Stelpurnar töpuðu fyrsta leiknum við Val
KA/Þór tapaði með einu marki fyrir Val, 28:27, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta í Reykjavík í kvöld.
Mikill hraði var í leiknum og allt í járnum fram yfir miðjan fyrri hálfleikinn en þegar staðan var 8:8 kom frábær kafli KA/Þórs sem gerði fimm mörk í röð og breytti stöðunni í 13:8. Sóknarleikurinn var framúrskarandi og vörnin góð; Valsmenn áttu hreinlega engin svör. En eftir að Ágúst þjálfari Vals tók leikhlé tvisvar með stuttu millibili gjörbreyttist leikur liðsins og aðeins munaði tveimur mörkum í hálfleik, 15:13 fyrir KA/Þór.
Valsmenn héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik, voru mjög sannfærandi og komust fljótlega yfir. Um miðjan hálfleikinn var Valur þremur mörkum yfir í fyrsta skipti og fljótlega varð munurinn fjögur mörk. Stelpurnar okkar gáfust þó aldrei upp, náðu góðum lokakafla en það reyndist ekki nóg.
Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 8, Martha Hermannsdóttir 6 (5 víti), Aldís ásta Heimisdóttir 5, Unnur Ómarsdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 5 (21,7%), Sunna Guðrún Pétursdóttir 2 (16,7%)
Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.
- Liðin mætast næst í KA-heimilinu á mánudaginn en sigra þarf í þremur leikjum til þess að komast í úrslit.