Fara í efni
Pistlar

Danska á sunnudögum

Utanaðkomandi áhrif hafa, eins og víða, mótað sögu og mannlíf Akureyrar í gegnum tíðina. Á Akureyri eru dönsk áhrif áberandi, t.a.m. varð Akureyri kaupstaður – í fyrsta sinn – rétt fyrir 1800 í kjölfar ákvörðunar Danakonungs sem vildi efla þéttbýli á Íslandi. Þá bjuggu 12 á Akureyri. Áformin gengu þó ekki eftir en flest þekkjum við dönsku áhrifin á kaupmennsku, garðrækt, byggingar og tungumálið (enn má finna í akureyrskunni orð eins og bolsía fyrir brjóstsykur og punkterað fyrir sprungið dekk, helst reyndar hjá eldra fólki). Okkur var svo í mun að taka upp allt danskt sem við gátum að þegar drottningin sjálf mætti á svæðið dugði ekkert minna en að gefa heilli götu, nei braut, nafnið hennar; Drottningarbraut.

Fyn og Eyjafjörður

Í dag eru Danir 16 sinnum fleiri en Íslendingar eða tæpar 6 milljónir. Þriðja stærsta þéttbýli Danmerkur heitir Odense eða Óðinsvé, fjórða stærsta þéttbýlið á Íslandi heitir Akureyri. Óðinsvé er á eyjunni Fyn eða Fjóni og Akureyri stendur við Eyjafjörð. Á Fjóni búa um 8% Dana og við Eyjafjörð um 7% Íslendinga. Í Óðinsvéum búa tæp 4% Dana og rúmlega 5% Íslendinga búa á Akureyri. Á báðum stöðum er lítill alþjóðlegur flugvöllur, sjúkrahús og háskóli. Þannig séð er margt svipað með Akureyri og Óðinsvéum. Svo eiga báðir bæirnir heimsþekkta barnabókahöfunda; Óðinsvé H. C. Andersen og við Jón Sveinsson, Nonna. Danir nefndu reyndar flugvöllinn við Óðinsvéar eftir rithöfundinum sínum.

Óðinsvé og Akureyri

Þó svo, eins og nefnt er hér fyrir ofan, að margt sé líkt með þessum tveimur bæjum þá er eins og gefur að skilja líka ansi margt ólíkt, tökum dæmi: Í Óðinsvéum eru 2,5 metrar af hjólastígum á hvern íbúa, á Akureyri eru 5 sentimetrar af hjólastígum á hvern íbúa. Árið 1998 var Óðinsvé tilnefnd hjólreiðabær Danmerkur en frá því fyrir 1980 hefur áherslan á hjólreiðar sem samgöngumáta verið skýrt mótuð í stefnu bæjarins. Samkvæmt upplýsingum úr hjólreiðaáætlun Óðinsvéa frá 2015 kemur fram að 36% íbúa hjóluðu til vinnu. Markmið áætlunarinnar var að hækka þetta hlutfall upp í 45% á þremur árum, meðal annars með lagningu svokallaðra supercykelstie eða ofurhjólreiðastíga. Samkvæmt nýlegum ferðavenjukönnunum á Akureyri fara 85% háskólanema á bíl í skólann og 57% framhaldsskólanema.

Svipaða sögu má segja um orkuna; það líður að því að forskotið sem við fengum í vöggugjöf, náttúrauðlindirnar jarðvarma og vatnsafl, hverfi alveg. Á heimasíðu Fjernvarme Fyn stendur stórum stöfum: „Slut med kul i 2022”. Stefnan var að hætta kolanotkun 2025 en henni var síðan flýtt. Með sömu framsýni gæti Akureyrarbær sett á sína heimasíðu „Slut með benzinbiler 2022“ því hvor hindrunin ætli sé stærri? Að hætta að brenna kolum til húshitunar með engar orkuauðlindir aðrar en þær sem allir aðrir hafa, eins og sól og vind, eða hætta að kaupa nýja bensín- og dísilbíla?

Það er búið að skrifa margar greinar og háskólaverkefni og móta opinberar stefnur um ferðavenjur og hvað hefur áhrif á val á ferðamáta. Þar kemur helst við sögu veður, brekkur, dagsbirta, öryggi, snjór, innviðir, tæki og vegalengdir. Án þess að fara djúpt í þessar stefnur og greiningar má í stuttu máli segja að það sé nánast enginn munur á Óðinsvéum og Akureyri þegar kemur að því að velja lausnir í samgöngum. Alla vega ekkert sem kemur upp í hugann, nema helst þá að Akureyri er mun minni að flatarmáli en Óðinsvé og því ætti að vera töluvert meira um hjólreiðar og göngu til og frá vinnu og skóla hér en þar, sem er þó, eins og tölurnar segja okkur, ekki raunin. Með tilkomu rafhjóla og rafskotta eru brekkur og mótvindur ekki lengur hindrun.

Akureyri 2030

Akureyri hefur alla burði til að verða fyrirmyndabær að öllu leyti, ekki síst í umhverfismálum enda höfum við staðið okkur ágætlega hingað til. En við getum gert svo miklu betur. Ástæðan fyrir því að Akureyringar eiga Íslandsmet í flokkun lífræns úrgangs er sú að framsýnt fólk reisti Moltu. Ástæðan fyrir því að hátt hlutfall íbúa Óðinsvéa hjóla allra sinna ferða er sú að framsýnt sveitarstjórnarfólk lét sér ekki nægja að tala um hjólastíga heldur lét leggja þá. Það skiptir því máli að vera með skýra pólitíska stefnu og hrinda henni í framkvæmd.

Á þessum framtíðarnótum langar mig að benda á tengil á odense.dk sem heitir: „Byens udvikling” (hvet ykkur til að kíkja á). Fyrir meira en 30 árum ákvað Óðinsvé að verða hjólabær og nú hafa þeir ákveðið að verða róbóta- og drónabær eða, eins og stendur á vefsíðu sveitarfélagsins: „Når man siger Odense, må man også sige robotter og droner.”.

Er ekki upplagt núna fyrir kosningarnar næsta vor að ræða hvað viljum að standi í udviklingsplani Akureyrar til 2030?

Guðmundur Haukur Sigurðarson er tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00