Fara í efni
Fréttir

Fjármögnun upp á 34 milljarða er lokið

Tölvugerð mynd af Eldisgarði, landeldisstöð Samherja fiskeldis ehf., sem mun rísa á Reykjanesi. Mynd: Samherji.is.

Lokið hefur verið við fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs, nýrrar laxeldisstöðvar við Reykjanesvirkjun, með útgáfu nýs hlutafjár og sambankaláni. Það er Samherji fiskeldi ehf., dótturfélag Samherja hf., sem stendur að verkefninu. Fjármögnun fyrsta áfanga nemur um 34 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að eitt hundrað ný störf verði til í stöðinni og álíka fjöldi afleiddra starfa. Þetta kemur fram í frétt á vef Samherja í dag.

Eldisgarður byggir á reynslu Samherja af landeldi í Öxarfirði, en frá árinu 2023 hefur fyrirtækið fjárfest í stöðinni í Öxarfirði fyrir rúmlega fjóra milljarða króna. Þar var um að ræða stækkun og innleiðingu á nýrri tækni sem verður notuð í Eldisgarði.

„Árangurinn af þessum breytingum hefur ekki látið á sér standa og styrkir væntingar okkar um rekstur nýju landeldisstöðvarinnar. Öflugt teymi hefur í langan tíma unnið að undirbúningi þessa stóra og fjárfreka verkefnis og lagt grunninn að uppbyggingu landeldis í fremstu röð á heimsvísu. Ég er afskaplega stoltur af starfsfólki Samherja á þessum tímamótum og við teljum okkur vel í stakk búin að takast á við margfalt stærra landeldi,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og stjórnarformaður Samherja fiskeldis.

Stærsti bleikjuframleiðandi í heimi

Landeldisstöðin verður staðsett í auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun með aðgang að 100% endurnýjanlegri orku frá virkjuninni. Stöðin verður byggð í þremur áföngum. Eftir fyrsta áfanga mun hún framleiða 10.000 tonn af slægðum laxi og mun fullbyggð ná framleiðsluafköstum upp á 30.000 tonn á ári.
 
Samherji fiskeldi ehf. hefur stundað landeldi á bleikju og laxi í tvo áratugi. Fyrirtækið er orðið leiðandi í landeldi og er í dag stærsti bleikjuframleiðandi í heimi með um 30% markaðshlutdeild í bleikju. Frá árinu 2002 hefur Samherji fiskeldi framleitt meira en 60.000 slægð tonn af laxi og bleikju, að því er kemur fram í frétt fyrirtækisins.
 
Nánar er fjallað um málið í frétt á vef Samherja.