Fara í efni
Umræðan

Svifaseinir Íslendingar

Maður hebbði þú nú haldið, eins og maðurinn sagði, að fámenn þjóð á borð við Íslendinga gæti innleitt gagnlegar breytingar og nýjungar á methraða. Jú, vissulega tökum við mörgu opnum örmum og setjum hvert heimsmetið á fætur öðru miðað við höfðatölu. Etum mest af geðlyfjum og svefnlyfjum og sterkum verkjalyfjum, reynum að toppa aðrar þjóðir í nikótínneyslu, orku- og gosdrykkjaþambi og sykurneyslu almennt líka og glápum eflaust meira á streymisveitur en gengur og gerist meðal siðmenntaðra þjóða. Kaupæði á hvers kyns glingri grípur svo reglulega um sig. Allt gerist þetta á ógnarhraða en hvers vegna getum við ekki gengið jafn rösklega til góðs?

Hér þyrfti að breyta forkostulegum fjölda mála sem hafa verið „í umræðunni“ í langan tíma, jafnvel marga áratugi. Flestir ættu að geta nefnt þetta: Kjör láglaunafólks, úrræði fyrir atvinnulausa, örorkubótakerfið, hag aldraðra, verkmenntun, meðferð fólks með fíknvanda og fjölmargt í heilbrigðiskerfinu. Húsnæðismálin eru að renna út í sandinn og á þeim grunni standa vistarverur margra ungra fjölskyldna. Þurfum við ekki aðeins að hætta að glenna rassinn á instagramminu (nema það skili skatttekjum í ríkissjóð), smjatta á slúðurfréttum, sanka að okkur ofurverðlögðum gæludýrum og nöldra og nagga yfir einhverju sem engu máli skiptir?

Þessi fámenna og auðuga þjóð ætti að geta stokkað spilin upp á nýtt og forgangsraðað. Reyndar er engin sérstök ástæða til bjartsýni þegar kemur t.d. að umhverfis- og loftslagsmálum. Slóðaskapurinn í þeim efnum er fyrir neðan allar hellur þar sem sjálfhverft eðli Íslendingsins og hagsmunagæsla ríða ekki við einteyming. Hvers vegna í ósköpunum er þessi vindblásna, sólbakaða raforkuþjóð enn að menga svona mikið?

Fyrir 15-20 árum prófaði ég að keyra um á loftbóludekkjum að vetrarlagi vegna umræðu um nagladekk og svifryk. Umræðan fékk mig líka til að kaupa metanbíl fyrir einum 7-8 árum og síðan tvinnbíl. Ég er t.d. bara búinn að kaupa bensín einu sinni á þessu ári þótt komið sé fram í apríl. Metanbíllinn var reyndar enn ódýrari í rekstri, maður komst oft alla leið til Reykjavíkur á metani einu saman fyrir um 2.835 krónur. Þegar ég var að brasa við þetta skynjaði ég andrúmsloftið þannig að við værum á leið í orkuskipti en þá voru dísilbílar auglýstir sem aldrei fyrr og svona gekk þetta næstu árin og fyrst nú aðeins að rofa til. Skyldi olíukóngaveldið á Íslandi hafa haft þarna einhver áhrif til að hægja á þróuninni? Og hvers vegna var ekki gert meira úr metaninu, innlendum og ódýrum orkugjafa?

Íslendingar geta alveg staðið saman. Ef einhver samtök eða samfélagsmiðlar standa fyrir söfnun til góðgerðarmála bregðumst við fljótt við. Annars er áhyggjuefni hve miklu óvandaðir netmiðlar og samfélagsmiðlar stjórna í þjóðfélaginu, oftar en ekki í beinu eða óbeinu sambandi við auglýsendur og algóritma. Það er líka oft ákveðið á samfélagsmiðlum hvern skuli taka af lífi og hverjum skuli hampa. Ég ætla að geyma þá umræðu.

Við hljótum að geta tekið okkur á í loftslagsmálum. Virkjað vind, sjávarföll, sólarorku, jarðgas o.fl. Hreinsað og flokkað sorp og skólp, nýtt almenningssamgöngur betur (metanstrætó), dregið úr nagladekkjanotkun, aukið lífræna ræktun á grænmeti, hætt að troða sykri í alla drykki og mjólkurvörur og bara verið á allan hátt náttúrlegri og mannlegri. Plís!

Stefán Þór Sæmundsson fæst við skáldskap og er ekki í framboði

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15

Nei þeir mega það ekki!

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:00

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00