Árin mín 20 á Akureyri
Nú í haust eru 20 ára síðan ég flutti til Akureyrar. Ég hef nú búið hér jafnlengi og á Akranesi, mínum uppeldisbæ. Það áhugavert að líta til baka yfir þennan tíma í lok þessa fordæmislausa árs. Þegar ég flutti til Akureyrar var ég gullsmiður með unga fjölskyldu, eitt barn og maka. Það var Háskólinn á Akureyri sem dró okkur norður og maðurinn minn hóf nám þar haustið sem við fluttum norður. Áður en við bjuggum okkur eigið heimili nutum við þess að búa hjá ömmu hans og afa í Ásabyggð 2. Þvílíkur dekurtími þar sem gjarnan var boðið upp á djúpsteikta banana með rjóma sem kvöldsnarl. Það var því ekki atlætið sem rak okkur í að stofna okkar eigið heimili í Vestursíðunni heldur kannski áhyggjurnar af því að við yrðum einhver ár að vinna niður þessar veislur sem amma Alla bauð upp á dag eftir dag, viku eftir viku.
Það voru gríðarleg viðbrigði fyrir gullsmiðinn að flytja úr miðborg Reykjavíkur í síðuhverfið á Akureyri. Stína gull hugsaði afar vel um mig og það var gott að vinna í Hafnarstrætinu. Þó togaði í mig að fara í háskóla sem ég hafði slegið á frest þegar ég hóf gullsmíðanámið að loknu stúdentsprófi og svo hafði félagslíf mitt dregist verulega saman. Ég var jú ekki héðan og þekkti afar fáa í bænum, þó KPG módelsmíði væri afar góðmennur vinnustaður þá var hann fámennur. Mér fannst því bara frábær hugmynd að taka U-beygju hvað starfsferil varðar og skipta um umhverfi. Ég skráði mig í nútímafræði í Háskólanum á Akureyri og hafði engin frekari plön. Svo tók lífið við, eins og svo oft áður. Það besta við námið í HA var auðvitað félagsskapurinn. Þvílíkt samansafn af snillingum sem voru samnemendur mínir og söknuðurinn eftir félagskapnum sem tengdist suðvestur horninu minnkaði verulega. Það var frábært að búa á Akureyri og mér leið eins og ég væri komin inn í hringiðuna sem nemandi í HA. Auðvitað eru margar hringiður á Akureyri og það veit ég núna eftir því sem tengslanetið hefur stækkað og ég hef komið við á fleiri stöðum. Á vegi mínum hafa orðið einstaklingar og alls konar hringiður sem hafa gert líf mitt innihaldsríkt og gott.
Háskólinn á Akureyri hefur skipað stærri sess í lífi mínu áfram en mig hafði órað fyrir þegar ég hóf þar nám en þar starfa ég nú í félagsvísindadeild skólans. Akureyri örlaganna hagaði því svo að nú er gullsmiðurinn lektor í félagsfræði. Það er ótrúlega dýrmætt að búa í samfélagi sem gefur fólki tækifæri til þess að taka U-beygjur og það er auður sem við verðum að vernda. Þegar ég lít um öxl og velti fyrir mér áhrifum Akureyrar og tækifæranna sem hún býður upp á þá er ég óendanlega þakklát, bæði fyrir að við Hallur skyldum stökkva norður og að ég skyldi hafa haft hugrekki til að nýta tækifærin. Við ætluðum bara að stoppa hér í þrjú ár og svo var bara pælingin að fara aftur suður en hér erum við enn og ekkert fararsnið á okkur. Hér er gott að búa, dætur mínar eru Akureyringar, veðrið er hvergi betra og hér er bara allra besta fólk, bæði aðflutt og ekki. Við höfum lokað hringnum og erum aftur flutt í Ásabyggð, dæturnar eru tvær, vinirnir margir og lífið er gott fyrir miðaldra konur á brekkunni, meira að segja á Kovid-ári.
Takk fyrir mig Akureyri!
Andrea Sigrún Hjálmsdóttir er félagsfræðingur (og gullsmiður) og lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.