Breytingargjald
Þá sjaldan að maður leyfir sér þann munað að ferðast með flugi hér innanlands þá þarf maður svo sannarlega að punga út fyrir ferðinni. Ekki nóg með það heldur er engan vegin hægt að treysta því að flogið sé á tilsettum tíma.
Ég átti pantað flug eldsnemma morguns frá Akureyri til Reykjavíkur því ég þurfti að erinda aðeins í höfuðborginni. En auðvitað klikkaði flugið og setti alla mína dagskrá úr skorðum. Ég ákváð þá að hringja í Icelandair. Reyndar var ekki svarað, en ég get vel ímyndað mér hvernig samtalið hefði orðið.
Einþáttungurinn Símtal um breytingargjald, eftir Ólaf Torfason.
Góðhjörtuð (og brosmild, geri ég ráð fyrir) stúlka svarar.
Ég: Góðan dag, við hvern tala ég þegar ég þarf að láta ykkur hafa reikningsnúmerið mitt?
Stúlkan: Til hvers þarftu að gefa okkur reikningsnúmerið þitt?
Ég: Vegna breytingar á fluginu mínu.
Stúlkan: Þú borgar breytingargjaldið þegar þú breytir fluginu á netinu og þá ættir þú að sjá upphæðina sem þú þarft að borga og getur borgað með kortinu þínu.
Ég: Nei, sko þið þurfið að borga mér. Þið breyttuð fluginu mínu.
Stúlkan: Ha, hvað meinarðu?
Ég: Þið voruð að breyta fluginu mínu og ég ætla að rukka ykkur um breytingargjald.
Stúlkan: Nei það virkar ekki þannig, við borgum ekki breytingargjald þó svo að við þurfum að breyta fluginu hjá okkar farþegum.
Ég: Nú, afhverju ekki?
Stúlkan: Stundum koma upp þannig aðstæður hjá okkur og við þurfum óhjákvæmilega að færa til flug hjá okkur og við borgum ekki breytingargjöld til farþega.
Ég: Það kemur líka stundum upp sú staða hjá mér að ég þurfi óhjákvæmilega að færa til flugið mitt og þá þarf ég að borga.
Stúlkan (reyndar ekki alveg jafn kurteis og í byrjun): Svona eru bara reglurnar hjá okkur.
Ég: Reglurnar hjá mér eru þannig að ef þið breytið fluginu mínu þá þurfið þið að borga mér.
Ég: Halló, Halló...
Sambandið virðist hafa slitnað. Ætli hún sé uppi á Holtavörðuheiði eða að keyra í gegnum göngin? Alla vega er símasambandið eitthvað slæmt.
Ólafur Torfason er Akureyringur.