Fara í efni
Pistlar

Hæsti tindur tindanna

Sextándi júní var einn af þessum toppdögum í mínu lífi.

Einn af þessum allra hlýjustu dögum sem sumar á Akureyri færir manni.

Nýi sólpallurinn við húsið mitt tilbúinn og bærinn eins og ólgandi stórborg með túristum, bílistum, stúdentum nýjum og gömlum, umferðagnýrinn það eina sem truflaði mínar taugar.

Þessi dagur átti þó líka eftir að flytja mér einn fallegasta óð, sem heimurinn býður upp á. Þá dýpstu upplifun, sem heyrnin getur fært manni og um leið þann mesta unað sem leikur á strengi sálarinnar. Þessum dásamlega degi lauk með einni af göngu á hæsta tind, sem ber mann svo langt frá heimsins ósóma og viðbjóði tortímingar og mannhaturs. Þetta var óðurinn sem hinn heimsþekkti söngvari og hljómsveitarstjóri Barbara Hannigan flutti í Hofi með fullskipaðri Sinfóníuhljómsveit Íslands. Svo lengi sem ég man held ég að enginn stjórnenda Akureyrarbæjar hafi gert sem sönnum húsbónda eða bústýru sæmir að bjóða gesti velkomna sem færa Akureyringum og Norðlendingum ómetanlegar gjafir, eins og bæjarstjórinn okkar Ásthildur Sturludóttir gerði góð skil af gnótt hjarta síns. Hofið okkar góða gerir það að verkum að slíkir viðburðir eru haldnir og einnig hefð tónleikahalds á Akureyri. Ég hef aldrei skilið að slíkir tónleikar þurfi að fara fram hjá fólkinu í tómu sætunum, ef til vill varð tímasetning þess valdandi að svo margir voru bundnir í öðru þetta kvöld. En fögnuður og einlæg hrifning áheyrenda var þvílíkt mikil og dynjandi klappið eftir hvert númer hljómaði sem dúndur í fullskipuðum sal.

Hljómsveitarstjórinn og sópransöngkonan Barbara Hannigan ásamt tónskáldinu Golfram Kayman. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Á undan tónleikunum kynnti Michael Jón Clarke efnisskrá og flytjendur, ásamt því að slá á létta strengi. Verkin sem flutt voru hygg ég að náð hafi að sýna mesta styrk þessarar frægu heimskonu, Barböru Hannigan. Frumflutningur slíks snillings á fyrsta verkinu eftir Golfram Kayman íransks tónskálds, sem var aukin heldur tileinkað Barböru, var kyngimagnað. Verkið með þéttum vef strengja eins og persneskt teppi þétt með fögru mynstri persneskrar skrautlistar í tréblæstri og einsöngslínum. Mér fannst þegar Barbara snéri sér út í sal, en stjórnaði áfram að ég sem áheyrandi færðist inn í verkið. Svo jók mikið á gildi og gleði stundar að tónskáldið Golfam var viðstödd og hneigði sig undir einlægum fögnuði áheyrenda og hljómsveitar.

Næst svo tónskáldið Haydn sem fyrir um 130 árum sló í gegn með 6 sinfóníur í farteskinu frá Vín til Lundúna. Sagan segir að þrátt fyrir að uppselt hafi verið á tónleikana hafi fremsti bekkurinn verið auður og ljósakróna hafi fallið á hann og engan slasað og því hafi sinfónían nr .96, sem flutt var, hlotið nafnið „Kraftaverka“ sinfónían. Reyndar var flutningur SÍ og Barböru Hannigan kraftaverki líkastur. Silfruð og fíngerð silkiáferð á stundum og svo ólgandi hafið á öðrum stöðum þess á milli. Mikið reyndi á færni einleiks hljómsveitarleikaranna svo sem flautu og óbós, sem leystu sín hlutverk af mikilli prýði.

Eftir hlé var einum tindi í sinfónískum verkum með glæsiflutningi á fjórðu sinfóníu Mahlers náð, sem nefnd hefur verið „Himnasælusinfónían“. Þar sem maður fær að lifa á sannfærandi hátt fjörið í himnaríki, í ljóði og lagi sem Barbara af mikilli fegurð og skaut hendinni lipurlega aftur fyrir sig að setja í gang „ballið“ í hljómsveitinni.

Í þessu verki finnst mér þriðji þátturinn grípa mig dýpst, ekki ósvipað Adagioetta þættinum í þeirri fimmtu. Magnað langvarandi klapp og bravóköll í lokin voru líkust því að vera með á popptónleikum goðanna! Ég fékk leyfi hjá Rósu Kristínu Júlíusdóttur að vitna að lokum í færslu hennar á fésbókinni í gær:

„Tónleikaupplifun mín í gærkvöldi í Hofi var óumdeilanlega ein sú magnaðasta sem ég hef upplifað. Barbara Hannigan er ein þekktasta söngkona og hljómsveitarstjóri samtímans, og gegnir gjarnan báðum þessum hlutverkum samtímis líkt og á tónleikum gærkvöldsins. Á tónleikunum frumflutti Sinfóníuhljómsveit íslands einnig nýtt verk eftir írönsku tónlistarkonuna Golfam Khayam; I am not a tale to be told. Samið fyrir Barböru Hannigan og tileinkað henni. Tónleikar kvöldsins voru í einu orði sagt stórkostlegir!“ (Rósa Kristín Júlíusdóttir)

Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld á Akureyri

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30