Eitthvað geysilegt var að gerast í sönglífi Akureyrar
Karlakór Akureyrar – Geysir hélt upp á eitt hundrað ára starfsafmæli karlakórasöngs á Akureyri í Hofi 12. nóvember 2022
Aldrei eru sólargeislar í sálinni nauðsynlegri en þegar dagur styttist og nótt lengir. Sumir hlýða sólarþörfinni og fara til sólarlanda, sem er ágætis leið til að stytta skammdegið.
Sannarlega færir blessuð sólin þar manni brúnku, sem ekki er varanleg, því finna má leiðir fyrir hjarta og „endorfín“ flæði, sem er taninu varanlegra. Reyndar má halda brúnkunni við og sækja ljósastofur, sem hafa það fram yfir sólina að lýsa bæði neðan frá og ofan.
Þetta er morgunljóst, réttara sagt morgundimmt nú um stundir. Þessa endorfín hjartaglóð er sannarlega hægt að öðlast hér í bæ án samlokuljósabekkja. Allt í kring um okkur leynast ljósgjafar, með misjafnlega sterkum perum þó. Þannig lýsa á mann gleðiljós hlýrra samskipta við margt fólk daglega, jafnvel fyrir marga með sterkum perum ástarinnar og kærleikans. Einnig lýsa menn upp skammdegið með þátttöku í listrænni sköpun. Úr dimmunni fæðist t.d. tónlist í börkum fólks í kórum og tónar í hljómsveitum. Þessi sannindi verða svo áþreifanlega fyrir okkur er við njótum tónlistarinnar sem kviknar í þessum ljósveitum á tónleikum. Framboð af ljósi tónleikanna er mest er nálgast jólin og ekki tilviljun að við tölum um ljósahátíð, blessuð jólin, á tíma þegar þörfin fyrir hjartaglóðina er mest.
Þetta er geysilega gott fyrirkomulag.
Eitthvað geysilegt var að gerast hér í sönglífi Akureyrar um þessa helgi. Karlakór Akureyrar – Geysir hélt upp á eitt hundrað ára starfsafmæli annarrar grunnstoðarinnar í þeim merka karlakór, þ.e. Karlakórsins Geysis, en Geysir var stofnaður á haustmánuðum 1922. Afmælisins var minnst með veglegum tónleikum þessara sameinuðu kóra, sem voru í alla staði einstaklega vel framreiddir og náðu oft að koma mínu notaleika „endorfíni“ til að blása í hjartaglæður mínar.
Frá afmælistónleikunum í gær. Stjórnandinn er Valmar Väljaots, Benedikt Sigurðarson, formaður kórsins lengst til hægri í hópi söngmanna. Risto Laur við hljóðfærið. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Ég ólst upp á Akureyri í anda tveggja andstæðra akureyrskra stórvelda karlakóra. Í París hefði trúlega Karlakór Akureyrar verið á vinstri Signubökkum og hinn á þeim hægri og lítill sem engin samgangur á milli. Nærtækari skýring væri að bera þá saman við KA og Þór. Ég hélt mig með pabba Áskeli Jónssyni á „vinstri bakkanum“, fylgdi honum dyggur sonur stjórnanda Karlakórs Akureyrar. Aldrei hnaut frá honum styggðaryrði á þá á austurbakkanum, en mér fannst snemma skrýtið að þeir væru að skreyta sig með nafni frægasta hvers landsins, Geysi. Þetta skýrðist þó allt fyrir mér síðar, sem getið verður.
Ég ólst upp við að sækja söngæfingar Karlakórs Akureyrar. Fyrst í húsi verkamanna á sunnudagsmorgnum og náði síðar þeim heiðri að verða undirleikari og síðar stjórnandi kórsins um skeið. Á níunda áratugnum var kominn tími til að mætast á miðri elfunni og sameina Geysi og Karlakór Akureyrar (sjö árum yngri, stofnaður 1929), sem gerðist af skynsemi og litlum sárindum. Reyndar er forsaga karlakóra á Akureyri lengri en 100 ár og þar kemur skýringin á notkun nafnsins á hinum sunnlenska fræga hver Geysi. Samkvæmt sögn Snorra Sigfússonar námstjóra í bókinn Ferðin frá Brekku, þá kom hann og nokkrir ungir karlar saman og höfðu það að markmiði að stofna karlakór til að hleypa heimdraganum og halda í söngför út árið 1905. Æfingar hófust með mikilli leynd, því ekki vildu piltarnrir verða sér til skammar ef mistækist. Eitthvað varð svo barnið að heita, en ekkert íslenskt orð hafði borist erlendum til eyrna jafn oft og orðið Hekla. Enda hvorki meira eða minna inngangur og útgangur úr helvíti. Nafnið varð svo Hekluförum til góðs og gerður góður orðrómur að söng þeirra í Ålesundblöðum. Svo 27 ár liðu þar til ofurhuginn og hinn ungi söngstjóri Ingimundur Árnason var valinn til að stjórna nýjum karlakór með meðal annarra nokkrum „Heklungum“ innanborðs, sem föluðust eftir að fá að nota Heklunafnið hjá Magnúsi Einarssyni, organista, sem hann féllst ekki á. Þá varð fyrir næstþekktasta örnefnið, Geysir. Ég hóf mál mitt að telja að sólargeisla og hjartaglóð mætti finna í tónlistinni. Svo sannarlega færðu 100 ára afmælistónleikar karlakóranna í Hofi mér slíkan unað undir vandaðri faglegri stjórn Valmars Väljaots og snilldarleik Risto Laur. Glæsileg efnisskrá fylgdi þar sem ýtarlega saga kóranna og dagblaðaúrklippur voru í bland.
Hygg ég að formaður kórsins, Benedikt Sigurðarson, eigi sinn þátt í að svo glæsilega var að afmælishástíð staðið. Kórinn var áhrifamestur í mjúka söngnum, þökk sé Valmari!
En áhrifamikill og góði gamli blærinn barst til eyrna, þegar gamlir félagar bættust í hópinn! Innilegir þakkir og einlægar hamingjuóskir til allra sem tóku þátt í vönduðum söng og öðru sem prýddi þessa glæsilegu hátíð.
Nóg er svo framundan af tóngeislum tengdum jólahaldinu.
Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld á Akureyri