Fara í efni
Umræðan

Viljum við varðveita sögu og minjar?

Á Akureyri er margt minja, gömul hús, heildstæð gömul hverfi, Innbær og Oddeyri eru gimsteinar sem sem betur fer hafa ekki verið eyðilögð. Innbærinn er kraftaverk að hafi varðveist og sama má segja um Oddeyrina þó þar sé þörf á að taka til höndum. Eins og við vitum hefur Selfoss byggt sér nýjan miðbæ í gömlum stíl. Á Akureyri erum við það heppin að ekki þarf að reisa gamla - nýja bæjarhluta og ef við berum gæfu til að átta okkur á hversu dýrmætt það er þá væri vel. Þar vantar nokkuð á en með sameinlegri baráttu er von til að bæjaryfirvöld - bæjarfulltrúar átti sig á því.

Atvinnusaga Akureyrar er sérstakur kafli í sögu bæjarins. Því miður hefur skort nokkuð á áhuga bæjarins að hlú að henni. Iðnaðarsafnið var kraftaverk, leitt af einum manni. Það er óhugsanlegt að sjá fyrir sér að allt það sem þar er hefði ekki verðveist. Blikur voru á lofti með að þar gæti illa farið en sem betur fer virðist sú umræða og áform komin í góðan farveg.

Risastór þáttur í sögunni voru verksmiðjurnar á Gleráreyrum. Saga þeirra endaði fyrir nokkru og hætt er við að þáttur þeirra hverfi utan þess sem Iðnaðarsafnið og Jón Arnþórsson björguðu fyrir Akureyrarbæ á sínum tíma.

Unnið var að deiliskipulagi fyrir 15 árum og í drögum að greinargerð þá var þetta skrifað.

1.5 Minjar og friðun
Fornleifaskráning var gerð á skipulagssvæðinu árið 1994 og voru í þeirri skráningu engar fornminjar skráðar.

Skv. 9. gr. Þjóðminjalaga nr. 107/2001 teljast minjar eldri en 100 ára til fornleifa. Eftir að fornleifaskráning fór fram árið 1994 hafa minjar á svæðinu rofið 100 ára múrinn og teljast því til fornminja.

Um er að ræða Gefjunarstíflu og vatnsstokk frá henni, rétt neðan Bandagerðisbrúar.

Gefjunarstífla var upphaflega reist árið 1897 og veitti vatni að Tóvélum Eyjafjarðar, sem síðar varð ullarverksmiðjan Gefjun í eigu Sambands Íslenskra Samvinnufélaga, fram yfir árið 1950. Vatnsstokkurinn frá stíflunni var um 500 metra langur og sér í dag móta fyrir honum á 200-250 m kafla milli Gefjunarstíflu og Borgarbrautar.

Þessi mannvirki voru lengi sýnileg og Glerárstífla var nokkuð heilleg lengi vel en seinni árin hefur hún látið mjög á sjá og nú er svo komið að hún mun hverfa á næstu árum. Stíflan og lónið settu mikinn svip á umverfið.

Fyrir rúmum áratug reyndi Iðnaðarsafnið að fá Akureyrarbæ til taka þátt í varðveislu og endurreisn þessara merku minja í atvinnusögu Akureyrar og málin virtust vera í góðum farvegi. En svo kipptu bæjaryfirvöld að sér höndum og síðan þá hefur þessum merku minjum hrakað hratt og munu hverfa á næstu fáeinum árum. Tómlæti og áhugaleysi bæjarins ber vott um sorglegt áhugleysi hjá Akureyrarbæ og bæjarfulltrúum þegar kemur að varðveislu sögu og minja.

Úr greinargerð frá 2009
2.1.1 Stífla og vatnsstokkur

Gefjunarstífla og vatnsstokkur frá henni eru staðsett rétt neðan Bandagerðisbrúar og teljast til fornminja eins og getið er um í kafla 1.5.

Hollvinafélag Iðnaðarsafnsins hefur fengið styrki til að gera upp Gefjunarstíflu og hluta af áveitustokknum sem veitti vatni til verksmiðjanna á Gleráreyrum frá árinu 1897 og fram yfir árið 1950.

Verkefnið er samstarfsverkefni Hollvinafélags Iðnaðarsafnsins, Iðnaðarsafnsins og Fornleifastofu Íslands.

Þessar minjar hafa einstakt menningarsögulegt gildi, bæði fyrir iðnaðarbæinn Akureyri sem og fyrir sögu vatnsaflsnýtingar, orkumála og iðnaðar í heild.

Forsíða Dags þriðjudaginn 6. júní 1967. Um helgina héldu skátar á Akureyri mikla hátíð á bökkum Glerár til að minnast hálfrar aldar afmælis  skátastarfs á Akureyri.

Gefjunarstíflan árið 2009.

Nú er staðan þannig að ef Akureyrarbær hefur hinn minnsta áhuga á að bregðast við í stöðunni þá þarf það að gerast núna. Tómlæti er ekki í boði og það er ábyrgðarhluti að klúðra út úr höndunum á sér að tapa verðmætum sem snúa að sögu bæjarins.

Það er því áskorun á bæjarfulltrúa að sjá til þess að hafist verði handa frá því sem málið lognaðist út af 2009. Væri fróðlegt fyrir bæjarfulltrúa að kynna sér málin og jafnvel gera sér ferð að Glerárstíflu þegar tími vinnst til.

Nú er kominn tími á ræs, ágætu bæjarfulltrúar.

Jón Ingi Cæsarsson er áhugamaður um sögu og minjar.

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50

Eflum löggæslu

Grímur Grímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 17:30

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30