Fara í efni
Pistlar

Akureyri 2040

Þetta hljómar eins og sé „in a galaxy far, far away“ en er í raun jafn langt í burtu og árið 2002. Það ár sáust fyrstu evrurnar á pappír, ráðherra skipaði starfshóp um innleiðingu stafræns sjónvarps á Íslandi, íslenska ríkið seldi hlut sinn í Landsbankanum og Dagný Linda og Kiddi Magg kepptu á Ólympíuleikunum í Salt Lake City.

Í maí 2003 var tekin fyrsta skóflustungan í Naustahverfi. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og aftur í uppistöðulónin.

Aftur til framtíðar. Árið 2039 verðum við heimsmeistarar í fótbolta. Hver veit? Árið eftir ætlar Ísland að vera orðið kolefnishlutlaust og þá verða liðin 10 ár frá því síðasti jarðefnaeldsneytisbíllinn var fluttur inn og Parísarmarkmiðunum var náð. Fyrsta Borgarlínan verður 15 ára og líklega verða allir bílaframleiðendur hættir að framleiða fólksbíla með sprengihreyfli. Tesla og fleiri bílar geta nú þegar, árið 2021, keyrt sjálfir, þannig að væntanlega verða bílpróf óþörf. Amazon hefur þegar opnað fyrstu matvöruverslanirnar án afgreiðslufólks og í Noregi er gert ráð fyrir að allt innanlandsflug verði á rafmagni árið 2040.

Hvað með Akureyri? Hvernig verður umhorfs hér, hvað sér fólk fyrir sér eftir 19 ár?

Miðað við sömu þróun og undanfarin ár verða hér um 24.000 íbúar og 17.400 fólksbílar. Ef svo fer verðum við bær far, far away.

Í dag eru 60% af almenningssamgöngum á Akureyri á metani og 50% af bílaflota Norðurorku ganga annað hvort á metani eða rafmagni. Þetta hefur gerst á síðustu 5 árum. Við getum því með vissu sagt að hvorutveggja verður komið í 100% eftir 19 ár.

Hvað fleira? Nú í sumar hefur fyrsta hlaupahjólaleigan starfsemi sína og vonandi sjáum við fyrstu deilibílana í boði. Þannig að nú þegar er allt að gerast!

Hér er mín ágiskun fyrir 2040. Allt skutl mun heyra sögunni til. Það þarf enginn í bankann, pósthúsið, búðina eða Byko. Nagli hefur ekki sést í dekki í 12 ár. Það þurfa mjög fáir út úr húsi í vondu veðri. Öll orka í Grímsey verður framleidd með vindi, sól eða innlendu eldsneyti. Ferjurnar í Hrísey og Grímsey verða á innlendri orku. Allur lífrænn úrgangur fer í tilheyrandi meðhöndlun og fær nýtt hlutverk sem eldsneyti eða áburður. Allt plast fer til endurvinnslu eða orkunýtingar innanlands, skógræktarsvæðið í kringum Akureyri verður fullplantað og búið verður að leggja alla göngu- og hjólastíga samkvæmt núgildandi stígaskipulagi. Og rétt eins og enginn man eftir Akureyringunum á Ólympíuleikum fyrir 19 árum mun ekkert okkar eftir 19 ár til viðbótar muna almennilega eftir Bíladögum, bensíndælum eða hvenær við sáum síðast pizzu-sendil.

Guðmundur Haukur Sigurðarson er tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00