Þorsteinn Már: „Þetta vilja menn sjaldan ræða“
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja á Akureyri, er í ítarlegu viðtali í páskaþætti hlaðvarpsins Þjóðmála.
Í viðtalinu fer Þorsteinn Már um víðan völl, fjallar „um sögu og uppbyggingu félagsins, hvernig það kom til að þrír ungir frændur ákváðu að reyna fyrir sér í sjávarútvegi, um framtíð greinarinnar og samkeppnina við erlenda risa, hvaða möguleikar kunna að felast í fiskeldi, hvort til greina komi að skrá Samherja í Kauphöllina, hvernig umræða um fiskveiðistjórnunarkerfið hefur þróast, 12 ára baráttu við Seðlabankann og aðra anga kerfisins, ummælin um Gugguna sem átti að vera gul og margt fleira. Stútfullur páskaþáttur hér á ferð,“ eins og segir í kynningu á þættinum.
Að ofan eru nefnd ummælin um Gugguna; þau fleygu orð Þorsteins Más þegar Samherji keypti skipið Guðbjörgu ÍS af útgerðarfélaginu Hrönn á Ísafirði, sem gjarnan eru rifjuð upp í umræðum um fiskveiðistjórnunarkerfið, að skipið yrði áfram gult og gert út frá Ísafirði.
- Þorsteinn Már segir Hrönn hafa staðið illa fjárhagslega þegar þegar Samherji keypti skipið. Reksturinn hafi ekki staðið undir væntingum; fyrri eigendur hafi tekið áhættu en setið uppi með erfiðan rekstur og greitt háa vexti af fjárfestingunni.
- „Ég byrjaði í samstarfi við þessa ágætu menn, það endaði með því að þeir gerðust hluthafar í Samherja,“ segir Þorsteinn Már.
- „Ég í einhverju bjartsýniskasti segi þessa frægu setningu um skipið, að Guðbjörgin yrði gul áfram. En sú bjartsýni byggði ekki á rökum.“
- Þorsteinn Már rifjar síðan upp að Ásgeir Guðbjartsson, útgerðarmaður og skipstjóri á Guðbjörgu, hafi síðar selt hlut sinn í Samherja og fjármagnið verið notað til að hefja aftur útgerð á Vestfjörðum. Þá varð til fyrirtækið Jakob Valgeir, sem nú er öflugt útgerðarfélag í Bolungarvík.
- „Þeir fjármunir sem þeir fengu út úr Samherja voru nýttir til að kaupa veiðiheimildir sem voru miklu meiri en á Guðbjörginni á sínum tíma. Þetta vilja menn sjaldan ræða,“ segir Þorsteinn Már.
Smellið hér til að hlusta á þáttinn