Fara í efni
Umræðan

Styttum biðlista á Akureyri

Sú staða sem birtist í nýlegri fjárhagsáætlun meirihluta bæjarstjórnar Akureyrarbæjar sýnir helstu áherslur og forgangsmál meirihlutans. Augljóst er að lögbundin hlutverk sveitarfélagsins taka hvað mest af fjármunum, enda höfum við sem samfélag bundið í lög og sammælst um ákveðna grunnþætti og mannréttindi sem við viljum standa vörð um.

Þar á meðal er þjónusta við fatlað fólk og fólk sem þarf á stuðningi sveitarfélagsins að halda, t.d. með aðgengi að félagslegu leiguhúsnæði.

Það blasir hins vegar við að fjölgað hefur á biðlistum fatlaðra einstaklinga eftir húsnæði, nú má gera ráð fyrir að í árslok verði um 20 einstaklingar að bíða. Áætlanir hafa ekki gengið eftir varðandi þær byggingar sem eru á teikniborðinu og því er ljóst að róðurinn mun enn þyngjast árin 2023-2026. Nýr þjónustukjarni mun ekki rísa fyrr en árið 2026 miðað við núverandi áætlanir meirihlutans. Þetta er mjög slæm staða og ef vel ætti að vera þyrfti nú þegar að setja í forgang áætlun um annan þjónustukjarna. Hins vegar virðist meirihlutinn ætla að leggja meiri áherslu á uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem er ekki lögbundið hlutverk sveitarfélags, en tengist vissulega lýðheilsu og lífsgæðum margra íbúa. Lögbundin skylda sveitarfélagsins hvað varðar grunn mannréttindi og lífsgæði þessa hóps, er í mínum huga afskaplega rík og því vantar mikið uppá að meirihlutinn sýni það í sínum áætlunum fyrir komandi ár.

Eins ber að nefna uppbyggingu varðandi félagslegar íbúðir, þar eru einnig biðlistar þar sem um 160 manns bíða eftir húsnæði. Í áætlunum fyrir allt kjörtímabilið er gert ráð fyrir að kaupa 10 félagslegar leiguíbúðir. Við verðum að gera betur í þessum málaflokkum, nú þegar blasir við að viðkvæmir hópar munu eiga mjög erfitt fjárhagslega og hafa enn minni möguleika á að komast á almennan leigumarkað eða kaupa sér húsnæði.

Meirihlutinn er því alls ekki að gera það til þarf í þessum málaflokkum og til að forgangsraða í þágu almennings þá eru það m.a. þessir hópar sem þurfa að fá einna mest vægi. Ef ekki verður breyting á mun sveitarfélagið standa frammi fyrir mjög slæmri stöðu undir lok kjörtímabilsins. Við í Samfylkingunni munum því standa vaktina hvað þessi mál varðar og gera okkar allra besta til að veita meirihlutanum það aðhald sem hann sannarlega virðist þurfa. Það er vonandi að í endanlegri fjárhagsáætlun verði komið betur til móts við fyrrgreinda hópa.

Elsa María Guðmundsdóttir var í 3. sæti á lista Samfylkingarinnar við bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri í vor er áheyrnarfulltrúi í velferðanefnd

Hugvekja á Ýli

Hildur María Hansdóttir skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 15:30

Framtíðin er núna

Ingvar Þóroddsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 13:00

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50