Fara í efni
Pistlar

Arðsemi gervigrass

Af hverju eru sum verkefni fjármögnuð með almannafé og framkvæmd en önnur ekki?

Akureyrarbær hefur byggst upp jafnt og þétt síðustu áratugi bæði í fjölda íbúa og flækjustigi. Í dag búum við hér við sama flækjustig og risastór samfélög; háskóli, framhaldsskólar, grunnskólar, leikskólar, heilsugæsla, sjúkrahús, sundlaugar, skíðasvæði, matvælaframleiðsla og -vinnsla, alþjóðaflugvöllur og fjöldi hótela og veitingahúsa. Svona til að nefna það helsta. Þessu hefur fylgt krafa um hátt þjónustustig af hálfu sveitarfélagsins. Því hefur verið vel mætt með t.a.m. frábærum rekstri á veituþjónustu (rafmagn, hiti, vatn, fráveita og ljósleiðari), fjölbreyttu skólastarfi á öllum stigum, miklu úrvali af afþreyingu (menningarhús, bókasafn, sundlaugar, skíðasvæði, önnur íþróttamannvirki o.fl. o.fl.). Þessari miklu uppbyggingu hafa fylgt dýrar framkvæmdir; skólar, hitaveitulögn frá Hjalteyri, hreinsistöð fyrir fráveitu, nýjar götur, sorpflokkunarstöðvar, jarðgerðarstöð, gervigrasvellir og mikið af malbiki, bílastæðum og kantsteinum, svo eitthvað sé nefnt.

En hvernig eru þessar ákvarðanir teknar? Af hverju erum við að reka sundlaugar, skíðasvæði og strætó eða byggja nýja hitaveitulögn fyrir rúma tvo milljarða, nýja hreinsistöð fyrir fráveituna fyrir einn milljarð, endurbæta sundlaugina og Listasafnið fyrir hátt í tvo milljarða og laga Lundarskóla og KA-svæðið fyrir vel á þriðja milljarð? Af hverju lögum við kantsteina sem brotna við snjómokstur og holur sem myndast í malbikinu? Er það af því að öllum þessum verkefnum hefur verið stillt upp í Excel og arðsemi þeirra reiknuð í þaula og síðan raðað í framkvæmdaröð eftir arðsemi? Nei, mig grunar að arðsemi þess að slá gras, leggja gervigrasvelli eða steypa kantsteina hafi aldrei verið og verði aldrei reiknuð út. Væri t.d. rétt að sleppa því að slá gras í nokkur ár til að eiga fyrir gervigrasi?

Hvað með aðrar framkvæmdir? Þjóðhagsleg hagkvæmni göngu- og hjólastíga og orkuskipta í samgöngum hefur verið reiknuð út og liggur fyrir. Arðsemi nýtingar á öllum lífrænum úrgangi til aukinnar framleiðslu á moltu, metani og lífdísli hefur líka verið reiknuð út og liggur fyrir sem arðbær fjárfesting. Þessar nauðsynlegu framfaraframkvæmdir hafa samt ekki farið í fullan gang. Því miður virðist vera einhver lás í kerfinu fyrir þessar framkvæmdir sem enginn lykill finnst að. Á meðan rúlla aðrar framkvæmdir áfram, á eins konar sjálfstýringu, sem aldrei hafa verið greindar með tilliti til hagkvæmni eða umhverfisáhrifa. Ég legg hér með til eftirfarandi sem lykil sem gæti passað; setja á 5 ára stopp á allar framkvæmdir sem er ekki hægt að sýna fram á að séu arðbærar fyrir samfélagið og búa þannig til svigrúm fyrir breyttar ferðavenjur og bætta úrgangsmeðhöndlun svo við getum tekið út þjóðhagslegan ávinning þeirra fjárfestinga sem allra fyrst.

Guðmundur Haukur Sigurðarson er tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00