Fara í efni
Pistlar

Tækifæri til að gera betur

Nýlega voru skólamötuneytin á Akureyri í umræðunni. Talað var um að það þyrfti að bjóða upp á valkost fyrir þá sem eru vegan og vilja hvorki borða kjöt né neyta annarra dýraafurða. Draga þyrfti úr framboði á unnum kjötvörum og auka heilnæmi almennt. Í ljósi þess að ég vinn hjá Norðlenska voru margir sem spurðu hvaða skoðun ég hefði á þessari umræðu. Hún er einföld – ég lít á þessa umræðu sem tækifæri til að gera betur.

Sem starfsmaður matvælafyrirtækis í eigu bænda og miklum aðdáanda dýraafurða finnst mér ekki spurning að skólamötuneyti eigi áfram að bjóða upp á fjölbreytta fæðu sem framleidd er af bændum innanlands. Það er val mikils meirihluta fólks að borða m.a. kjötafurðir, fisk og mjólkurafurðir og við getum verið stolt af þeirri vöruþróun sem átt hefur sér stað í þá átt að auka heilnæmi og næringargildi þessara matvæla. Auk þess er það umhverfisvænna að velja matvæli sem ekki þarf að flytja um langan veg áður en þeirra er neytt.

Sem móður barns með ofnæmi finnst mér aftur á móti þörf fyrir að gera betur í að bjóða þeim börnum sem hafa sérþarfir varðandi matvæli upp á betri þjónustu en nú er gert. Því miður hefur drengurinn minn ekki viljað vera í skólamötuneytinu því þar var ekki hægt að koma til móts við hans þarfir nema að litlu leyti. Það er einfaldlega ekki mannskapur í skólamötuneytunum sem annar þeirri fjölgun barna með sérþarfir varðandi mat sem orðið hefur undanfarin 10 ár eða svo.

Sem manneskju sem aðhyllist hægri vænginn í stjórnmálum vil ég endilega að fólk hafi val og að við berum virðingu fyrir vali annarra. Sem viðskiptafræðingi finnst mér samt ekki gott að auka kostnað bæjarins enda fjárhagsstaðan ekki sérlega góð ef marka má fréttir. Því sem starfsmannastjóri geri ég mér grein fyrir að aukin þjónusta á þessu sviði kallar á meiri mannskap, fræðslu og sérþekkingu í skólamötuneytin.

Því velti ég fyrir mér hvort sé kannski tímabært að stokka þetta kerfi upp og leita nýrra leiða. Ein hugmynd er að koma á laggirnar miðlægu deildarskiptu mötuneyti sem sæi um að forelda allan mat, þ.m.t. fyrir þá sem hafa sérþarfir. Þannig myndi byggjast upp þekking og auðveldara væri með afleysingar í forföllum. Í Reykjanesbæ er fyrirtækið Skólamatur sem er akkúrat svona fyrirtæki og hafa mætti til fyrirmyndar. Ekki er verra að það er einkarekið.

Ég skora á þá sem hafa með þennan málaflokk að gera hjá okkar ágætu bæjaryfirvöldum að leggjast yfir þetta reikningsdæmi og skoða vandlega hvort við höfum tækifæri til að bæta þjónustu án þess að hækka kostnað með því að nýta kosti stærðarhagkvæmninnar. Ég spái því að sú þróun sem hefur verið undanfarin ár á þessu sviði muni halda áfram en ekki ganga tilbaka svo það stefnir í óefni ef ekkert er gert.

Jóna Jónsdóttir er „miðaldra kona á Brekkunni“

Undurhrif tónlistarinnar

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
28. janúar 2025 | kl. 06:00

Útvíðar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. janúar 2025 | kl. 11:30

Gosdrykkjan

Jóhann Árelíuz skrifar
26. janúar 2025 | kl. 11:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30