Þúsund manna árshátíð Samherja í Póllandi

Starfsmenn Samherja og makar þeirra, alls um 1000 manns, fljúga til Póllands í vikunni en árshátíð fyrirtækisins verður haldin ytra á laugardaginn, í borginni Sopot.
Tvær fyrstu þoturnar fljúga frá Akureyri í dag. Öll skip félagsins eru komin til hafnar og engin vinnsla verður í vinnsluhúsum félagsins í þrjá daga.
Árshátíðin er haldin í fjölnota húsi, Ergo Arena (Hala Gdańsk-Sopot), í borginni Sopot. Þar fara gjarnan fram tónleikar og íþróttaviðburðir, í höllinni var m.a. leikið á heimsmeistaramóti karla í handbolta árið 2023.
Þetta er í þriðja sinn sem árshátíð fyrirtækisins er haldin í Póllandi. „Síðasta árshátíð Samherja var haldin fyrir um þremur árum, einnig í Sopot enda eru allar aðstæður þar mjög góðar,“ segir Anna María Kristinsdóttir mannauðsstjóri Samherja á vef fyrirtækisins.
„Þetta er um margt kærkomið frí, okkur hefur til þessa tekist að tryggja starfsemi í landvinnslunni alla daga ársins, fyrir utan hefðbundin sumarleyfi. Starfsfólkið, bæði til sjós og lands, á því sannarlega skilið að skemmta sér saman og treysta um leið vinaböndin enn frekar. “
Undirbúningur árshátíðarinnar er eðlilega mikill, að sögn Önnu Maríu, enda er þetta stór hópur. „Landslið íslensks tónlistarfólks er með í för, sem sér um að allir skemmti sér konunglega. Fyrri árshátíðir í Póllandi hafa tekist afskaplega vel, þannig að það er mikil tilhlökkun meðal starfsfólks og gesta.“
Sopot er á norðurströnd Póllands, við Eystrasalt, á milli borganna Gdynia og Gdansk. Nefna má að gamni að ekki er útilokað að árshátíð fari fram í tveimur borgum; Akureyri.net er reynar ekki kunnugt um í hvaða sal hússins árshátíðin fer fram en skv. upplýsingum á vef hallarinnar telst hluti hennar í Gdansk og hluti í Sopot!
Frá borginni Sopot í Póllandi. Mynd af vef Samherja.