Skynjunarsmiðja með jólaþema á morgun
Memmm Play, foreldrasamfélag sem stendur fyrir Opnum leikskóla í Reykjavík og í Hafnarfirði, verður með skynjunarsmiðju með jólaþema á Amtsbókasafninu á Akureyri milli klukkan 13 og 15 á morgun, laugardag.
Öll börn 10 ára og yngri eru velkomin í fylgd forráðamanna.
Memmm Play er að færa út kvíarnar og hefja starf á Akureyri í samstarfi við Amtsbókasafnið. Nú þegar hefur einn foreldramorgunn verið haldinn á vegum Opna leikskólans á Akureyri og mættu þá 13 börn ásamt foreldrum. Skynjunarsmiðjan á laugardaginn er því annar viðburðurinn á vegum Memm Play fyrir norðan.
Fræðsla, tengsl og leikur
Memmm Play var stofnað af Kristínu Stefánsdóttur, iðjuþjálfa og Helgu Hreiðarsdóttur leikskólalennara, en teymið á Akureyri samanstendur af iðjuþjálfanum Helgu Sif Pétursdóttur og Eydísi Stefaníu Kristjánsdóttur leikskólakennara og barnabókaverði. Tilgangur Opna leikskólans er t.d að koma til móts við félagslega einangrun, samfélagslegan ójöfnuð, uppeldistengdar áskoranir og hraðann í samfélaginu. Allir viðburðir og fræðsla á vegum Memm Play er foreldrum að kostnaðarlausu. Sem dæmi um viðburði sem Memmm Play hefur staðið fyrir á höfuðborgarsvæðinu er grill, föndursmiðjur utandyra, söngstund á Ylströndinni í Nauthólsvík, lesstundir á bókasöfnum, listasmiðjur, páskaeggjaleit í Elliðaárdal og námsskeið um fyrstu hjálp svo fátt eitt sé nefnt.
Kakó, jólatónlist og piparkökuleir
Á skynjunarsmiðjunni í Amtsbókasafninu verður boðið upp á piparkökuleir og leirmót, lituð hrísgrjón og lausamuni, sand (úr morgunkorni) og lausamuni. Einnig verður ungbarnahorn með skynjunarleikföngum. Amtsbókasafnið býður þeim sem mæta upp á heitt kakó, jólatónlist verður í spilaranum og eru gestir hvattir til þess að mæta með jólahúfur.
Frá Memmm Play foreldrahittingi á Amtsbókasafninu fyrr í vetur.