Fara í efni
Pistlar

Á flótta vegna snitsels

Það er fyrst núna, þegar ég er kominn úr seilingarfjarlægð frá hinum langa armi austurrísku leyniþjónustunnar (DSN), að ég treysti mér til að varpa ljósi á þá röð atvika sem leiddi til æsilegs flótta míns út af því merka safni/veitingstað, Falco's restaurant í Vín.

Undangenginn sólarhring höfðum við félagar þrætt götur borgarinnar í leit að hinu fullkomna Vínarsnitzeli (das original Wiener Schnitzel) undir leiðsögn tengdaföður míns og sporðrennt einhverjum ósköpum af bragðprufum af þessari goðsagnakenndu fæðu.

Á öðrum degi reis ég mettur upp frá dauðum og krafðist stefnubreytingar á okkar högum, enda dveldum við í hjarta heimsborgar þar sem menning og saga drýpur af hverju þakskyggni glæstra bygginga. Því varð það úr að ég tók fararstjórnina í mínar hendur og á methraða strunsuðum við fram hjá öllum helstu byggingum Vínarborgar (kirkjunum, ráðhúsinu, þinginu, söfnunum öllum og Vínaróperunni) án þess þó varla að líta til hægri né vinstri og lóðbeint inn á Falco's restaurant – sem starfræktur er til heiðurs keisara austurrískrar 80's tónlistar, herr Falco.

Þvílík var dýrðin að þarna hefðum við getað dvalið ferðina á enda. Gullplötur og myndir af kappanum uppi um alla veggi, innrömmuð gömul klæði og bassinn hans svo eitthvað sé nefnt. Og að sjálfsögðu engin tónlist spiluð nema hans eigin enda af nógu að taka. Annarri eins menningarupplifun hef ég ekki orðið fyrir síðan ég heimsótti Roxette safnið í Halmstad árið 2002.

Við tylltu okkur niður, enda tengdapabbi orðinn all fótalúinn eftir langan og erfiðan sprett að safninu. Ég pantaði okkur drykki og hófst sjálfur handa við að sötra ófiltreraðan bjór af mikilli áfergju. En þá gerðist það! Ölið kom hreyfingu á öll snitzelflökin sem ég hafði sporðrennt svo til í heilu lagi sólarhringinn áður, svo nú varð að bregðast skjótt við. Ég stökk á fætur og eins og stígvélaði kötturinn skaust ég niður í kjallara á salernið. Það var einnig ríkulega skreytt gullplötum og tónlist meistarans ómaði jafnvel enn hærra en á efri hæðinni, sem skapaði dulúðlegt en jafnframt nokkuð súrrealískt andrúmsloft í rýminu.

Við svo búið, í sem fæstum orðum við undirspil af endurhljómblandaðri útgáfu af Rock me Amadeus, snarstíflaði ég klósettið. Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að fara upp og gera grein fyrir gjörðum mínum á þýsku með aðstoð google translate:

„Tut mir leid, aber weil ich in den letzten 24 Stunden zu viele Schnitzel gegessen habe, habe ich deine Toilette verstopft“ – eða fara auðveldu leiðina og leggja bara á flótta?

Ég valdi auðveldu leiðina. Ég reif niður af veggnum innrammaða gullplötu af 7 tommunni Auf der flucht, lagði varlega yfir klósettið öðrum til aðvörunnar og skaust aftur upp eins og stígvélaði kötturinn (en nú með sinnep í rassinum). Hrópaði að föruneyti mínu, kommen sie, schnell! og sömu leiðina sprettuðum við til baka enn hraðar.

Ég mun aldrei aftur borða snitzel. Aldrei aftur hlusta á Rock me Amadeus. Ég mun eyða því sem eftir er ævi minnar á flótta.

Gauti Einarsson er apótekari

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30