræða ónákvæmar mælingar af kortavef map.is.

Fullbyggt mun húsið hafa verið árið 1912 og nefndu þau Sigurður og Guðrún hið nýreista hús sitt Breiðablik. Og í manntali það ár er húsið einfaldlega kallað „Breiðablik“ við Eyrarlandsveg. Þá eru búsett þar fyrrnefnd Sigurður Einarsson Hlíðar og Guðrún Louise Einarsson og tvö ung börn þeirra, Brynja, tæplega tveggja ára og Skjöldur, fjögurra mánaða. Auk þeirra tvær vinnukonur, Margrjet Jónsdóttir og Dóróthea Hafstein.

Árið 1916 var Breiðablik metið til brunabóta og lýst húsinu sem hér segir: Íbúðarhús, einlyft með porti, kvisti og háu risi, skúr við suðurstafn, á kjallara. Á gólfi undir framhlið eru 2 stofur, við bakhlið ein stofa, eldhús, búr og forstofa með stiga upp á loftið. Á lofti 4 íbúðarherbergi, gangur og geymsla. Lengd 9,4m, breidd 7,4m og hæð 7,5m. Tala glugga 24, útveggir timburklæddir, þak járnklætt, einn skorsteinn, fimm ofnar og ein eldavél (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 98).

Sigurður Einarsson Hlíðar var fæddur í Hafnarfirði árið 1885. Hann nam dýralækningar við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist þaðan árið 1910. Þaðan hélt hann til Akureyrar þar sem hann hóf störf við það fag. Mun hann hafa verið fyrsti starfandi dýralæknirinn á Norðurlandi. Gegndi hann dýralæknastarfinu á Akureyri (og nærliggjandi héröðum) til ársins 1943 er hann tók við stöðu yfirdýralæknis. Fluttist hann þá til Reykjavíkur. Sigurður stundaði auk dýralækninganna ritstörf og stjórnmál, gaf út blaðið Dagblaðið um skamma hríð og setti á stofn blaðið Íslending árið 1915 og ritstýrði í fimm ár. Sat í bæjarstjórn Akureyrar í rúma tvo áratugi, 1917-1938 og forseti bæjarstjórnar frá 1932. Þá var hann vararæðismaður Þýskalands frá 1927-40. Sigurður Hlíðar var alþingismaður árin 1937-49 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Eftir að hann fór á eftirlaun lagði hann mikla stund á ættfræði og sendi frá sér ritið Nokkrar Árnesingaættir árið 1956. Sigurður lést árið 1962.

 

Nafn Brynju Hlíðar, dóttur Sigurðar og Guðrúnar, þekkja eflaust flestir akureyrskir skátar, sem komnir eru til vits og ára. Þá sér í lagi skátakonur, þó væntanlega séu mun færri, sem muna hana persónulega en hún fórst í flugslysinu hræðilega í Héðinsfirði vorið 1947. Brynja var ein helsta driffjöður kvenskátastarfs á Akureyri á 4. og 5. áratugnum og stóð fyrir mjög öflugu, fjölmennu og öflugu skátastarfi undir nafni Valkyrjunnar. Byggðu þær skála í Vaðlaheiði sem nefndist Valhöll um 1946. (Sá hefur nú verið jafnaður við jörðu en nýr skáli með sama nafni, einnig í Vaðlaheiði, var tekinn í notkun 1997).

Hlíðar-fjölskyldan átti heima í Eyrarlandsvegi 26 í rúmlega áratug. Raunar kallaðist húsið ekki Eyrarlandsvegur 26 fyrr en eftir þeirra tíð þar; var fyrst í manntali 1926. Fram að því var húsið ætíð skráð sem Breiðablik. Það var árið 1923 sem, Guðmundur G. Bárðarson náttúrufræðingur og menntaskólakennari, eignaðist húsið. Þremur árum síðar eignaðist samkennari hans, Brynleifur Tóbíasson, húsið og bjó hann þar um árabil. Kallaðist húsið þá löngum Brynleifshús. Næsti eigandi hússins var Eiríkur Kristjánsson. Árið 1944 hugðist hann múrhúða hús sitt og auglýsti eftir tilboðum í framkvæmdina í dagblöðum. Kannski sem betur fer, virðist hann ekki hafa fengið neitt eða ekki nógu hagstætt tilboð; við getum rétt ímyndað okkur hvernig húsið liti út, hefði það verið forskalað. Þá er næsta víst, að allt hið timbraða skraut hefði fengið að fjúka. Árið 1950 keypti kaþólski söfnuðurinn hér í bæ húsið af Eiríki og gerði að kapellu sinni. Kaþólikkar eignuðust síðar næsta hús vestan við, Hrafnagilsstræti 2, sem var íbúðarhús prests en Eyrarlandsvegur 26 gegndi m.a. hlutverki kirkju eða kapellu. Árin 1998-2000 breytti söfnuðurinn Hrafnagilsstræti 2 í veglega kirkju, Péturskirkju en Eyrarlandsvegur 26 eða Breiðablik mun vera prestsetur safnaðarins.

Eyrarlandsvegur 26 er eitt af glæstari og skrautlegri húsum syðri Brekkunnar og raunar bæjarins alls og stendur á áberandi og skemmtilegum stað. Það kallast mjög skemmtilega á við stærsta sveitserhús bæjarins, Gamla Skóla, sem stendur spölkorn sunnan hússins, handan Eyrarlandsvegar. Húsið er skrauti hlaðið og svipmikið; stórbrotinn kvisturinn ásamt útskotinu helstu sérkenni þess, ásamt útskornu skrauti sem hér og hvar prýðir húsið. Húsið er í fyrirtaks hirðu. Ásamt næsta húsi, Péturskirkju, myndar húsið sérlega skemmtilega heild á horninu, sem kannski mætti kalla „Kaþólska hornið“. Í Húsakönnun 2016 hlýtur það mjög hátt (7. stig af 8) varðveislugildi m.a. sem fulltrúi norskra sveitserhúsa og eitt af elstu íbúðarhúsum Brekkunnar (sbr. Hanna Rósa Sveinsdóttir 2016: 45). Þá er húsið vitaskuld aldursfriðað, byggt fyrir 1923.

Myndirnar eru teknar 15. mars 2024.

Heimildir:

Brunabótafélag Íslands: Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 345, 2. júní 1911. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Aðgengilegt á vef Héraðsskjalasafnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1921-1930 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri – Issuu

Hanna Rósa Sveinsdóttir. (2016). Akureyrarbær; Menntaskólinn á Akureyri og nærliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri fyrir Skipulagsdeild Akureyrarbæjar. Óprentað, óútgefið, Pdf-skjal á slóðinni https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf

Jón Hjaltason. 2021. Ótrúlegt en satt. Akureyri: Völuspá í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri.

Ýmsar upplýsingar af manntal.is, islendingabok.is, timarit.is og vef Héraðskjalasafnsins, herak.is. Sjá tengla í texta.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00