Töfrar tónlistar

Ég hef verið átján eða nítján ára gamall nemandi í MA og Tónlistarskólanum á Akureyri þegar mér var trúað fyrir fáeinum nemendum í tónlistarskólanum. Þarna hófst kennsluferillinn minn sem píanókennari. Eftir stúdentspróf af tónlistarbraut lauk ég kennaraprófi og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði eftir það framhaldsnám í 5-6 ár í Þýskalandi. Þegar þarna er komið við sögu hafði ég stundað píanónám í sennilega um tuttugu ár – sem er reyndar ein megin forsenda þess að geta starfað sem píanókennari.
Til að gera langa sögu stutta þá fluttist ég aftur heim til Akureyrar árið 2001 eftir á annan áratug erlendis við píanóleik og -kennslu. Það var gott að koma heim, eftir langa dvöl erlendis því að „í útlöndum er ekkert skjól, - eilífur stormbeljandi“ eins og skáldið sagði. Skjólið heima breyttist þó fljótt og það dró ský fyrir sólu og bætti í vindinn og ári síðar stóðu tónlistarkennarar frammi fyrir verkfalli eftir lítt uppbyggileg samskipti við samninganefnd sveitarfélaganna. Heimkoman fékk því dálítið harða lendingu. Þarna áttaði ég mig á þeirri nöturlegu staðreynd að sveitarfélögin í landinu virtust hafa það sem sitt meginmarkmið, varðandi kjör kennara, að halda þeim langt undir meðallaunum í landinu. Eftir því sem árin liðu varð þessi ásetningur sveitarfélaganna ítrekað staðfestur í samskiptum við samninganefnd þeirra.
Á þessum 24 árum sem ég hef starfað sem tónlistarkennari á Akureyri (og á tímabili í Eyjafjarðarsveit) hefur komið til þriggja verkfalla, að meðtöldu því verkfalli sem nú stendur yfir. Á um það bil tíu ára fresti hafa tónlistarkennarar því farið í verkfall. Þess á milli hafa kjarasamningar nær aldrei verið gerðir án aðkomu ríkissáttasemjara þar sem tónlistarkennarar hafa ekki verið tilbúnir til að taka þegjandi og hljóðalaust við þeim brauðmolum sem að þeim hefur verið rétt. Meðvitund um töfra tónlistar og mikilvægi kennslustarfsins fyrir einstaklinga og samfélagið nær inn að merg og beini tónlistarkennara. Af þeim sökum er okkur í blóð borið - bæði ljúft og skylt - að halda ótrauð áfram okkar baráttu fyrir því að kjör kennara endurspegli mikilvægi starfsins!
Árangurinn er sá að svo virðist sem þetta furðulega baráttumál sveitarfélaganna, sem birtist í því að halda skuli launum kennara niðri með öllum ráðum, hafi fest sig svo í sessi að undirritað loforð yfirvalda frá 2016 um jöfnun launa kennara við sambærilega sérfræðinga á almennum markaði, dugar ekki einu sinni til að snúa skipinu.
Nú er það þannig að þrátt fyrir að staðreyndirnar tali sínu máli í samskiptum kennara og saminganefndar sveitarfélaga fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga (sem sveitarfélögin í landinu standa öll að), þá vil ég ekki trúa því að það sé í raun og veru þannig að áðurnefnt metnaðarleysi varðandi kjör kennara, sé ígrunduð ákvörðun eða stefna þeirra. Það hlýtur miklu frekar að vera þannig, og ég verð að trúa því að sveitarfélög hafi það að leiðarljósi, að starfsmenn þeirra hafi það sem best hvað varðar starfsaðstæður og -kjör, þar með laun og að samkomulög séu virt. Því getur verið erfitt að skilja þessa endalausu togstreytu milli aðila við samningaborðið.
Væri ekki nær að sveitarfélögin stæðu með sínu fólki – kennurum í þessu tilfelli – og færu sameinuð fram með þá sjálfsögðu kröfu að staðið verði við samkomulagið frá 2016 sem bæði ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu? Ef marka má það sem fram kemur í fjölmiðlum heyri ég ekki betur en að ríkisvaldið hafa á þessu nokkurn skilning.
En í stað þess að standa með sínu fólki er átökum og stríði viðhaldið öllum til ama, og mörgum hreinlega skaðlegt. Sú staðreynd að kennarar þurfi að grípa til þess örþirfaráðs sem verkföll eru til þess að knýja fram umsamda leiðréttingu fær mig til að efast um raunverulegt erindi sveitarfélaganna við kennara. Er það mögulega þannig í raun og veru, þrátt fyrir allt, þegar öllu er á botninn hvolft, að meginmarkmiðið sé að halda kennurum undir meðallaunum í landinu og langt undir launum annarra sérfræðinga á almennum markaði? Er það svo í huga sveitarstjórnarmanna, að virði kennarastarfsins sé ekki meira en þetta þegar upp er staðið?
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og formaður samninganefndar sveitarfélaga hafa báðar komið fram í fjölmiðlum og lýst því yfir að þær vilji „allt fyrir kennara gera“. Hvort vegur þá þyngra, það sem sagt er eða það sem gert er – eða látið ógert?
Einhvern tíman var því fleygt að kennarar væru að fara fram á milljón á mánuði!, og þótti mörgum sú krafa allsvakaleg. Hver og einn getur velt því fyrir sér hvílík ofrausn það væri nú – miðað við laun sérfræðinga almennt og virði þess að kenna börnum – og svona í samhengi hlutanna almennt. Hvernig meta menn virði einhvers yfir höfuð ef kennarastarfið er ekki meira virði en þetta?
Í fjölmiðlum má lesa að loforð séu nú gefin en lítið gert sem hönd er á festandi til að sýna fram á að þau verði í raun einhvern tíman uppfyllt. Það er ekki sannfærandi. Sporin hræða. Samskiptin við yfirvöld hafa ekki verið þannig undanfarna áratugi að þau séu til þess fallin að byggja upp traust kennara. Enda blasir staða málsins nú við alþjóð.
Kennarar eru ekki að biðja um neitt annað en einmitt það, að orð skulu standa og samkomulag frá 2016 virt.
Ég hvet Akureyrarbæ, önnur sveitarfélag og ríkið, til að ganga í takt með kennurum og knýja á um löngu tímabæra og eðlilega leiðréttingu á launum kennara með því að efna gefin loforð. Þannig komast bæði nemendur og kennarar fljótt aftur til sinna starfa.
Þórarinn Stefánsson er píanókennari


Yfirgripsmikið þekkingarleysi

Ferðasjóður ÍSÍ hefur rýrnað frá árinu 2019

Ósanngjörn byrði á landsbyggðarfólk

Takk Þór! Áfram fótboltaforeldrar
