Fyrirtaks fjölskyldusýning
Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit – Fjölskyldusýning í Freyvangsleikhúsinu.
Kraftmikið leiklistarstarf hefur verið um árabil í Freyvangsleikhúsinu, og er það lyftistöng fyrir menningarlíf í Eyjafirði. Í hraða nútímans er frábært að enn sé til sé fólk sem er tilbúið að gefa af sér í félagsstarf, eins og leiklist. Það er mikil vinna sem liggur að baki leiksýningar og er það mjög óeigingjarnt starf sem fólk leggur á sig og á það þakkir skyldar fyrir.
Föstudaginn 17. nóvember frumsýndi Freyvangsleikhúsið nýtt barna og fjölskylduleikrit, Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit, eftir Jóhönnu Sigurbjörgu Ingólfsdóttur, sem jafnframt er leikstjóri sýningarinnar, en hún byggir leikverkið á þeim ástsælu persónum, Bangsímon og Gríslingi eftir, A. A. Milne, sem Disney gerði síðar ódauðlegar, og blandar hún þeim saman við klassískar Íslenskar verur sem allir þekkja.
Jóhanna hefur áður leikstýrt hjá Freyvangsleikhúsinu, en það var, Karíus og Baktus og var það sýnt fyrir jólin í fyrra. Jóhanna er jafnframt formaður, Freyvangsleikhússins. Henni tekst að skapa átakalausa og ljúfa sýningu sem allir voru greinilega sáttir með í salnum.
Undirritaður fór á 2. sýningu laugardaginn 18. nóvember og var fullt hús. Það leyndi sér ekki hjá þeim yngri, en börn virtust í meirihluta í salnum, að eftirvænting var talsverð í loftinu og spenna allan tímann.
Í upphafi sýningarinnar kemur sögumaður á sviðið og leiðir sýninguna inn, hlýr og öruggur, og er það snjallt að leiða sýninguna með sögumanni, en þar var á ferð, Jón Friðrik Benónýsson, sem um langt skeið var einn af máttarstólpum Leikfélags Húsavíkur, og ferst honum þetta vel úr hendi, eins og vænta mátti.
Síðan birtast Bangsímon, Sveinn Brimar Jónsson, og Gríslingur, Alexandra Guðný Haraldsdóttir, en þeir félagar eru að leggja upp í leit að jólasveinunum á Íslandi, og er þeim ekki létt að finna þá. Á leið þeirra er Bangsímon sífellt svangur og Gríslingur hræddur. Sveinn Brimar og Alexandra Guðný gerðu vel í sínum hlutverkum, voru ósköp ljúf og sungu aldeilis vel. Á þessari leið sinni í leitinni að jólasveinunum hitta þau nokkrar persónur, svo sem afturgöngu, sem Hallur Örn Guðjónsson leikur skemmtilega, syngur vel. Þau hitta álf, sem Eyþór Daði Eyþórsson leikur, létt og skemmtilega og syngur ljómandi vel. Þá hitta þau einnig jólaköttinn, sem Freysteinn Sverrisson leikur, og notar hann skemmtilega ísmeygilega rödd í kisa, sem er auðvitað ljúfur sem lamb. Og þá er aðeins ótalinn, Stúfur jólasveinn, sem Kristbjörn Steinarsson leikur, en hann kemur brunandi léttur á rauða hlaupahjólinu sínu.
Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit, er skemmtilegt, ljúft, lítið ævintýri. Allt gengur upp í sýningunni og allt fer vel að lokum. Um leikmynd og leikmuni sér Guðrún Elva Lárusdóttir, og ferst henni það verk vel úr hendi, á sviðinu er það sem þarf og er það vel. Um búninga sá, Guðný Kristinsdóttir og hefur vel tekist til þar. Um lýsingu sá Baddi Ingimars. Öll tónlist er frumsamin af Eiríki Bóassyni og er hún góð og fellur vel að verkinu, en á sviðinu var fjögurra manna hljómsveit. Söngtextar koma frá Jóhönnu Sigurbjörgu og Sveindísi Maríu Sveinsdóttur, og svo jólasveinavísur frá Jóhannesi úr Kötlum.
Leikarar og aðstandendur sýningarinnar standa sig allir með prýði, og hefur leikstjóri og höfundur örugglega ætlað sér að búa til mjúka, sæta sýningu þar sem áhorfandanum finnst hann vera ögn betri manneskja þegar hann yfirgefur leikhúsið. Þetta hefur Jóhönnu tekist. Þetta var ósköp ljúfur klukkutími þarna í Freyvangsleikhúsinu, og var það ekki bara mér sem fannst það, því að börnin voru vel með á nótunum og tóku undir það sem þurfti og voru farin að syngja lagið þeirra Bangsímons og Gríslíngs. Að lokinni sýningu fengu börnin að heilsa upp á leikendur á sviðinu. Þetta er fyrirtaks fjölskyldusýning sem ég mæli hiklaust með.
Aðalsteinn Bergdal er leikari