Lofsorði lokið á Samkór Róberts Abrahams
TÓNDÆMI – 12
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Tónlistarmaðurinn Robert Abraham, þýskur gyðingur sem flutti til Íslands 1935, aðeins 23 ára að aldri, settist að á Akureyri og bjó þar fyrstu fimm árin hérlendis. Hann var alinn upp á miklu menningarheimili; móðir Roberts, Lise Golm, var listmálari en faðir hans, Otto Abraham, læknir í Berlín og fræðimaður á sviði tónlistar. Fljótlega eftir komuna til Íslands fór sonurinn að nefna sig Róbert Abraham Ottósson, samkvæmt íslenskri hefð.
Á Akureyri hóf Róbert að kenna á píanó auk þess að kenna þýsku í einkatímum, hélt fáeina píanótónleika og árið eftir stofnaði hann blandaðan kór, Samkór Akureyrar, eða Samkór Róberts Abraham, eins og hann var einnig kallaður. Þá voru aðeins fáein ár frá því Björgvin Guðmundsson stofnaði Kantötukórinn, og þótti Björgvin stofnun Samkórsins persónuleg ögrun við sig og ógnun við eigið starf.
Róbert Abraham Ottósson. Mynd af vefnum Ísmús.is
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2001 vitnar Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingar, í óútgefið handrit Björgvins að sögu Kantötukórs Akureyrar: „Það átti að nota þennan Gyðing sem vitanlega hefur eingöngu útlend verk á boðstólum til að eyðileggja Kantötukórinn og kollvarpa starfi hans.“ Nánar verður fjallað um Björgvin Guðmundsson á þessum vettvangi síðar.
Blöð á Akureyri hrifust af starfi Þjóðverjans og luku lofsorði á kór hans, en gagnrýndu gjarnan Björgvin fyrir einhæft val verkefna. Athygli vekur að nokkrir félagar Karlakórs Akureyrar sungu með Samkórnum, en Áskell Snorrason, stjórnandi karlakórsins, hafði hafnað beiðni Björgvins Guðmundssonar um aðstoð. Þá gengu nokkrar konur úr Kantötukórnum til liðs við Samkórinn.
Árni Heimir Ingólfsson segir í Lesbókinni: „Róbert gat verið tilfinninganæmur stjórnandi og þoldi engum að misþyrma tónlist í sín eyru. Átti hann það jafnvel til, sérstaklega á yngri árum sínum, að slá af og byrja á nýjan leik ef eitthvað fór úrskeiðis í flutningnum, jafnvel á tónleikunum sjálfum. Sagan segir að á Akureyrarárunum hafi Róbert reiðst á kóræfingu þar sem verið var að æfa Liebeslieder-valsana eftir Brahms og hafi hann strunsað út úr salnum, ómyrkur í máli.
Þá orti Kristján skáld frá Djúpalæk, sem var einn kórfélaga:
Óma lögin eftir Brahms,
undurþýð og dreymin,
ásamt skömmum Abrahams,
útí himingeiminn.
Ekki kollvarpaði Róbert Abraham starfi Kantötukórs Björgvins en flutti til Reykjavíkur 1940 þar sem hann starfaði lengi við kennslu og kórstjórn, var m.a. Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar og einn kunnasti tónvísindamaður þjóðarinnar.
Róbert Abraham stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á fyrstu tónleikum hennar árið 1950 og oft síðar, og átti ríkan þátt í stofnun Söngsveitarinnar Fílharmóníu 1959, sem hann stjórnaði til dauðadags 1974.
MIKILL FÖGNUÐUR
Forsíða Akureyrarblaðsins Dags fimmtudaginn 30. mars 1939 þar sem greint er frá tónleikum „Samkór R. Abrahams“ í Nýja-Bíói sunnudaginn 26. mars. Gott dæmi um lofsamlega umfjöllun.
Þar segir: Aðsókn var hin bezta og söngnum tekið með miklum fögnuði af áheyrendum. Á söngskránni voru 7 viðfangsefni eftir innlenda og útlenda höfunda. Einsöngvarar voru Sigríður Guðmundsdóttir og Gunnar Magnússon. Frú Jórunn Geirsson annaðist undirleik. Auk þess lék söngstjórinn undir einsöng Sigríðar og innganginn að harmleiknum „Egmont“ eftir Beethoven, ásamt frú Jórunni. Einsöngvararnir voru klappaðir fram hvað eftir annað og frú Jórunni afhentur blómvöndur. Samkórinn lætur aftur til sín heyra í kvöld á sama stað og áður.