Að trúa þolendum
Við eigum að trúa þolendum kynferðisofbeldis og kynferðislegrar áreitni. Það þýðir að við eigum ekki að vefengja frásagnir þeirra, túlka upplifun þeirra upp á nýtt, eða gera lítið úr sársauka þeirra eða skaða. Þegar slíkar úrtölur heyrast eigum við að taka upp hanskann fyrir þolendur. Það er erfitt fyrir þá að stíga fram og segja frá reynslu sinni og líkurnar á því að slíkar frásagnir séu upplognar eru nánast engar. Þegar þolendum er trúað fá fleiri styrk til að segja frá og skila skömminni. Smám saman breytast menningarbundin viðmið vonandi til batnaðar og færri þurfa að þola ofbeldi, áreitni og niðurlægingu sem hingað til hafa þrifist í skjóli þagnar.
Út á þetta gengur #metoo hreyfingin. Hún hófst 2017 þegar þolendur komu fram undir nafni og sögðu frá því sem þær höfðu mátt þola í samskiptum sínum við kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein. Fleiri gerendur voru afhjúpaðir í framhaldinu. Hér á Íslandi var safnað frásögnum kvenna úr ýmsum geirum samfélagsins, þar sem hvorki gerendur né þolendur voru nafngreindir. Í fáeinum tilvikum voru gerendur síðar nafngreindir og kærðir. Síðan birtust frásagnir af hegðun nafngreindra fjölmiðla- og tónlistarmanna, sem í kjölfarið voru sniðgengnir af almenningi, viðburðahöldurum og efnisveitum.
Í lok sumars var tilkynnt um val á landsliði karla í knattspyrnu. Þá kom í ljós að í þeim ranni voru líka til frásagnir þolenda. Formaður KSÍ varð tvísaga um hvort sambandinu hefðu borist kvartanir og í kjölfarið létu bæði hann og stjórnin undan þrýstingi til að segja af sér. Þetta er til marks um styrk kröfunnar um að þolendum sé trúað, málum ekki stungið undir stól eða þau þögguð niður. #Metoo hreyfingin er orðin samfélagslegt afl með mikinn skriðþunga. Því ber að fagna.
En vandi fylgir vegsemd hverri. Við sem fylgjumst með í gegnum fjölmiðla berum ábyrgð á því hvernig við myndum okkur skoðanir á sekt eða sakleysi einstaklinga. Þegar mál KSÍ komust í hámæli voru gerð hróp á götum úti að landsliðsmönnum og þeir kallaðir nauðgarar. Tilefnið voru sögusagnir um að gerendur í frásögn þolanda af hrottalegri hópnauðgun frá því 11 árum áður hafi verið þáverandi landsliðsmenn Íslands í fótbolta. Margir núverandi landsliðsmenn voru ófermdir þegar glæpurinn átti sér stað. Engu að síður voru þeir nú umsvifalaust sakfelldir af sannkölluðum dómstóli götunnar.
Nú hefur landsliðsfyrirliðinn stigið fram og krafist þess að fá að verja sig gegn þeim orðrómi að hann hafi verið annar nauðgaranna tveggja. Yfirlýsingin kom í kjölfar þess að hann var ekki valinn í liðið vegna „utanaðkomandi ástæðna“ að sögn þjálfarans. Það sem fyrir liggur í fjölmiðlum þegar þessi pistill er skrifaður er frásögn konu, undir nafni, um að hafa verið fórnarlamb hópnauðgunar. Gerendur voru ekki nafngreindir í frásögninni en fram kemur að þrýst hafi verið á hana að kæra ekki því um hafi verið að ræða þekkta einstaklinga. Einnig liggur fyrir yfirlýsing fyrirliðans um að hafa verið bendlaður við glæpinn í sögusögnum án þess að hafa verið kærður eða yfirheyrður. Hann lýsir afdráttarlaust yfir sakleysi sínu. Ég trúi frásögn þolandans en í henni kemur ekki fram hverjir gerendurnir eru. Nú hefur verið greint frá því í fjölmiðlum að fyrirliðinn sæti lögreglurannsókn vegna málsins. Vonandi leiðir sú rannsókn sannleikann í ljós. Þangað til er óvarlegt að mynda sér skoðun á sekt hans eða sakleysi.
Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.