Fara í efni
Umræðan

Þarf forseti Íslands að vera góð manneskja?

Svarið við þeirri spurningu hlýtur að vera já, forseti þarf að vera góð manneskja. En fleira hlýtur að skipta máli þegar kjósendur vega og meta frambjóðendur. Mögulega má spyrja um afstöðu frambjóðenda til ýmissa málefna en þegar upp er staðið er það kannski ekki svo mikilvægt í ljósi þess að það eru ráðherrar sem fara með framkvæmdavald það sem forseta er ætlað í stjórnarskránni. Jafnvel má halda því fram að það sé ókostur að forseti hafi lýst afdráttarlausri afstöðu til mála sem hafa verið eða ætla má að verði til umfjöllunar á vettvangi stjórnmálanna.

Mér hefur þótt umræða fyrir komandi forsetakosningar snúast of mikið um hvort þessi eða hinn frambjóðandinn sé góð manneskja. Ég held að þau öll sem hafa boðið sig fram geri það af heilindum og vilji láta gott af sér leiða. Sum hafa þó ef til vill nokkuð stórar hugmyndir um það sem þau vilja gera ef þau hljóta kosningu meðan staðreyndin er sú að möguleikar forseta til að beita sér í einstaka málum eru afar takmarkaðir. Forseti hefur í raun næstum engin völd.

Forseti sem hefur djúpa þekkingu á íslenska stjórnkerfinu getur hins vegar haft áhrif og þegar kemur að þessu mikilvæga atriði sýnist mér Baldur Þórhallsson skara fram úr öðrum frambjóðendum. En hann hefur líka svo miklu meira fram að færa til forsetaembættisins.

Ég kynntist Baldri fyrst þegar hann var kennari í námskeiði sem ég sótti við Háskóla Íslands fyrir bráðum 30 árum. Þar sýndi hann að hann hefur til að bera þann eiginleika sem ég met einna mest í fari fólks, sem er að geta hlustað fordómalaust og af virðingu á sjónarmið annarra. Allt sem ég hef séð til hans síðan þykir mér vera til marks um að hann stenst svo sannarlega það frumskilyrði forsetaframbjóðanda að vera góð manneskja. Þegar kemur að þeim málefnum sem Baldur hefur tjáð sig um þá sýnist mér framferði hans einkennist af hófsemi og djúpri ígrundun fremur en fyrirfram mótuðum skoðunum. Það sem mér sýnist hins vegar setja Baldur feti framar en aðra frambjóðendur við komandi kosningar er að hann veit nákvæmlega hvernig hægt er að beita forsetaembættinu til góðra verka innan þess þrönga ramma sem stjórnskipan Íslands setur.

Kjartan Ólafsson er umboðsmaður Baldurs Þórhallssonar í Norðausturkjördæmi

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10