Fara í efni
Pistlar

Sköpun og flæði

MENNSKAN - 9

„Komdu að leika.“

Ég dreg gluggatjöldin frá og hrífst af haustlitunum á stóra eikartrénu. Laufblöðin eru appelsínugul og næstum út í dökk vínrauð. Ég virði þau fyrir mér og í fjarlægð renna þau saman og mynda appelsínugulan borða sem vefst utanum greinarnar. Þá sé ég það. Laufblöðin eru gullfiskar sem synda á milli greinanna í hægum taktföstum straumi. Synda hringi í kringum tréð og skilja eftir þessa fallegu appelsínugulu haustslikju.

Leikur er einn af frumþáttum mennskunnar. Að bregða á leik og sjá fyrir sér eitthvað sem ekki er til staðar í raunveruleikanum, nýjar aðstæður, nýjar persónur og nýja veröld. Ung börn eru með ríkt ímyndunarafl og hjá þeim er ekki alltaf ljóst hvað er raunveruleiki og hvað er ímyndun. Fyrir þeim getur verið raunverulegt að bangsinn tali eða að risaeðla sé stödd inni í stofu. Á andartaki breytist borðstofuborðið í kastala, hjónarúmið í höll og eldhúsið í matvöruverslun. Ímyndunarleikur er mikilvægur í þroskaferli barna og hann stuðlar að bættri málnotkun og félagslegum þroska.

Leikur og ímyndunarafl eru nátengd en flókin fyrirbæri. Einn lykilþáttur ímyndunaraflsins er sköpunarkraftur og það er sá grunnur sem skapandi hugmyndir spretta frá. Með skapandi athöfnum eins og að mála, skrifa eða leika á hljóðfæri getum við haldið ímyndunaraflinu og sköpunarkraftinum gangandi. Sköpun felst í mörgum daglegum athöfnum þó að við leiðum ekki endilega hugann að því þegar kakan er skreytt, hlutum er raðað á bakka eða jólakransinn er vafinn.

Sköpunarkraftur er fólki eðlislægur en við höfum mis mikla þörf fyrir að finna honum farveg. Listamenn nýta ímyndunaraflið og sköpun í sinni iðn og margir eiga áhugamál sem tengjast sköpun eins og að prjóna, smíða eða stunda ýmsa aðra handiðn.

Þegar hugverk verður til gerist eitthvað stórkostlegt og sá sem á hugverkið finnur til sín. Hugverk getur verið tónlist, kvikmynd, málverk, textílverk, ritverk, hönnun, skúlptúr, teikning … eiginlega allt mögulegt. Fyrst kviknar hugmynd síðan þarf að varða leiðina, vinna að verkinu og að lokum verður til afurðin sem listamaðurinn á og enginn annar og því fylgir sigurtilfinning. Þetta gerði ég! Misjafnt er hvort hugmyndin sjálf, leiðin að framkvæmdinni eða afurðin skipti meira eða minna máli. Oft er þetta allt sem vegur jafn þungt í sköpunarferlinu. Svo eru hinir sem fá að upplifa hugverk listamannsins og þá verða til ákveðin hughrif. Listaverkin kveikja á tilfinningum og er það ólíkt eftir verkunum sjálfum og einnig eftir hverri og einni manneskju hver hughrifin verða hverju sinni. Sú klisja heyrist oft þegar fólk upplifir hugverk annarra: „Ja, þetta hefði ég nú alveg getað gert.“ Og það má vel vera en af hverju datt því þá ekki í hug að framkvæma það? Það er nefnilega ekki nóg að geta gert eins og aðrir, það skiptir máli að eiga frumhugmyndina. Að finna hugmyndina vaxa inni í sér og framkvæma af eigin hvötum og frumkrafti.

Að skrifa sögu eða bók er sköpunarferli sem leiðir af sér hugverk. Sagan verður til í höfðinu á einum og síðan er annar sem les söguna og sér hana fyrir sér í sínu höfði. Hugverk annarra geta orðið innblástur að frekari sköpun og það er svo frábært við listina. Að hlusta á tónlist getur orðið innblástur að málverki og síðan fær einhver innblástur að söguþræði við að horfa á málverkið. Á þennan hátt má tala um hringrás sköpunarkrafts og flæðis manna á milli.

Persónur bókar öðlast líf í hugum fólks og verða kunningjar lesenda. Tónlistin verður hluti af lífinu og hughrifin henta við mismunandi aðstæður. Málverkin og myndir veita öryggi eða kveikja á tilfinningum.

Að vinna að sköpun í flæði er merkilegt. Hvort sem listamaðurinn er að mála, semja tónlist, skrifa eða hanna þá flæða hugmyndirnar fram með sköpunarkraftinum og listamaðurinn finnur hjá sér þörfina að fanga þær og koma þeim frá sér. Það þarf að bregða á leik, eins og barnið sem er komið inn í kastalann undir borðstofuborðinu þá er listamaðurinn inni í sínum hugarheimi að fanga listina í flæðinu og koma henni í orð, mynd, tónlist, skúlptúr og eitthvað annað.

Heimur án listar og hughrifanna sem vakna væri fátæklegur heimur og án sköpunarkrafts mannsins væri lífið leiðinlegra. Ímyndunaraflið og leikurinn færir okkur gleði og kraft og virkjar okkur til að lifa lífinu lifandi.

„Komdu að leika.“

Hrund Hlöðversdóttir er rithöfundur

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30