Fara í efni
Pistlar

Gleðispillirinn og neyslunöldrarinn kveður sér hljóðs

Ég er gjarnan frekar óvinsæl þegar ég fer að nöldra um hraðtísku og einnota varning. Gleðispillir þegar rætt er um að það sé svo ótrúlega ódýr og fín föt í boði í einhverri vefverslun, en ég bendi á að þessi verslun hafi fengið algjöra falleinkunn varðandi notkun eiturefna í framleiðslu og aðstæður starfsfólks í saumaverksmiðjum séu vægast sagt hörmulegar.

Það er ekki hægt að selja heila flík á nokkra hundraðkalla, nema framleiðslukostnaðurinn sé nánast enginn. Það þarf ekki gráðu í viðskiptafræði til þess að átta sig á því.

Ég ákvað að hafa ofangreint efst í pistlinum mínum, til þess að þau sem ekki kæra sig um að heyra þetta - og vilja halda áfram að versla á SHEIN t.d. eða sambærilegum keðjum - geti hætt að lesa. Ignorance is bliss, er það ekki svoleiðis?

Það er magnað, hvað við getum eignast mikið af klæðilegum flíkum, fyrir lítinn pening. Í auglýsingu fyrir nýja verslun með hraðtísku, sem opnaði fyrir nokkrum mánuðum á Glerártorgi, sagði áhrifavaldur að þetta væri frábær búð til þess að versla dressið fyrir kvöldið. Við virðumst vera búin að skapa okkur heim þar sem það er eðlilegt að kaupa sér fatnað fyrir eitt kvöld. Á tímum Covid varð sprenging í verslun á netinu. Lagerinn hjá Póstinum var smekkfullur af pokum og kössum frá verslunarkeðjum, og núna, nokkrum árum seinna, eru nytjamarkaðir fullir af spánýjum flíkum - mörgum enn með miðanum í. 

Neyslan okkar er reyndar svolítið einnota að mörgu leyti, ekki bara í fatnaði. Til dæmis eru til heilu verslanirnar í dag, með einnota dóti til þess að halda veislur. Full búð af þematengdu, fjöldaframleiddu drasli sem er svo oft á tíðum hent eftir veisluna. 

En aftur að hraðtískunni, sem er iðnaður í gríðarlegum vexti. Samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum ber hraðtískuiðnaðurinn ábyrgð á u.þ.b. 10% af CO2 útblæstri í heiminum. Meira en allar flug- og sjávarsamgöngur heimsins samanlagðar. Hraðtískuiðnaðurinn er líka í öðru sæti, á eftir landbúnaði, yfir mestu vatnsnotendur á heimsvísu. Ef ekkert breytist, er því spáð að mengun af völdum hraðtískuiðnaðar muni aukast um 60% til ársins 2030.

Almennt er talað um, að spænski hraðtískurisinn Zara marki upphafið að því sem kallað er 'hraðtíska' í dag. Snemma á tíunda áratug síðustu aldar, hóf Zara að markaðssetja eftirlíkingar af tískupöllunum, innan við 15 dögum frá því að flíkurnar birtust, bornar fram á þvengmjóum fyrirsætum stóru tískumerkjanna. Í dag hefur fyrirtækið SHEIN svo tekið hraðtískuna á töluvert hærra og metnaðarfyllra plan, en þau gefa skít í tískupallana og nýta sér áhrifavalda heimsins og gervigreind til þess að ákvarða hvert tískan er að fara. SHEIN bætir við 2.000-10.000 nýjum flíkum á appið sitt daglega. Það sem selst best, fer í alvöru fjöldaframleiðslu, en upphaflega er allt framleitt í minna magni. Það má vel ímynda sér að ansi stór hluti þess sem saumað er fari nú samt í landfyllingar, a.m.k. fyrr eða síðar. 

Vandamálið hefur verið að gagnsæi í hraðtískuheiminum hefur verið ábótavant. Stóru keðjurnar kaupa þjónustu af verksmiðjum í Asíu og lítið sem ekkert hægt að fá að vita um uppruna fatnaðarins sem viðskiptavinir kaupa, annað en ‘Made in China’. Eins og tíðarandinn hefur þróast undanfarna áratugi, virðist reyndar vera að það séu færri og færri sem láta sig það varða, hvaðan og hvernig hlutirnir komast í fataskápinn okkar. Rétt eins og við spáum kannski lítið í því hvað hefur átt sér stað áður en kjúklingabringurnar rötuðu í okkar hendur úr kjötkælinum í matvöruverslunum.

Breska sjónvarpsstöðin Channel4 gerði heimildamyndina Inside The Shein Machine, þar sem fjölmiðlakonan Iman Amrani fór huldu höfði í verksmiðjur SHEIN og skrásetti aðstæður. Meðal annars var fólk að vinna um 17 klukkustunda vinnudaga, og gjarnan með einn frídag á mánuði. Fólk var með 20 dollara á dag, án samnings. Í dag eru 20 dollarar 2.760 krónur. Ef gerð voru mistök við saumaskapinn voru daglaunin minnkuð um 14 dollara. Sumar „verksmiðjur“ voru í óæskilegu húsnæði, þar sem hvorki voru gluggar né neyðarútgangar. Starfsfólkið komst ítrekað í návígi við eiturefni af mismunandi tegundum í framleiðsluferlinu.

Samkvæmt frétt á TIME um umsvif SHEIN, er Ísland eitt af þeim löndum sem verslar mest frá keðjunni. Ég geri ráð fyrir að það sé miðað við höfðatölu, eins og svo margt annað þar sem Ísland kemst á blað á heimsvísu. Engu að síður, ömurlegar fréttir, og einmitt ástæða þess að ég ákvað að setjast niður og vera með leiðindi. 

Í dag er skrítinn dagur. Bara alveg eins og í gær, og alveg eins og á morgun. Við búum í heimi þar sem við getum eignast svo margt, vitað svo margt og gert svo margt. Það er erfitt að velja og það er erfitt að fóta sig í upplýsingaflæði nútímans. En það sem við getum gert, og megum ekki trassa, er að passa upp á eigin meðvitund. Ef við vitum ekki eitthvað, þá getum við útvegað okkur upplýsingar á netinu. Ef okkur finnst grunsamlegt að flík geti kostað nokkra hundraðkalla, send frá Asíu á dyraþrepið hjá okkur á Íslandi, þá er um að gera að afla sér upplýsinga um söluaðilann og svo þarf að skoða siðferðislegar hliðar málsins.

Er ég til í að klæðast flík sem er saumuð við slæmar aðstæður, af manneskju, rétt eins og mér - sem er beitt ranglæti og vinnuþrælkun? 

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net og formaður SUNN, samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00