Fara í efni
Pistlar

Geri það sem ég get og vil

Ég er hinn íslenski athafnamaður sem rís hátt upp úr meðalmennskunni, ber af öðrum, svíf um óravíddir fjármálahimins meðan aðrir skríða í duftinu eins og ormar og naga mylsnur sem hrynja af allsnægtaborði mínu. Það eru menn eins og ég sem halda þjóðfélaginu gangandi með dirfsku og dugnaði. Ég stofna fyrirtæki, stækka þau, sameina, set á hausinn, bý til ný, flyt inn allan andskotann, sel sál mína og ömmu minnar, kennitölu eiginkonunnar, arfleiði börnin, köttinn, frænda í Kanada, sé jafnvel sjálfur um að fóstra mitt vinnuafl og mér dettur ekki í hug að borga skatta og einhver gjöld sem eru bara bull og firra og myllusteinn um háls hins frjálsa og sterka.

Ágætu lesendur, það er af og frá að ég ætli hér að fara að hæðast að dugmiklum manneskjum sem vilja valsa frjálsar um lendur hagkerfisins enda er ég býsna hrifinn af einstaklingshyggju upp að vissu marki. Þarna býr mikil hugmyndaauðgi og framtakssemi og án slíkra þátta væri samfélagið kannski bara steingelt sjálfstýriapparat með samvinnufélögum og opinberum starfsmönnum sem væru fastir á færibandi meðalmennskunnar. Allir á tíu ára gömlum Volvo með beltin spennt, ávallt á löglegum hraða; hefðbundinn vinnutími, soðin ýsa og steiktur hryggur í matinn, gamlir þættir með Derrick og Matlock í sjónvarpinu. Nei, við viljum aðeins meira spennandi líf.

Mér finnst hins vegar þegar ég les endalausar fréttir af hvers kyns óheiðarleika, skattsvikum, mansali, innflutningi á vafasömum efnum, braski með bíla og húsnæði og skefjalausri eigingirni og skeytingarleysi um hag náungans, að við séum einum of dugleg að rjúfa mörk, brjóta lög og svívirða siðareglur. Frelsi án ábyrgðar og aðhalds er kannski ekki sniðugt en tilhneigingin skiljanleg sem mótvægi við miðstýringu og forsjárhyggju. Sennilega gildir það sama hér og á mörgum sviðum; nokkur rotin epli skemma út frá sér. En mikið rosalega geta þau verið rotin og með ólíkindum hvað fær að vaða uppi í þjóðfélaginu.

Slóttugir bílasalar

Ég held að fyrstu kynni mín af vafasömum viðskiptum tengist bílum og miðað við fréttir undanfarinna ára hefur lítið breyst. Bílaleigur sem spóla niður kílómetramæla. Bílastæðafyrirtæki sem þjösnast á bílum viðskiptavina eða leigja þá jafnvel út. Leigubílahark þar sem frumskógarlögmálin ráða ríkjum og þannig mætti áfram telja. Sjálfur man ég eftir vafasömum bílasölum, slóttugum sölumönnum sem litu aldrei í augun á mér og seldu mér stórgallaðan bíl á uppsprengdu verði og lækkuðu svo umsamið verð á mínum upp í vegna þess að ekki hafði verið skipt um tímareim. Eða keðjureykjandi kallinn sem sparkaði í dekkin þegar ég fór í dekkjaskipti og argaði að þau væru ónýt og ég yrði að kaupa ný, sem ég hafði ekki efni á. Og bifvélavirkinn sem átti að laga bremsurnar en ég endaði með nýupptekna vél og ég hef ekki enn leyst bílinn út 40 árum síðar enda kostaði viðgerðin tífalt kaupverð skrjóðsins.

Athafnaskáld (mikið er þetta fallegt orð) dagsins í dag eru gjarnan með mikið hugmyndaflug og öfundsvert frumkvæði. Gallinn er bara sá að þetta eru ekki endilega heiðarlegustu einstaklingar samfélagsins og þegar þeir gera upp á bak fá flestir aðrir á baukinn en þeir sleppa sjálfir með bókhaldsbrellum og kennitöluflakki. Venjulegt fólk sem klúðrar vinnunni, skattframtalinu, íbúðaláninu eða heimilisbókhaldinu almennt þarf að súpa seyðið af því meðan athafnadúddarnir eru stikkfríir. Jafnvel þótt þeir skilji eftir sig skituslóð og sviðna jörð virðast þeir alltaf geta haldið áfram eins og fréttir af verktökum, veitingamönnum og alls konar bröskurum sýna.

Íslenski athafnamaðurinn fattar ekki eðli skatta eða þjóðfélagsins yfirhöfuð og allt sem heitir samviska og samábyrgð er honum víðs fjarri. Hann hatast við ríkisrekstur og opinbera starfsmenn eins og mig því við erum afætur og nánast styrkþegar hins blómlega einkaframtaks enda skilum við engum verðmætum. Athafnamaðurinn flytur inn einingar og efni sem henta ekki í íslenskum byggingariðnaði, hann flytur inn erlent verkafólk sem skeytir litlu um gæði frágangs. Hann kaupir iðnaðarhúsnæði og leigir ósamþykktar íbúðir dýrum dómum. Athafnaskáldið ástsæla blæs á þann góða árangur sem hafði náðst hér í því að nánast útrýma nikótíni meðal ungmenna og leggur sig í líma að flytja inn og selja sem mest af nikótínpúðum og veipi og gera æskuna okkar háðar þessu fíkniefni. Þar hefur honum tekist einstaklega vel upp og það sama má segja um framleiðendur og innflytjendur orkudrykkja, snyrtivara, fæðubótarefna og alls kyns óþarfa sem hægt er að stórgræða á – oft með aðstoð svokallaðra áhrifavalda.

Dælum nikótíni, koffíni og alkóhóli

Með hverju ári færast svo frjálshyggjupostular og athafnamenn skrefi nær því að fylla póstverslanir, matvöruverslanir og sjoppur af áfengi undir yfirskyni viðskiptafrelsis og andúðar á forræðishyggju. Þarna hafa skoðanir mínar sveiflast nokkuð en þó tel ég sennilega best að halda áfram að selja áfengi í vínbúðum, klaufhamra í byggingavöruverslunum og bensín á bensínstöðvum. Fólk sem notar og veitir áfengi t.d. á sunnudögum hlýtur að geta haft þá fyrirhyggju að koma sér upp eilitlum lager svo það grípi ekki í tómt þegar gestir koma óvænt í humar um helgi. Hóflega drukkið vín og allt það… en út frá lýðheilsusjónarmiðum er langt frá því að vera sniðugt að auka sölu á þessari vöru umfram það sem orðið er. Aukið framboð, aðgengi, kynningar og annað markaðsstarf stefnir auðvitað að því að þeir sem framleiða eða hafa umboð fyrir þessa vöru auki hag sinn með meiri sölu. Það er barnaskapur að halda öðru fram.

Frelsi án ábyrgðar. Já, við getum í nafni frelsis dælt nikótíni, koffíni, alkóhóli og bráðum kannabis inn á markaðinn þar sem umboðsmenn græða á tá og fingri en afleiðingarnar lenda á ríkinu, ekki síst heilbrigðisstofnunum. Þarna skortir eitthvað á ábyrgð en til að fyrirbyggja misskilning finnst mér, öfugt við marga, ekkert rangt við það að græða og auðvitað nauðsynlegt að reka bissness með hagnaði. Maður má bara ekki svífast einskis og níðast á æskunni.

Nú, svo eru það auðvitað stóru athafnamennirnir sem vilja kaupa tryggingarfélög eða banka, selja vatnið okkar, orku, land, laxveiðiár, fossa, vindinn og einkavæða sem mest til að ná fram hagkvæmni í rekstri sem þýðir yfirleitt að skerða þjónustu og raka saman arði fyrir hluthafa. Þá erum við fara að tala um alvörubissness, ekki eitthvert orkudrykkjapiss eða bjór í búðir. Lifi íslenski athafnamaðurinn – þetta er óður til hans. Landið er hans leikvöllur.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er opinber starfsmaður og athafnaskáld

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00