Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 10. október 2022
Fræðsla til forvarna - VII
Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) velur árlega það sem talið er brýnast að fjalla um á þessum degi. Í ár er það vitundarvakning um að setja geðheilbrigði og vellíðan allrar heimsbyggðarinnar í forgang. Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á geðheilbrigði, stríð geysa, fátækt er víða og náttúruhamfarir aukast með hnattrænum vistkerfabreytingum. Allt hefur þetta áhrif á líðan og hamingju okkar. Starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar nefnir ótrúlegan fjölda fólks sem metinn er í þörf fyrir meðferðir sem víða um heim eru alls ekki í boði en talið er að um miljarður manna glími við geðræn vandamál. Þetta á ekki aðeins við fátækustu löndin því jafnvel í löndum sem við berum okkur saman við er ekki alltaf nægileg meðferð í boði og umönnun lendir á fjölskyldu og vinum. Þetta gæti jafnvel átt við um vissar aðstæður hér á Íslandi, t.d. hjá öldruðum geðsjúkum og ungum geðfötluðum einstaklingum.
Því fylgir þessum degi hvatning um fræðslu, aukna umræðu og skoðanaskipti. Einnig er mikilvægt að við hugleiðum öll hvað við getum gert, hvert og eitt eða saman og eftir því í hvaða aðstöðu við erum. Og sem betur fer er margt sem við getum gert til úrbóta. Hér fyrir neðan eru þau helstu atriði sem rannsóknir og reynsla sýna að geta haft veruleg áhrif til að bæta geðheilsu:
Ef þú er stjórnmálamaður eða embættismaður með skipulagsvald hafðu þá í huga að ákvarðanir stjórnvalda hafa meira áhrif á forvarnir og geðheilsu en flesta grunar. Margítrekaðar rannsóknir á lýðheilsu benda skýrt á mikilvægi eftirfarandi aðgerða og hvernig þær hafa umtalsverð áhrif á geðheilsu:
- Að draga úr aðgengi að áfengi og eiturlyfjum
- Að vernda heilsu viðkvæmra hópa eins og barna, aldraðra, öryrkja, flóttafólks og annarra jaðarhópa.
- Að styrkja hag fjölskyldunnar, sérstaklega stöðu ungu barnafjölskyldunnar.
- Aðgerðir sem draga úr fátækt, vanrækslu og ofbeldi.
- Að stuðla að jöfnum tækifærum til menntunar og eflingu lista.
- Styrking á innviðum samfélagsins og auðvelt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.
Þú sem ert stjórnandi, eigandi, eða mannauðsstjóri fyrirtækis getur gert margt til forvarna og til að bæta stöðuna hjá þeim sem þjást af vanlíðan eða eru sjúkir. Sameiginlegar aðgerðir sem bæta samskipti, líðan og aðstæður á vinnustað skipta máli. Fræðsla er fyrsta stig forvarna. Þekking á eðli streitu og áhrifa hennar á líðan og heilsu er mikilvæg og vit til að leita sér aðstoðar ef þörf krefur. Stuðningur, tillitssemi og skilningur við endurkomu til starfa eftir veikindi eða endurhæfingu er ómetanlegur.
Nýsköpun, góð sálfélagsleg vinnuvernd, skýr stefna í mannauðsmálum ásamt heilsueflandi stjórnunarháttum eru lykilorð yfir þætti sem gefa góða raun.
Starfir þú við fjölmiðil ert þú með mikið vald til þess að hafa góð áhrif á geðheilsu. Þetta geta fjölmiðlar gert:
- Vakið athygli á þeirri þekkingu sem til staðar er.
- Veitt upplýsingar um hvar úrræði er að finna.
- Dregið úr fordómum og misskilningi með fræðslu og opinni umfjöllun.
- Komið reynslusögum á framfæri.
- Kynnt þá sem búa yfir þekkingu eða stöðu til að hafa raunveruleg áhrif á gang mála.
- Forðast neikvæðni og illa ígrundaða gagnrýni.
- Vakið athygli á þörfum þeirra hópa sem eru í mestri þörf fyrir varnir og eflingu.
Ef þú starfar í geðheilbrigðiskerfinu vona ég að þú skynjir þakklæti og aðdáun þeirra sem fylgjast með mikilvægum störfum þínum. Leitaðu eftir hvatningu og styrk til að viðhalda starfsþreki þínu og hugsjón því störf þín hafa mikla þýðingu fyrir okkur öll.
Það sem við getum öll gert er að opna umræðu um geðheilsu og geðsjúkdóma og bæta með því heilsulæsi.
Við getum líka rétt öðrum hjálparhönd og reynt að láta gott af okkur leiða.
Það sem þú getur gert fyrir eigin geðheilsu:
- Vertu varkár með áfengi og ekki nota fíkniefni.
- Forðastu einangrun og nýttu þér úrræði tækninnar til þess að vera í samskiptum. Ræddu málin við aðra.
- Hreyfðu þig reglulega.
- Gættu að mataræði og taktu lýsi.
- Og ekki gleyma andlegri næringu.
- Hafðu eins góða reglu á svefni og þú getur.
- Lærðu að setja skýrari mörk í samskiptum.
- Tileinkaðu þér eins og þú getur aðferðir til að finna þinn innri styrk og leiðir sem auka tilfinningalegt jafnvægi og jákvæðni.
- Lærðu að greina streituvalda, tileinkaðu þér nýjar streituvarnir og finndu leiðir til að auka þol þitt við álagi.
- Sestu niður vikulega til að forgangsraða í hvað þú notar orku þína og tíma.
- Hvíldu þig og liggðu í leti meira en vanalega ef álag er mikið.
Þetta eru áhrifamiklir verndandi þættir og ef þér tekst að framkvæma þó ekki væri nema brot af þeim þá munu þeir hafa miklu meiri áhrif en þig grunar.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir