Fara í efni
Menning

Þaulsetnir organistar og mikið tónlistarstarf

Myndir: Minjasafnið á Akureyri

TÓNDÆMI – 10

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Tónlist hefur skipað mikinn sess í kirkjustarfi á Akureyri allar götur síðan Magnús organisti sló fyrsta tóninn seint á 19. öld og er enn. Kirkjukórar eru áberandi en fjölmargt annað er í boði á vegum kirkjunnar og annarra, sem falast eftir að halda tónleika þar.

Organistar í höfuðstað Norðurlands hafa margir verið þaulsetnir.

  • Sigurgeir Jónsson frá Stóruvöllum í Bárðardal, sem tók við af Magnúsi árið 1911 var organisti við Akureyrarkirkju í 30 ár og eftirmaður hans, Jakob Tryggvason, frá Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal, gerði betur og starfaði í 45 ár.
  • Sigurgeir hóf störf í gömlu kirkjunni í Fjörunni, þar sem Minjasafnskirkjan stendur nú, og var fyrsti organisti núverandi kirkju þegar hún var vígð 1940. Hann sagði starfi sínu lausu um mitt ár 1941, á 75. aldursári. Sigurgeir stýrði söng þar í síðasta sinn við synodusmessu 29. júní 1941. Hafði hann þá, að því er segir í Sögu Akureyrarkirkju eftir Sverri Pálsson, leikið á orgel og stýrt söng við 1473 guðsþjónustur og 1031 jarðarför.

 

Sigurgeir Jónsson organisti ásamt kirkjusöngflokknum á sönglofti gömlu kirkjunnar í Fjörunni fyrsta sunnudag í vetri 1934. Frá vinstri: Tryggvi Jónasson, Stefán Árnason, Kristján S. Sigurðsson, Sigurgeir Jónsson við hljóðfærið, (aftan við hann) Guðmund Gunnarsson, Magnús Sigurjónsson, Pétur Þorgrímsson, Þórhildur Steingrímsdóttir, Stefanía Jóhannsdóttir, Steinunn Jónasdóttir, Helga Jónsdóttir, Margrét Steingrímsdóttir og Ingibjörg Steingrímsdóttir.

 

  • Jakob Tryggvason hóf störf þegar nýtt Hammond orgel kirkjunnar var tekið í notkun og Sigurgeir lék aldrei á það. Núverandi pípuorgel kirkjunnar var byggt 1961 og endurbyggt 1995.
  • Jakob var organisti frá 1941 til 1986 þegar Björn Steinar Sólbergsson var ráðinn til starfans. Eyþór Ingi Jónsson hóf störf við kirkjuna 2003 og eftir að Björn Steinar var ráðinn til Hallgrímskirkju í Reykjavík kom Sigrún Magna Þórsteinsdóttir í hans stað. Þorvaldur Örn Davíðsson bættist svo í hópinn árið 2020.
  • Jakob Tryggvason var fyrsti organisti Lögmannshlíðarkirkju og stjórnaði Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar, eins og hann hét þá, til 1945. Þá tók Áskell Jónsson frá Mýri í Bárðardal við söngstjórninni og var í 42 ár við stjórnvölinn – allt til 1987. Nafni kórsins hafði þá verið breytt og hann kenndur við Glerárkirkju, en Akureyrarprestakalli var skipt í tvennt 1981 og hét þá Glerárprestakall norðan Glerár.
  • Jóhann Baldvinsson var ráðinn organisti í stað Áskels og starfaði í 10 ár, þar til Hjörtur Steinbergsson tók við 1997. Valmar Väljaots tók við starfinu af Hirti árið 2009 og er enn organisti í Glerárprestakalli.

Kirkjukór Akureyrar 14. febrúar 1965 ásamt stjórnanda, einleikara og prestum safnaðarins. Þennan dag klæddust konurnar í kórnum söngkápum í fyrsta sinn. Fremst standa, frá vinstri: séra Birgir Snæbjörnsson, Jakob Tryggvason stjórnandi, dr. Maria Bayer-Jüttner fiðluleikari, Jóhann Daníelsson einsöngvari og séra Pétur Sigurgeirsson. Konurnar eru, frá vinstri: Kristjana N. Jónsdóttir, Petrína Þ. Eldjárn, Lára Ingólfsdóttir, Lilja Hallgrímsdóttir, Arnfríður Róbertsdóttir, Björg Baldvinsdóttir, Fríða Sæmundsdóttir, Hulda Þormar, Sigríður P. Jónsdóttir, Steinunn Jónasdóttir, María Sigurðardóttir og Lilja Magnúsdóttir. Karlarnir eru, frá vinstri: Brjánn Guðjónsson, Baldvin Helgason, Jón Sigurgeirsson, Gústav Jónasson, Sveinn Kristjánsson, Magnús Sigurjónsson, Arnfinnur Arnfinnsson, Oddur Kristjánsson, Kristinn Þorsteinsson og Jón Júlíus Þorsteinsson.

Tveir af organistunum norðan Glerár, Jóhann Baldvinsson, til vinstri (1987 - 1997) og Áskell Jónsson (1945 - 1987)  ásamt Sigríði Schiöth sem lengi var organisti í Eyjafirði fram.

Kór Lögmannshlíðarkirkju æfir fyrir afmælistónleika 1984, þegar 40 ára afmæli kórsins var fagnað.

Kór Akureyrarkirkju vorið 1989. Fremsta röð frá vinstri: Björn Steinar Sólbergsson, stjórnandi og organisti, Kristín Alfreðsdóttir, Margrét Sigurðardóttir, Unnur Huld Vopna, Áslaug Sigurðardóttir, Hildur Pedersen, Anna María Blöndal, Heidi Michelle Oelkers, Hrefna Harðardóttir, Lovísa Jónsdóttir, Birna Bessadóttir, Sigurlaug Arngrímsdóttir, Þrúður Gísladóttir og Sæbjörg Jónsdóttir. Miðröð frá vinstri: Kristín Jóhannesdóttir, Fríða Jónsdóttir, Fanney Baldursdóttir, Ólöf Einarsdóttir, Sigríður Olgeirsdóttir, Dagný Pétursdóttir, Björg Baldvinsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Matthildur Egilsdóttir, Kolbrún Kristjánsdóttir, Vilborg Jósefsdóttir, Gunnfríður Hreiðarsdóttir og Elín Stephensen. Aftasta röð frá vinstri: Örnólfur Kristjánsson, Páll Jóhannsson, Bryngeir Kristinsson, Halldór Guðlaugsson, Jón Hallgrímsson, Jón Árnason, Valdimar Gunnarsson, Benedikt Sigurðarson, Hjörtur Steinbergsson og Hólmgeir Sturla Þorsteinsson.