Fara í efni
Umræðan

Varðandi virðingu

Þegar ég var að alast upp þá lærði ég að lesa heima hjá mér, var læs þegar ég byrjaði 5 ára í skóla. Ég var alin upp í sveit og var kennt að vinna og bera ábyrgð. Það var mikil þekking á heimavelli og henni var gefin tími. Skólinn var fræðslustofnun þar sem börn náðu í viðbótar þekkingu og tækifærin til að komast áfram í samfélaginu. Talað var um skóla og kennara af mikilli virðingu og aldrei í boði að sýna annað. Samfélagið stóð saman um uppeldi. Auðvitað var ýmislegt sem hefði mátt betur fara en það var aldrei neitt annað í boði en að maður lærði aga og seiglu og það hafa reynst góðir lífsförunautar.

Margt í skólastarfi fer betur í dag og skólafólk duglegt að mæta gríðarlega miklum breytingum, bæði á samfélaginu og vaxandi tækni. En einhvers staðar á leiðinni er eins og virðingin hafi tapast. Það er óneitanlega hluti af virðingu að fólk fái þannig greitt fyrir störf sín að það komist þokkalega af. Mögulega breyttist það þegar í það stefndi að kennarastéttin yrði kvennastétt. Á þessum tíma frá því að ég var að alast upp þá hefur verið unnið gríðarlegt starf til jöfnunar réttinda og þar hafa konur sjálfar staðið í stafni. En ef það er staðreynd að kennarastarfið hafi tapað virðingu og að ekki megi greiða mannsæmandi laun þá er ljóst að við eigum enn langt í land varðandi jafnrétti!
 
Þannig er að ég hef unnið við skólastarf í 36 ár og jafnan í fullu starfi eða meira, ég þekki það að kenna 40 stundir á viku. Síðastliðið sumar ákvað ég að freista þess að koma mér af leigumarkaði og kaupa mér húsnæði til að treysta undirstöðurnar í lífinu. Ég er kona og ég er ein. Mér er alveg ljóst að það verður mér þrautaganga að eignast enda komin á sjötugsaldur. Ég er ein af þeim sem missti allt í efnahagshruninu! Full kennsla í grunnskóla mun ekki nægja og þess vegna hef ég orðið mér út um aukavinnu, við kennslu, því það er það sem ég þekki best. Tvisvar í viku hitti ég hóp af fullorðnu fólki af erlendu bergi brotið og kenni því íslensku. Ég nýt þessarra stunda mjög vegna þess að þarna er fólk komið saman til að læra tungumál landsins sem það langar að freista gæfunnar í.
 
Það sem hefur vakið sérstaka athygli mína er sú virðing sem fólkið sýnir mér. Ég kenni og fólkið meðtekur. Ég hvet það áfram og það sýnir mikinn metnað þótt áskorunin sé stór enda er íslenskan ekki auðveldasta tungumálið að læra og málkerfi skarast sannarlega. Ég reyni ýmsar leiðir til að fá fólkið til að tala, bæði í gegnum fræði og leik. Oft er það þannig að við höfum býsna gaman og stemningin er frábær. Einstaklingar frá 13 löndum mynda vináttubönd og skemmta sér við þekkingaröflun. Ég finn það núna að þegar námskeiðið rennur sitt skeið mun ég sakna fólksins sem þó er þegar farið að leggja drög að leiðum fyrir okkur til að halda áfram að hittast og rækta vináttubönd. Síðast þegar við lukum kennslustund þá horfir ungur maður frá Miðausturlöndum á mig og segir: „Veistu það að í mínu heimalandi þá eru frábærir kennarar kallaðir englar frá Guði, vegna þess að þeir halda samfélaginu saman, og þú ert svona engill.“ Svo brosti hann af hjartans einlægni. Allt í einu rann upp fyrir mér að sem kennari á Íslandi kannast ég betur við kröfur en hrós. Ég veit að ég laða að mér börn og þau liggja ekki á einlægni sinni. En þarna leið mér pínu óþægilega vegna þess að fólkið safnaðist saman í hóp og fleiri tóku undir og ung stúlka frá Indlandi sagði að heima hjá henni væri litið á kennara sem auka foreldra og virðingin væri algjör. Þarna stóð ég og vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga vegna þess að í miðri kjarabaráttu íslenskra kennara eru þeir fyrst og fremst að biðja um að þeim og störfum þeirra sé sýnd virðing. Ég þurfti sem sagt að heyra það frá fólki af erlendum uppruna að annarsstaðar í heiminum er kennarastarfið virðingarstaða.
 
Þarna á þessu augnabliki óx ég sem manneskja og fylltist ríku þakklæti fyrir ævistarfið mitt.
 
Áfram kennarar!
 
Hlín Bolladóttir er grunnskólakennari til áratuga, nú í Stapaskóla í Reykjanesbæ

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00