Fara í efni
Pistlar

Viljum bara vellauðuga túrista

Tólfti pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Ertu ekki að grínast í mér hvað er verið að byggja mikið af lúxushótelum, heitum böðum og upplifun til handa vellauðugum amerískum túristum? Út um allar koppagrundir spretta upp fimm stjörnu fáránleikar með alls konar prjáli, þyrluferðum, nuddi og böðum og ungmeyjum í röðum; allt til að trekkja að lífsleiða Kana sem hvorki vita aura sinna tal né hvað þeir eiga að gera við formúuna. Við þetta bætast svo vegaræningjar hringinn í kringum landið sem troða rándýrum hamborgara í trantinn á túristum eða lunda upp í rassgatið!“

Jamm, Aðalsteinn vinur minn Öfgar var í stuði. Hann hefur aldrei verið hrifinn af Bandaríkjamönnum, allavega dæmir hann þá út frá ákveðinni ímynd um ríkidæmi, einstaklingshyggju og almenna heimsku. Lái honum hver sem vill. Honum finnst líka ferðaþjónusta á Íslandi einkennast af græðgi, óskammfeilni og einstaklingshyggju þar sem hver reynir að skara eld að eigin köku með öllum mögulegum aðferðum.

„Hvað gerist svo ef Kanarnir fatta að það er hægt að fá jafnvel miklu meira og ódýrara náttúrukröss í Noregi, á Nýja-Sjálandi, Asóreyjum eða heima á Hawai? Þeir eru reyndar byrjaðir að átta sig á þessu, Evrópubúar líka. Náttúru- og svölunarferðir til Noregs eru orðnar miklu vinsælli en ferðir til „the land of ice and snow“. Og ferðamenn eru jafnvel farnir að flykkjast til Finnlands í norðurljósin í stað þess að koma hingað. Svei mér þá, hvort eru það ferðamennirnir eða íslenska ferðaþjónustan sem eru að klikka?“

Ljótt ef satt er. Og þó. Fólki er frjálst að ferðast eftir eigin geðþótta. Við hjónin höfum ferðast víða en alltaf finnst okkur stórkostlegt að ferðast um Ísland og þá helst þegar ekki er allt löðrandi í túristum. Landið okkar kemur sífellt á óvart og það má alveg ferðast með nesti í kæliboxi og kaffi í hitabrúsa. Það er bara yndislegt að æja á fallegum stöðum, fjarri bensínsjoppum. Samt viljum við líka skilja eitthvað eftir á hverjum stað og förum út að borða eða kaupum handverk eftir behag á smærri stöðum. (Þið fyrirgefið dönskusletturnar. Við Aðalsteinn erum báðir af þeirri kynslóð sem lærðu dönsku sem fyrsta erlenda mál og ólumst upp við að lesa Anders And á dönsku).

„Er þetta þá ekki enn eitt dæmið um síldarvinnsluna, loðdýraræktina, fiskeldið, nikótínsöluna og íbúðaútleiguna sem átti að gera okkur svo forríka að flæddi út úr öllum vösum? Svo ég tali ekki um fjármálasnillingana fyrir hrun. Einhvers konar íslensk snilld þar sem öll mörk voru máð út. Svo eru frjálshyggjupostularnir enn að sífra um þetta fjárans frelsi einstaklingsins til að níðast á öðrum, setja hlutafélög á hausinn, skipta um kennitölu og skilja eftir rjúkandi rústir og fjölskylduharmleiki, aðeins til þess að græða meira sjálfir,“ hreytti Aðalsteinn út úr sér og skók tóma brennivínsflösku.

Nú skal ég ekki segja. Við hjónin vorum heilluð af Asóreyjum og ávallt gott að koma til Noregs, sérstaklega þegar maður á einhverja að. En málið er, ég held að Íslendingar séu aðeins að misskilja hlutverk sitt sem eitthvert einstakt undur sem má verðleggja eftir þörfum því allir séu svo æstir í að sjá og upplifa þetta litla og krúttlega álfaland þar sem Sigur rós, Björk og Of Monsters and Men raula í hverri gjótu og Kaleo kyrjar á einhverju skeri. Samt… flottir fulltrúar lands og þjóðar.

„Alli minn, ég skil alveg hvað þú átt við. Sjálfur hef ég býsna oft tekið þátt í svona mínítúrisma, pikkað upp puttalinga, tekið upp fólk í gegnum samferða.is og boðið upp á fróðleik um land og þjóð, Íslendingasögurnar og fleira. Ekki til að græða, heldur er þetta skemmtilegur félagsskapur. Mér finnst alltaf gaman þegar ferðamenn rekur í rogastans yfir Agli Skallagrímssyni og þversögnunum í lífi hans, sem ég útskýri þegar við nálgumst Borgarnes. Ég hef líka tekið smá króka á þjóðveginum, til dæmis skroppið í Kolugljúfur og þakklæti túristanna er miklu meira virði en krónur og aurar.“

„Jamm, þetta skiptir nú harla litlu máli í stóra samhenginu,“ dæsti Aðalsteinn. „Ef við lítum á fjárfestinguna þá eru allir á höttunum eftir ríkum Ameríkönum. Vonandi skila þeir sér hingað en hvað ef það klikkar? Hvert er plan B? Eða látum við bara sem ekkert C?“

Nú eru hundadagar að enda (13. júlí – 23. ágúst) og planið var að gelta hátt tvisvar í viku meðan þeir vörðu. Nú býst ég við að lengra verði á milli pistla. Tveir í hverri viku er býsna hraustlega snýtt. Kannski stefni ég á tvo pistla í hverjum mánuði frekar. Allavega hef ég frá fyrstu hendi að Aðalsteinn Öfgar ætlar á Vog í 10 daga (gott hjá honum) og hugsanlega á Vík eftir það en sjálfur er ég að byrja í kennslu af fullum krafti þessa dagana.

Já, tvisvar í viku er ansi ótt og títt en tvisvar í mánuði ætti að vera viðráðanlegt, sérstaklega þegar Alli kemur aftur, sprækur sem lækur. Ég þarf auðvitað að einbeita mér að nemendum og kennslu í MA. Ég læt frá mér heyra og Aðalsteinn Öfgar mun koma sterkur inn; ég þekki hann það vel. Vegni honum vel í meðferð.

Við megum aldrei gefast upp. Lifið heil.

Stefán Þór Sæmundsson hefur marga fjöruna sopið en starfar sem skáld og kennari.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00