Fara í efni
Pistlar

Fólk í blokk

Ég býst við að Freyvangsleikhúsið sé eitthvert allraöflugasta leikhús áhugamanna á landi hér. Verkefnaskráin er orðin löng og viðfangsefnin fjölbreytt. Og eitt af því sem er heillandi við áhugamannaleikhús er að þar safnast saman fólk að loknum vinnudegi og leggur líf sitt og sál í að búa til eftirminnilegar kvöldstundir þar sem miðlað er gleði eða sorg eða alvarlegum boðskap með því að skapa persónur sem sýna í tali eða tónum dæmi úr fjölbreytilegu lífi fyrr eða síðar. Og þetta yrði ekki gert ef þeir sem að baki sýningum standa nytu þess ekki af áfergju að miðla menningu. Þetta er menningarstarf.

Þessa dagana býður Freyvangsleikhúsið gestum að líta inn og gægjast inn í líf litskrúðugra íbúa í stigagangi í blokk, sjá Fólkið í blokkinni sem er gamansamur leikur eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Kolbrúnar Lilju Guðnadóttur. Lengst af gerast atburðir á heimili vísitölufjölskyldu, sem er kannski ekki hefðbundin. Drykkfelldur heimilisfaðir, eiginkonan spákona, dóttirin á mörkum þess að vera í sambandi og unglingspiltur sem er ef til vill of hreinlyndur fyrir heimilið. En þarna koma margir aðrir, jafnvel enn skrautlegri, úrillur húsvörður, pólsk nuddkona, útigangsmaður og örvæntingarfullur íbúi á efri hæðum, og við fáum að skyggnast inn í aðrar íbúðir og kynnast margvíslegum vandamálum hversdagsins – og hljómsveitin Sónar er á sviðinu og gefur ekkert eftir. Og takmark sumra er að setja saman leikrit um fólkið í blokkinni og slá í gegn. Æfingar standa yfir.

Laugardagssýningin fór hægt og varlega af stað, enda eru ekki allir dagar eins í blokk. Eftir því sem á leið jókst spennan og hraðinn og undir lokin var komin rífandi stemming. Og þó að nokkrir leikarar tækju lagið var Hárfinnur (Helgi Þórsson) í aðalhlutverki sem söngvari hljómsveitarinnar, og það var engin lognmolla í kringum hana. En þó að Fólkið í blokkinni sé ekki farsi var nóg af spaugilegum atvikum og hlægilegum aðstæðum sem leikarahópurinn laðaði fram.

Fólkið í blokkinni er ánægjuleg kvöldskemmtun og það er vel þess virði að renna fram í Freyvang og njóta léttleika tilverunnar þar.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00