Fara í efni
Pistlar

Blóði drifin þjóðernishyggja

Norðmenn voru nýlega í fréttum, óánægðir með hlut sinn í loðnuveiðum við Íslandsstrendur. Þarna virtist framganga íslenska ríkisins andsnúin norskum hagsmunum. Þetta voru ekki stórfréttir, hvorki á Íslandi né í Noregi, enda treystir fólk því almennt að slík mál séu útkljáð við samningaborðið á grundvelli þjóðaréttar. Við óttumst ekki innrás Norðmanna.

Því miður búa ekki allir við friðelskandi ríkisvald. Til að átta okkur betur á forréttindum okkar skulum við ímynda okkur fjarstæðukenndan hliðarveruleika: Um miðja 21. öld hefur komist til valda í Noregi stjórnlyndur lýðskrumari með hugmyndafræði ýktrar þjóðernishyggju. Stjórnarskrá Noregs hefur brugðist og þar ríkir nú einræði. Hugmyndafræðin er útlistuð af fáeinum „fræðimönnum“ sem ekki eru teknir alvarlega af kollegum sínum, en þeim hefur tekist að sannfæra einvaldinn með skjalli og fagurgala. Meðal þess sem þeir hafa matað hann á svo áratugum skiptir er eftirfarandi sýn á tengsl Noregs og Íslands:

„Ísland byggðist af norrænum mönnum frá vesturströnd Noregs. Saga landnámsins var skráð á Landnámabók og fleiri norsk fornrit. Norsk menning, trúarbrögð og hugmyndaheimur lifði svo góðu lífi á Íslandi að Norðmaðurinn sem átti stærstan þátt í að varðveita hana með ritstörfum sínum, Snorri Sturluson, var einmitt búsettur þar. Þegar lausbeislað stjórnskipulag goðaveldisins megnaði ekki að tryggja frið á eyjunni leituðu höfðingjarnir til Noregskonungs og sóru honum hollustu árið 1262. Þetta gæfuspor í þágu friðar og samlyndis var mjög eðlilegt því ein og sama þjóðin byggði strendurnar beggja vegna Noregshafs. Norska ríkið mátti seinna þola þá niðurlægingu að vera fellt undir danskt konungsvald til 1814 og síðan sænskt til 1905, en reis upp á ný til að gegna sögulegu hlutverki sínu sem verndari norrænna gilda og strandmenningar, sem er hið sanna eðli okkar sem byggjum Noreg, Ísland og Færeyjar ásamt eyjum og strandhéruðum Bretlands. Svokallað sjálfstæði Íslands er dönsk 20. aldar uppfinning sem bíður þess að vera leiðrétt. Eftir að við öðluðumst endanlegt sjálfstæði með því að segja okkur úr NATO og breyta olíusjóðnum í alvöru her fylgdi hið „sjálfstæða“ og bláeyga Ísland fordæmi okkar án þess að huga að eigin landvörnum. Þess vegna er friðurinn í hættu á Íslandi enn á ný, rétt eins og á 13. öldinni. Við þekkjum sögulegt hlutverk okkar; það er skylda norskra yfirvalda að koma í veg fyrir uppgang andnorrænna afla á Íslandi. Eins og við vitum hafa þar vaðið uppi öfgahópar eiturlyfjaneytenda og femínista undir formerkjum „fjölmenningarsamfélags“, að ekki sé talað um öll ensk-amerísku áhrifin sem ógna norskri siðmenningu eyjarinnar og stórhættulegar vangaveltur um aðild að Evrópusambandinu og endurinngöngu í NATO. Til að verja siðmenningu okkar þurfum við að grípa til aðgerða áður en andnorræn öfl ná undirtökum á sögueyjunni. Þetta verður sérstök aðgerð til að vernda stór-norsku þjóðina gegn útrýmingu af hálfu alþjóðasinna.“

Þetta er fjarstæðukennd þvæla. Samt á hún ótrúlega margt sameiginlegt með þeirri orðræðu sem notuð er til að réttlæta innrásina í Úkraínu. Sú orðræða endurómar lykilstef úr bók sem kom út í Rússlandi árið 1997 og heitir í enskri þýðingu The Foundations of Geopolitics – The Geopolitical Future of Russia (Grundvöllur landfræðistjórnmála – landfræðistjórnmálaleg framtíð Rússlands). Höfundurinn, Alexandr Dugin, hefur verið náinn valdamönnum í Kreml og hugmyndir hans hafa verið flokkaðar sem þjóðernisfasismi. Nánar um það í næsta pistli.

Hugmyndum fylgir ábyrgð. Hugmyndafræðilegir loftkastalar verða blóði drifnir þegar valdhafar breyta þeim í miskunnarlausan hernað. Styðjum Úkraínu og stöndum vörð um lýðræðið.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Ódi

Jóhann Árelíuz skrifar
19. janúar 2025 | kl. 06:00

Sambýlið á Ásbraut 3 í Kópavogi

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
17. janúar 2025 | kl. 06:00

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

Sigurður Arnarson skrifar
15. janúar 2025 | kl. 16:00